Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.

Þskj. 189  —  189. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi,
nr. 16 14. apríl 2000, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Í upplýsingakerfið má skrá eftirfarandi upplýsingar um einstaklinga:
     a.      kenninafn, eiginnöfn með vísun til hugsanlegrar sérskráningar falskra nafna,
     b.      sérstök varanleg líkamleg einkenni,
     c.      fæðingarstað, fæðingardag og -ár,
     d.      kynferði,
     e.      ríkisfang,
     f.      hvort viðkomandi er vopnaður, ofbeldishneigður eða á flótta,
     g.      ástæðu fyrir skráningu,
     h.      aðgerðir sem farið er fram á,
     i.      tegund brots, þegar upplýsingar eru skráðar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr.
    Í upplýsingakerfið má skrá upplýsingar um eftirtalda hluti:
     a.      vélknúin ökutæki með slagrými yfir 50 rúmsentimetrum, skip, báta og loftför, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
     b.      eftirvagna með eigin þunga yfir 750 kg, hjólhýsi, atvinnutæki, utanborðsvélar og gáma sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
     c.      skotvopn sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
     d.      óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið,
     e.      útgefin persónuskilríki, svo sem vegabréf, nafnskírteini, ökuskírteini, dvalarleyfi og ferðaskilríki, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða verið ógilt.
     f.      skráningarskírteini og skráningarmerki ökutækja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða verið ógilt,
     g.      peningaseðla með skráðum númerum,
     h.      verðbréf og aðrar tegundir greiðslu, svo sem ávísanir, greiðslukort, skuldabréf eða hlutabréf, sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið.

2. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að skrá upplýsingar um einstaklinga, ökutæki, báta, skip, loftför og gáma í upplýsingakerfið til að fram fari eftirlit með leynd, leit, líkamsleit eða líkamsrannsókn í eftirfarandi tilvikum.

3. gr.

    Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, er orðast svo:
    Ríkislögreglustjóra er heimilt að veita þar til bærum yfirvöldum í öðru Schengen-ríki nauðsynlegar viðbótarupplýsingar í tengslum við skráningu í upplýsingakerfið, sem og þegar hlutir eða einstaklingar, sem skráðir hafa verið í kerfið, finnast. Ekki má nota slíkar upplýsingar á annan veg en leiðir af tilgangi skráningar eða beiðni.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Fyrir framan orðið „lögreglan“ í a-lið 1. mgr. kemur: ríkissaksóknari og.
     b.      Á eftir orðinu „grundvelli“ í b-lið 1. mgr. kemur: d- og e-liðar 2. mgr. 5. gr. og.
     c.      Á eftir b-lið 1. mgr. kemur nýr stafliður er orðast svo: Umferðarstofa við skráningu ökutækja; aðgangurinn takmarkast þó við upplýsingar um ökutæki á grundvelli a-liðar 2. mgr. 5. gr., um eftirvagna og hjólhýsi á grundvelli b-liðar 2. mgr. 5. gr. og um skráningarskírteini og skráningarmerki á grundvelli f-liðar 2. mgr. 5. gr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Orðin „og ökutæki“ í b-lið 2. mgr. falla brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður er orðast svo: upplýsingar um hluti skv. 7. gr. innan fimm ára frá skráningu.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Aðrar upplýsingar sem skráðar eru í kerfið skulu ekki standa lengur en í tíu ár frá skráningu.

6. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, er orðast svo:
    Viðbótarupplýsingar um einstaklinga og hluti sem verða til við upplýsingaskipti á grundvelli 9. gr. a má einungis geyma í þann tíma sem er nauðsynlegur í samræmi við tilgang skráningarinnar og aldrei lengur en í eitt ár eftir að samsvarandi skráningu, sem varðar sömu einstaklinga eða hluti, í Schengen-upplýsingakerfinu hefur verið eytt.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, sem er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi í samræmi við fjórar gerðir Evrópusambandsins. Tvær þeirra, reglugerð (EC) nr. 871/2004, frá 29. apríl 2004, birt í stjórnartíðindum EB 30. apríl 2004 (hér eftir kölluð reglugerð nr. 871/2004) og ákvörðun 2005/211/JHA frá 24. febrúar 2005, birt í stjórnartíðindum EB 15. mars 2005 (hér eftir kölluð ákvörðun 2005/211) kveða á um nokkrar efnisbreytingar á Schengen-samningnum, meðal annars vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum. Sú þriðja, ákvörðun 2005/451/JHA, frá 13. júní 2005, hefur að geyma gildistökuákvæði reglugerðar nr 871/2004). Hin fjórða, reglugerð (EC) nr. 1160/2005, frá 6. júlí 2005, birt í stjórnartíðindum EB 22. júlí sama ár (hér eftir kölluð reglugerð nr. 1160/2005) kveður á um breytingu á Schengen-samningnum vegna heimildar yfirvalda í aðildarríkjunum, er sjá um skráningu ökutækja, til aðgangs að ákveðnum upplýsingum úr kerfinu.
    Breytingarnar á Schengen-samningnum sem framangreindar gerðir hafa í för með sér felast einkum í að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið, miðlun nauðsynlegra viðbótarupplýsinga í tengslum við skráningu í kerfið er auðvelduð og fleirum er veittur aðgangur að því en áður. Að sama skapi eru ákvæði um eyðingu upplýsinga einfölduð, sérstök ákvæði sett um eyðingu viðbótarupplýsinga og eftirlit með aðgangi að kerfinu hert.
    Með samningi Íslands og Noregs við ráð Evrópusambandsins sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999 gerðust Íslendingar aðilar að Schengen-samstarfinu sem miðar að því að fella niður landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins. Schengen-upplýsingakerfið er hluti af Schengen-samningnum og er nauðsynlegt tæki til að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu þegar eftirlit er ekki lengur á innri landamærum. Upplýsingakerfið greinist annars vegar í staðbundinn hluta kerfisins sem starfræktur er í hverju þátttökuríkjanna og hins vegar miðlægan hluta þess sem staðsettur er í Strassborg í Frakklandi. Vegna stækkunar Evrópusambandsins stendur nú fyrir dyrum stækkun á Schengen-upplýsingakerfinu. Fyrirhugað er að breytingar vegna stækkunarinnar taki gildi á árinu 2007. Þó voru nokkrar breytingar sem auðvelt var að framkvæma fyrir hina fyrirhuguðu stækkun og ekki talið æskilegt að bíða með. Áðurnefndar gerðir taka til þeirra breytinga.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi í því skyni að laga lögin að umræddum gerðum að því leyti sem þær varða staðbundna hluta kerfisins. Helstu breytingarnar eru í fyrsta lagi að fjölgað er tegundum þess sem hægt er að skrá í kerfið. Með breytingunum bætast við fleiri tegundir farartækja og hluta, t.d. skip, bátar, loftför, atvinnutæki og gámar, og einnig fleiri tegundir skjala, svo sem ferðaskilríki, dvalarleyfi, hlutabréf og skuldabréf.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir miðlun sérstakra viðbótarupplýsinga í tengslum við skráningu í kerfið. Slíkar upplýsingar eru ekki skráðar í kerfið sjálft heldur geta verið til í skrám hjá þar til bærum yfirvöldum í hverju aðildarríki. Þær geta reynst nauðsynlegar þegar einstaklingur eða hlutur sem skráður hefur verið í kerfið finnst svo að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða. Mikilvægt er að upplýsingar sem eru gefnar eða þegnar með slíkri lögreglusamvinnu standi ekki í skrám móttökuríkis lengur en nauðsyn krefur og er sérstaklega kveðið á um hvenær beri að eyða þeim.
    Í þriðja lagi verði fleirum bætt í hóp þeirra er hafa beinlínuaðgang að upplýsingakerfinu. Gerðirnar kveða á um að heimilt sé að veita dómsmálayfirvöldum í aðildarríkjum beinlínuaðgang, þar með talið þeim sem fara með saksókn. Í samræmi við það er lagt til að ríkissaksóknari fái slíka heimild. Þá er einnig í einni gerðanna kveðið á um að þeim yfirvöldum sem sjá um skráningu bifreiða verði heimilaður beinlínuaðgangur að kerfinu. Sá aðgangur er þó takmarkaður við þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að kanna hvort ökutækjum hefur verið stolið, þau seld ólöglega eða þau hafi horfið. Ákvæðið er tilkomið til að sporna við skipulögðum bílþjófnuðum, en sú starfsemi teygir sig yfir landamæri og því nauðsynlegt að samvinna milli aðildarríkjanna sé skilvirk. Lagt er til að Umferðarstofa fái slíka heimild.
    Í fjórða lagi verði þeim sem sjá um útgáfu vegabréfa og skilríkja veittur rýmri aðgangur að upplýsingum í kerfinu sem tengjast störfum þeirra.
    Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að reglur sem gilda um tímamörk eyðingar gagna verði einfaldaðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Á 1. mgr. 5. gr. laganna, sem fjallar um upplýsingar sem skrá má um einstaklinga, eru lagðar til þær breytingar að c-liður er kveður á um að rita skuli fyrsta bókstaf annars eiginnafns verði felldur niður en í staðinn verði kveðið á um í a-lið að rita skuli öll eiginnöfn viðkomandi einstaklings. Þá verði tveimur nýjum skráningaratriðum bætt við ákvæðið er taki til þess annars vegar að skrá skuli hvort viðkomandi sé á flótta undan réttvísinni og hins vegar að stafi skráning af beiðni um að eftirlýstur maður verði handtekinn eða framseldur þá skuli skrá tegund brots. Eru þessar breytingar í samræmi við áskilnað 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 3. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.
    Á 2. mgr. 5. gr. laganna eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
    Við upptalninguna í a-lið verði bætt við fleiri hlutum sem eru grundvöllur skráningar. Samkvæmt breytingunni mun verða hægt að skrá í kerfið upplýsingar um skip, báta og loftför. Er breytingin í samræmi við áskilnað 4. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.
    Á b-lið verði sú breyting að skilyrðið um að hjólhýsi þurfi að vera að ákveðinni þyngd verði fellt niður og fleiri farartæki og hlutir bætist við. Er breytingin í samræmi við áskilnað b-liðar 7. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.
    Í e-lið verði bætt við fleiri skilríkjum sem geta verið grundvöllur skráningar, þ.e. auk vegabréfa, nafnskírteina og ökuskírteina verði nú bætt við dvalarleyfum og ferðaskilríkjum. Einnig verði bætt við þær ástæður sem geta verið grundvöllur skráningar þannig að auk þess að skrá skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið skuli nú einnig skrá skilríki sem hafa verið ógilt. Breytingin er í samræmi við áskilnað e-liðar 7. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.
    Þá bætist við nýr stafliður, j-liður, sem kveði á um að skrá skuli verðbréf og aðrar tegundir greiðslna, svo sem ávísanir, greiðslukort, skuldabréf og hlutabréf sem hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið. Er breytingin í samræmi við áskilnað h-liðar 7. mgr. 1. mgr. ákvörðunar 2005/211.

Um 2. gr.


    Á 7. gr. laganna er lögð til sú breyting að heimilt verði að skrá fleiri hluti í upplýsingakerfið þannig að fram geti farið eftirlit með leynd, leit, líkamsleit eða líkamsrannsókn. Auk upplýsinga um einstaklinga og ökutæki verði einnig heimilt að skrá upplýsingar um báta, skip, loftför og gáma. Er þessi breyting í samræmi við áskilnað 4. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.

Um 3. gr.


    Lagt er til að nýrri grein verði bætt við lögin sem veiti ríkislögeglustjóra heimild til að gefa þar til bærum yfirvöldum í aðildarríki Schengen-samningsins frekari upplýsingar í tengslum við skráningu. Nú þegar hafa lögregluyfirvöld slíkar heimildir til að gefa upplýsingar vegna lögreglusamvinnu milli landa en lagagrundvöllur fyrir þeirri upplýsingagjöf er í lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Ekki hefur hingað til verið talið nauðsynlegt að lögfesta sérstaklega heimild af þessu tagi í tengslum við upplýsingar er varða skráningu í Schengen-upplýsingakerfið. Nú þykir hins vegar rétt að kveða á um slíka heimild í lögunum um Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að flýta og einfalda alla samvinnu í tengslum við upplýsingagjöf og ekki síst í ljósi þess að umræddar gerðir gera ráð fyrir sérstökum ákvæðum um eyðingu slíkra upplýsinga.
    Með þar til bærum yfirvöldum í ákvæðinu er átt við yfirvöld í Schengen-ríki sem hafa beinan aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu.
    Breytingin er í samræmi við áskilnað 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 1. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.

Um 4. gr.


    Á a-lið 1. mgr. 10. gr. laganna er lögð til sú breyting að ríkissaksóknara verði fengin beinlínutenging við Schengen-upplýsingakerfið. Er þetta í samræmi við 8. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 3. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211. Nú þegar hafa saksóknarar sem heyra undir lögreglustjóra í hverju umdæmi landsins þessa heimild samkvæmt a-lið gildandi laga. Eðlilegt þykir að ríkissaksóknari hafi heimild til jafns við lögreglu í þessum efnum.
    Í b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna eru heimildir Útlendingastofnunar til aðgangs að upplýsingum úr kerfinu rýmkaðar nokkuð í samræmi við starfssvið stofnunarinnar. Með breytingunni er lagt til að stofnunin fái aðgang að upplýsingum skv. d- og e-liðum 2. mgr. 5. gr. sem taka til óútfylltra skilríkja, útgefinna persónuskilríkja og ýmissa annarra skilríkja sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega, hafa horfið eða verið ógilt. Breytingin er í samræmi við áskilnað 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004.
    Þá er gert ráð fyrir að nýjum staflið verði bætt við greinina sem veiti Umferðarstofu beinlínuaðgang að ákveðnum upplýsingum úr kerfinu. Breyting þessi er í samræmi við 1. mgr. 1. gr. EB reglugerðar nr. 116/2005. Reglugerð þessi er tilkomin vegna sívaxandi bílþjófnaða innan aðildarríkjanna. Schengen-upplýsingakerfið getur reynst öflugt tæki til að sporna við þeirri starfsemi þar sem um er að ræða sameiginlegan gagnagrun sem öll aðildarríkin hafa aðgang að. Reglugerðin veitir yfirvöldum sem annast skráningu bifreiða í aðildarríkjunum beinlínuaðgang að ákveðnum upplýsingum í upplýsingakerfinu. Hér á landi er það Umferðarstofa sem fer með það hlutverk og er því lagt til í ákvæðinu að henni verði fengin slík heimild.
    Samkvæmt reglugerðinni er skráningaryfirvöldum einungis veittur aðgangur að skráðum upplýsingum er varða ökutæki með slagrými yfir 50 rúmsentimetrum, eftirvögnum með eigin þunga yfir 750 kg og hjólhýsum ásamt skráðum upplýsingum um skráningarskírteini og skráningarmerki ökutækja. Skráningaryfirvöld hafa aðgang að nefndum upplýsingum í þeim tilgangi að kanna hvort viðkomandi ökutækjum hefur verið stolið, hvort þau hafa verið seld án heimildar eða hvort þau hafa horfið.

Um 5. gr.


    12. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211 gerir ráð fyrir einföldun á þeim reglum er gilda um eyðingu upplýsinga úr kerfinu. Breytingar sem lagðar eru til á 17. gr. laganna eru í samræmi við þann áskilnað og kveða á um að eyða skuli upplýsingum sem skráðar hafi verið um einstaklinga skv. 6. gr laganna innan þriggja ára frá skráningu. Upplýsingum sem hafi verið skráðar um einstaklinga á grundvelli 7. gr. laganna, þ.e. þegar fram skal fara eftirlit með leynd, leit, líkamsleit eða líkamsrannsókn, skuli eytt innan árs frá skráningu en upplýsingum um hluti á grundvelli sömu lagagreinar skuli eytt innan fimm ára frá skráningu. Öllum öðrum upplýsingum skuli eytt innan tíu ára frá skráningu.

Um 6. gr.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir eyðingu þeirra viðbótarupplýsinga sem verða til við lögreglusamvinnu milli Schengen-ríkja á grundvelli 3. gr. frumvarpsins. Slíkar upplýsingar megi ekki geyma lengur en nauðsynlegt sé í samræmi við tilgang skráningarinnar og aldrei lengur en í eitt ár eftir að skráningu um viðkomandi einstakling eða hlut hefur verið eytt í upplýsingakerfinu. Breyting þessi er í samræmi við áskilnað 7. og 8. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 871/2004 og 11. og 13. mgr. 1. gr. ákvörðunar 2005/211.

Um 7. gr.


    Miðað er við að lögin taki þegar gildi. Gildistökuákvæði gerðanna kveða á um mismunandi gildistöku einstakra ákvæða en þau fyrstu munu taka gildi 10. desember 2005. Rétt þykir að ákvæði laganna taki öll gildi á sama tíma, enda horfir það til einföldunar og veldur ekki vandkvæðum í framkvæmd laganna.



Fylgiskjal.


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lagaákvæðum um upplýsingar sem má skrá um einstaklinga og hluti í Schengen-upplýsingakerfi íslenskra stjórnvalda, hverjum sé það heimilt og hve lengi megi varðveita slíkar upplýsingar. Þá er lagt til að lögfest verði heimild til skráningar sérstakrar viðbótarupplýsingar og hvenær eigi að eyða þeim upplýsingum. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.