Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 70  —  70. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurmat á störfum láglaunahópa og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta gera hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa, svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingunni. Könnuð verði tekjuþróun þessara hópa og hlutdeild þeirra í heildartekjum, sundurliðað eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og hjúskaparstöðu á sl. tíu árum, í samanburði við aðra launþega. Úttektin endurspegli einnig kjör sambærilegra hópa á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera.
    Í þessu skyni skipi félagsmálaráðherra fimm manna nefnd sérfróðra aðila á sviði vinnumarkaðsmála, sem skal kveðja sér til ráðuneytis eins og þörf krefur aðila vinnumarkaðarins.
    Markmiðið er að skilgreina hvað láglaunahópur sé og hverjir skipi slíka hópa. Einnig að greina hvað skýri lök kjör láglaunafólks og hvernig auka megi hlut þess í tekjuskiptingunni og bæta kjör þess og aðbúnað með stjórnvaldsaðgerðum og í kjarasamningum.
    Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöðu nefndarinnar sem ljúki störfum eigi síðar en í upphafi næsta þings.

Greinargerð.


    Með aukinni markaðs- og alþjóðavæðingu og miklum breytingum í atvinnulífi, ekki síst á fjármálamarkaðnum, hafa orðið miklar breytingar á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Þetta hefur líkt og hjá mörgum vestrænum þjóðfélögum leitt til aukins ójafnaðar og aukinnar fátæktar. Aukin fátækt, hvort sem er hjá láglaunahópum á vinnumarkaði eða fólki sem lifir á lífeyristekjum og bótum velferðarkerfisins, er víða mikið áhyggjuefni. Margir tengja þessa þróun við aukna samkeppni, aukið flæði fjármagns, fyrirtækja og vinnuafls á tímum hnattvæðingar og aukinnar markaðsvæðingar. Þá er einnig sums staðar þrengt að velferðarkerfum sem eiga þar með erfiðara með að bæta hag skjólstæðinga sinna til samræmis við bættan hag á vinnumarkaði. Ljóst virðist að staða sumra þjóðfélagshópa, t.d. fólks með minni menntun og starfsþjálfun, hefur versnað verulega.
    Breytingarnar má m.a. rekja til þess að eftirspurn eftir menntuðu vinnuafli hefur aukist verulega og ör tækniþróun hefur haft í för með sér hagræðingu og breytta starfshætti í atvinnulífinu sem bitnað hefur mjög á tekjulægri hópunum. Bilið á milli ríkra og fátækra hefur því breikkað og m.a. komið fram í meiri stéttaskiptingu og barnafátækt.
    Þessari þróun hefur ekki verið fylgt eftir af stjórnvöldum sem skyldi með auknum möguleikum tekjulægstu hópanna til endurmenntunar og aðlögunar að breyttum starfsháttum á vinnumarkaði. Oft hefur líka kostnaður við endurmenntun og starfsþjálfun komið í veg fyrir að lágtekjuhópar geti nýtt sér námsframboðið. Ljóst er einnig að öryggisnet velferðarkerfisins hefur gliðnað og ójöfnuður vaxið mikið þrátt fyrir efnahagsuppsveiflu á liðnum árum, m.a. vegna þess að skattbyrði lágtekjufólks- og millitekjufólks hefur aukist.
    Áhrif þessarar þróunar hafa glöggt komið fram að undanförnu því að mjög illa hefur gengið að manna láglaunastörfin í þjóðfélaginu og á það ekki síst við um umönnunar- og uppeldisstörf. Mannekla hefur háð m.a. leikskólum, frístundaheimilum grunnskóla og illa hefur líka gengið að ráða í umönnunarstörf við aldraða og í störf ófaglærðra á sjúkrahúsum, enda eru þessi störf allt of lágt launuð og vanmatið mikið miðað við það álag sem þessar stéttir búa við og þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Á það bæði við um faglærða og ófaglærða starfsmenn. Áætla má að í almennum umönnunarstörfum séu nú um 1200 manns á höfuðborgarsvæðinu og er talið að félagsmenn Eflingar á leikskólum séu um 1000 manns.
    Umönnunar- og uppeldisstörfum fylgir líka mikið álag og ábyrgð, enda um að ræða umönnun barna, aldraðra og sjúkra. Íslendingar vinna langan vinnudag og oftast eru báðir foreldrar á vinnumarkaðnum. Vinnuálag á foreldrum barna er oft gífurlega mikið og það ræður iðulega úrslitum um afkomu heimilanna að báðir foreldrar hafi möguleika til að vera á vinnumarkaðnum. Hinu opinbera ber skylda til að búa vel að umönnunar- og uppeldisstörfum og greiða mannsæmandi laun fyrir þau svo að þar geti ríkt öryggi og festa. Ljóst er að langur vegur er frá því að laun og kjör endurspegli það mikla álag og ábyrgð sem störfunum fylgja eða hve mikil verðmæti felast í þeim fyrir þjóðfélagið. Laun og kjör umönnunarstétta eru í raun til skammar og langt undir öllum velsæmismörkum. Skattgreiðslur þessara hópa hafa líka aukist verulega á umliðnum árum líkt og annarra hópa með lágar eða meðaltekjur.
     Fram hefur komið í umræðunni um manneklu sem nú hefur ríkt að kröfur sem gerðar eru til fólks í umönnunarstörfum séu sífellt að aukast en það sé ekki metið í launum. Um miðjan septembermánuð sl. vantaði um 200 starfsmenn á leikskóla og frístundaheimili borgarinnar. Þar hafa myndast langir biðlistar, en á Reykjavíkursvæðinu voru um miðjan september um 400 börn á biðlista. Á sumum leikskólum hefur þurft að senda börn heim þannig að þau hafa ekki fengið fulla þjónustu. Mikið vantar af menntuðu starfsfólki á leikskólana, leikskólakennarar eru allt of fáir og eru nú einkum ráðnir ófaglærðir starfsmenn í þeirra störf. Staðan er sú að um 60% starfsmanna á leikskólum er ófaglært starfsfólk og er nauðsynlegt að gert verði sérstakt átak til að fjölga leikskólakennurum. Stjórn Eflingar hefur nýverið bent á að það sé orðið staðreynd sem ekki verði litið fram hjá að almennir starfsmenn leikskólanna halda uppi starfsemi þeirra í ríkum mæli og starfsemin væri nánast lömuð ef ekki kæmi til vinnuframlags þessara starfsmanna. Ljóst er að ekki væri hægt að halda úti starfsemi leikskóla ef ekki kæmi til starfskraftar ófaglærðs fólks, sem svo mjög er vanmetið til launa.
    Ástæða er til að nefna að Efling – stéttarfélag hefur beitt sér fyrir átaki til að auka menntun almennra starfsmanna leikskóla. Boðið er upp á starfsnám fyrir leikskólastarfsmenn sem er athyglisvert. Markmið þessa verkefnis, eins og fram kom í yfirlýsingu Eflingar nýverið, er að ná til þess hóps sem hefur lengstan starfsaldur og þar með reynslu og þekkingu af starfi á leikskólum. Efling hefur líka lagt áherslu á að meginatriðið nú sé að taka strax á launakjörum og réttindum almennra starfsmanna leikskólanna þannig að starfið verði eftirsóknarverðara og metið að þeim verðleikum sem eiga að felast í menntunar- og uppeldisstörfum.
    Fram hefur komið að mannabreytingar eru mjög tíðar ekki síst á leikskólum en til marks um hve illa starfsfólk helst á leikskólum hefur verið nefnt að hvert barn umgangist að jafnaði á milli 25–30 starfsmenn á aðeins fjögurra ára leikskólaferli. Foreldrar sem bæði þurfa að vinna langan vinnudag setja allt traust sitt á leikskólana og brýnt er að öryggi og festa ríki í öllu starfi og uppbyggingu á leikskólunum.
    Neyðarástand hefur líka myndast á dvalarheimilum aldraðra vegna manneklu, en fólk flýr þessi lágt launuðu umönnunarstörf þegar betur árar á vinnumarkaði. Fram hefur komið opinberlega að dvalarheimili aldraðra hafi skert þjónustu sína, innlagnir hafi verið stöðvaðar og biðlistar lengst. Lágu launin eru meginskýring þess að fólk fæst ekki til starfa. Ljóst er að það þarf að ráðast í endurmat á störfum láglaunahópanna og auka hlut þeirra í tekjuskiptingunni. Fram kom í Morgunblaðinu nú nýverið, og var þar byggt á gögnum Hagstofu Íslands, að jafnvel þótt átak hafi verið gert til að hækka kjör lægst launaða fólksins og lægstu launin hafi hækkað talsvert, m.a. umtalsvert umfram lífeyri almannatrygginga, hafa laun almenns verkafólks ekki haldið í við launaskriðið í þjóðfélaginu og almenna launaþróun. Ef skoðuð er t.d. launaþróun verkafólks frá 1998–2004, eða á sex ára tímabili, kemur í ljós að meðallaun verkafólks hafa hækkað minna en annarra stétta. Byrjunarlaun á leikskólum, svo að dæmi sé tekið, hafa þó hækkað umfram launavísitölu á árunum 2000–2005. Vinnutími verkafólks hefur líka staðið í stað en meðalvinnutími hefur almennt styst.
    Annað sem breytt hefur tekjuskiptingunni og ráðstöfunartekjum á vinnumarkaði eru gífurlegar breytingar á skattbyrðinni þar sem hún hefur í auknum mæli færst frá fyrirtækjum og fjármagni yfir á laun og lífeyrisgreiðslur. Á stuttum tíma hefur orðið til hópur nýríkra Íslendinga sem algengt er að hafi í tekjur 2–6 millj. kr. á mánuði og sumir hverjir töluvert meira á sama tíma og lágmarkslaunin í landinu eru um 103.000 kr. Stór hluti þeirra efnameiri í þjóðfélaginu hefur líka verulegan hluta tekna sinna af fjármagni og arði og skatthlutfall þeirra er verulega lægra en lágtekjuhópanna. Allt þetta hefur leitt til þess að þeir fátæku hafa orðið fátækari og þeir ríku ríkari, enda hefur myndast hyldýpisgjá milli lágtekju- og meðaltekjuhópanna og þeirra sem fylla hóp þeirra efnuðu í þjóðfélaginu.
    Nýleg skýrsla forsætisráðherra um fátækt sýnir að tekjur í lægsta tekjuhópnum hafa hækkað hlutfallslega mun minna en hjá hinum efnameiri. Tekjur þeirra lægst launuðu hækkuðu á tímabilinu 1995–2002 um 17% á meðan hækkunin var 45% meðal hinna tekjuhæstu. Bilið milli ríkra og fátækra fer því sívaxandi í þjóðfélaginu og hópur þeirra sem lifa þurfa á af tekjum sem eru langt undir kostnaði við brýnustu nauðþurftir hefur farið stækkandi. Á sama tíma eykst skattbyrði láglaunafólks. Í dag greiðir fólk með 110.000 kr. í mánaðartekjur tæplega 14% skatt en greiddi 2–3% af samsvarandi tekjum árið 1995.
    Markmið þessarar tillögu er að stjórnvöld láti vinna hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa, svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingunni, þ.e. hvert er hlutfall láglaunahópa í heildartekjum allra, sundurliðað eftir kjördæmum, atvinnugreinum, kyni og aldri. Lögð er áhersla á að umönnunar- og uppeldisstörf verði skoðuð sérstaklega. Markmiðið er að skilgeina hverjir skipa láglaunahópana, jafnframt því að koma með tillögur um hvernig auka megi hlut þeirra í tekjuskiptingunni og launakjörum og bæta aðbúnað þeirra í þjóðfélaginu. Hlutlaus úttekt og endurmat er nauðsyn fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins til að geta lagt sanngjarnt mat á vinnuframlag láglaunahópa og eðlilega hlutdeild þeirra í tekjuskiptingunni. Auk þess er sú rannsókn, sem hér er gerð tillaga um, forsenda þess að á raunhæfan hátt sé hægt að auka tekjur láglaunahópanna í þjóðfélaginu. Slíkar upplýsingar eru líka mikilvægar fyrir stjórnvöld, því að á grundvelli þeirra mætti gera sér betri grein fyrir því hvaða aðferðum er hægt að beita til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir. Hér er þó á engan hátt verið að ganga fram hjá aðilum vinnumarkaðarins, enda til þess ætlast að þeir verði kallaðir til ráðuneytis í slíkri rannsókn.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að rannsóknin verði bæði fljótvirkari og síður hlutdræg ef hún er í höndum sérfróðra aðila sem hafa betri aðstöðu til þess að leggja hlutlægt mat á verkið. Væri það eingöngu í höndum aðila vinnumarkaðarins er ákveðin hætta á að hlutlægar niðurstöður fengjust. Þessi úttekt gæti síðan orðið grundvöllur aðgerða af hálfu bæði ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins til að bæta kjör lágtekjuhópa og færa laun umönnunar- og uppeldisstétta í það horf að mannsæmandi geti talist.