Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 266  —  253. mál.




Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Frá Helga Hjörvar.


     1.      Hvað les ráðherra úr þeim umfangsmiklu fjárráðstöfunum sem felast í fjáraukalögum og lokafjárlögum, sbr. skýrslu Ríkisendurskoðunar frá júní 2005 þar sem segir að það ætti að heyra til algerra undantekninga að stofnað sé til skuldbindinga nema lögmæt fjárheimild sé til staðar, sbr. ákvæði í stjórnskipunarlögum?
     2.      Telur ráðherra það bera vott um styrka fjármálastjórn að á árinu 2004 hafi gjöld umfram fjárheimildir verið 12,7 milljarðar kr. og ónotaðar fjárheimildir 19,5 milljarðar kr.? Telur ráðherra umfang þessara heimilda ásættanlegt?
     3.      Hvernig hafa umframfjárveitingar og ónotaðar fjárveitingar þróast á síðustu fimm árum?
     4.      Telur ráðherra að gildandi reglur um framkvæmd fjárlaga séu fullnægjandi? Ef svo er ekki, hvaða þættir eru það sem bæta þarf úr?
     5.      Telur ráðherra að fagráðuneytin og einstakar stofnanir hafi brugðist við eins og mælt er fyrir um í reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A- hluta?
     6.      Telur ráðherra að eðlilega hafi verið tekið á vanda þeirra stofnana sem safnað hafa umtalsverðum halla á síðustu árum?
     7.      Hve margar stofnanir glíma við uppsafnaðan halla umfram 4% samkvæmt útkomuspá fyrir yfirstandandi ár?
     8.      Hefur ákvæðum 49. gr. fjárreiðulaga um ábyrgð forstöðumanna verið beitt vegna framkvæmdar fjárlaga? Ef svo er, hversu oft og hvenær?
     9.      Hefur fjármálaráðuneytið stöðvað greiðslur til þeirra stofnana sem fara umfram 4% mörkin þar til gripið hefur verið til viðeigandi ráðstafana, svo sem niðurskurðar í rekstri eða að Alþingi samþykki viðbótarheimild, eins og Ríkisendurskoðun leggur til í áðurnefndri skýrslu? Ef svo er, í hvaða tilvikum? Hver er afstaða ráðuneytisins til þessa úrræðis?


Skriflegt svar óskast.