Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 82  —  82. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á einkamálalögum, nr. 91/1991 (gjafsókn).

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurjón Þórðarson.



1. gr.

    Í stað 1. mgr. 126. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Gjafsókn verður aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
     a.      að fjárhag hans sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
     b.      að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.
    Dómsmálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þar með talið hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um skilyrði fyrir gjafsókn. Meginreglurnar um gjafsókn er að finna í XX. kafla laga um meðferð einkamála. Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 126. gr. laganna en þar er kveðið á um að einstaklingi megi veita gjafsókn ef fjárhag hans er þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða enda sé nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Með frumvarpinu er lögð til almenn heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Þar koma einkum til álita mál þar sem fjallað er um mikilvæga hagsmuni almennings eða mál sem hefur verulega þýðingu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Sambærileg heimild var áður í lögum en var felld niður með lögum nr. 7/2005.
    2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 126. gr. í gildandi lögum.