Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 171  —  171. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.


Flm.: Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir,


Steingrímur J. Sigfússon, Hlynur Hallsson.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði laganna gilda um alla erlenda launamenn sem starfa hér á landi, hvort sem er á vegum íslenskra eða erlendra atvinnurekenda, starfsmannaleigna eða hliðstæðra fyrirtækja.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Fyrirtækjum skv. 2. mgr. 1. gr. og atvinnurekendum sem nýta sér þjónustu þeirra er skylt að veita trúnaðarmönnum stéttarfélaga aðgang að ráðningarsamningum og upplýsa um launakjör viðkomandi launamanna.


3. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn lögum þessum varða sektum og dæma má þeim miskabætur sem misgert er við.


4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2006.
    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 55/1980, með síðari breytingum, og gefa þau út með samfelldri greinatölu svo breytt.

Greinargerð.


    Hinn 30. ágúst 2004 skipaði Árni Magnússon félagsmálaráðherra nefnd sem ætlað var að semja frumvarp um aðkomu starfsmannaleigna að íslenskum vinnumarkaði. Nefndin hefur ekki lokið störfum. Frá því að nefndin var skipuð hefur þeim fyrirtækjum stöðugt fjölgað sem notfæra sér þjónustu starfsmannaleigna eða gera hliðstæða samninga um störf erlendra launamanna í þeirra þágu. Þetta frumvarp var flutt á 131. löggjafarþingi af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var Atli Gíslason fyrsti flutningsmaður. Þörfin á þessum lagabreytingum er orðin jafnvel enn brýnni en þá var.
    Það hefur verið staðreynt að margir hinna erlendu launamanna sem hingað koma njóta ekki samsvarandi kjara og réttinda og íslenskir launamenn. Eru laun og önnur starfskjör þeirra iðulega lakari en aðildarsamtök vinnumarkaðarins hafa samið um sem lágmarkskjör. Enn fremur liggur fyrir að mikill fjöldi erlendra launamanna kemur hingað til lands sem ferðamenn og starfar hér án tilskilinna atvinnu- og dvalarleyfa. Leikur rökstuddur grunur á því að opinberum gjöldum, bæði staðgreiðslu og launatengdum gjöldum, af launum margra þessara starfsmanna sé ekki skilað. Frá þessum staðreyndum hefur ítrekað verið greint í fjölmiðlum og hefur verkalýðshreyfingin ítrekað krafist þess að gripið verði í taumana. Alþýðusamband Íslands ítrekaði kröfur um þetta efni í lok september. Því miður hafa stjórnvöld ekki orðið við ítrekuðum tilmælum verkalýðshreyfingarinnar um að grípa í taumana.
    Það hefur verið dregið í efa að lög nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, taki til allra erlendra launamanna sem hér starfa. Þá er ljóst að ákvæði laga nr. 54/2001 taka aðeins til lágmarksréttinda skv. 1. gr. laga nr. 55/1980, þ.e. til lágmarkslauna, yfirvinnugreiðslna, orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma. Er úr því bætt með frumvarpi þessu og lagt til að öll ákvæði laga nr. 55/1980 taki til erlendra launamanna sem starfa hér á landi.
    Það ástand sem hér hefur verið lýst er til þess fallið að valda harðvítugum deilum og upplausn á íslenskum vinnumarkaði. Gæti svo farið að hér kæmi til svipaðra átaka og á upphafsárum verkalýðsbaráttunnar fyrir setningu laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Hér eru afar mikilsverðir hagsmunir í húfi fyrir aðildarsamtök vinnumarkaðarins, launamenn, atvinnurekendur, ríki og sveitarfélög.
    Það er grundvallaratriði að skipulag og leikreglur á vinnumarkaði haldist í því friðsamlega horfi sem verið hefur síðastliðna áratugi. Frumvarpinu er ætlað að taka á þessu vandamáli og því er beint gegn viðkomandi starfsmannaleigum og hliðstæðum fyrirtækjum og atvinnurekendum sem við þær skipta, burtséð frá samningum þeirra á milli. Að sama skapi mun lögfesting frumvarpsins vernda kjör og réttindi viðkomandi launamanna. Einnig er lögfesting frumvarpsins til þess fallin að tryggja samkeppnisstöðu atvinnurekenda. Má ljóst vera að þeir fjölmörgu atvinnurekendur sem fara að lögum í einu og öllu standa höllum fæti í samkeppni við atvinnurekendur sem greiða laun undir lágmarkskjörum og standa ekki eða illa skil á opinberum gjöldum. Um frekari rökstuðning er vísað til frumvarps til laga um útsenda starfsmenn, sem lagt var fram á 126. löggjafarþingi, þskj. 885, 573. mál.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni eru tekin af öll tvímæli um það að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skuli vera lágmarkskjör fyrir alla erlenda launamenn sem hér starfa á Íslandi, einnig þá sem starfa á grundvelli leigu- eða þjónustusamninga starfsmannaleigna, og að lög nr. 55/1980 taki til þeirra í einu og öllu. Leigusamningar, þjónustusamningar og aðrir samningar um lakari ráðningarkjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.

Um 2. gr.

    Vegna þeirra hagsmuna sem eru í húfi fyrir íslenskan vinnumarkað þykir rétt að kveða á um heimild til eftirlits trúnaðarmanna stéttarfélaga með umræddum fyrirtækjum, starfsmannaleigum sem öðrum, og atvinnurekendum sem nýta sér þjónustu þeirra. Ber þessum aðilum að afhenda ráðningarsamninga hinna erlendu launamanna. Komi ekki fram upplýsingar um launakjör í ráðningarsamningum geta trúnaðarmenn kallað eftir öðrum gögnum sem upplýsa um þau.

Um 3. gr.

    Mælt er fyrir um sektar- og miskabótaheimildir. Gert er ráð fyrir að sektum verði beitt þegar brot eru alvarleg eða ítrekuð og að þeir launamenn sem lögin eru brotin á geti krafist miskabóta. Það er lagt í vald dómstóla að ákveða hvenær rétt sé að verða við kröfum um miskabætur og fjárhæð þeirra eftir eðli máls hverju sinni.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.