Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 59  —  59. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um háskóla, nr. 136/1997.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum er óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla.

2. gr.

    Við 1. málsl. 3. mgr. 19. gr. laganna bætist: sbr. þó 2. mgr. 3. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi en var ekki útrætt, það er því endurflutt óbreytt.
    Ekki þarf að deila um það að háskólamenntun verður sífellt mikilvægari í þjóðfélagi okkar. Æ fleiri atvinnugreinar gera kröfu um háskólapróf og sívaxandi hluti hvers kyns náms hérlendis er á háskólastigi. Allt bendir til að sú þróun haldi áfram og að með tímanum verði háskólanám af einhverju tagi lokaáfangi í allri almennri menntun. Af þessu leiðir að menntun verður stöðugt mikilvægari sem lykill að fjölbreyttum atvinnutækifærum og að sama skapi enn þýðingarmeiri fyrir atvinnulíf og samfélag. Jafnrétti til náms er því lykillinn að jöfnum tækifærum.
    Skólagjöld eru í eðli sínu andstæð þessari jafnréttishugsjón og sé litið á þær námsleiðir sem nú eru í boði á háskólastigi hérlendis er ljóst að þar vantar þónokkuð upp á jafnrétti í þessu tilliti. Tilefni frumvarpsins er einkum sú ákvörðun menntamálayfirvalda að leggja Tækniháskóla Íslands niður og færa stærstan hluta þess náms sem þar er í boði undir einkahlutafélag sem leggur skólagjöld á nemendur. Með þessari breytingu verður jafnrétti til náms í tæknigreinum á Íslandi skert verulega.
    Þá verður ekki fram hjá því litið að í Listaháskóla Íslands, sem er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins, þarf að greiða umtalsverð skólagjöld. Á yfirstandandi skólaári nema þau 195 þús. kr. fyrir þriggja til fjögurra ára nám í tónlist, myndlist, leiklist, hönnun og arkitektúr, sem ýmist lýkur með BA- eða BFA-gráðu. Því má gera ráð fyrir að hver nemandi í Listaháskóla Íslands verði að reiða fram um 600–800 þús. kr. í skólagjöld fyrir háskólagráðu sína. Rétt þykir að hafa einnig hliðsjón af því við endurskoðun þessa þáttar í lögum um háskóla svo að sama gildi um alla opinbera háskóla í þessum efnum.
    Flutningsmenn telja brýnt að skólagjöld á háskólastigi verði ekki til þess að stýra vali nemenda á námsleiðum og hrekja fólk frá því námi sem hugur þess stendur helst til. Markmiðið með þessu frumvarpi er að tryggja þennan mikilvæga þátt í raunverulegu jafnrétti til náms.