Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 282  —  269. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar



um fangaflutninga um íslenska lögsögu.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhanna Sigurðardóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Jón Gunnarsson, Ágúst Ólafur Ágústsson,


Guðrún Ögmundsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Helgi Hjörvar, Margrét Frímannsdóttir,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



    Alþingi ályktar að flutningar fanga um íslenska lögsögu til ríkis þar sem ástæða er til að ætla að þeir eigi hættu á að sæta pyndingum, vanvirðandi, ómannlegri meðferð eða refsingu séu með öllu óheimilir.
    Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að ákvæðum alþjóðasamninga, sem Ísland er aðili að og miða að því að koma í veg fyrir pyndingar, vanvirðandi, ómannlega meðferð eða refsingu, sé framfylgt, og fyrir það girt að erlendir aðilar geti flutt fanga um íslenska lögsögu á leið til staða þar sem hætt er við að framangreind ákvæði alþjóðasamninga séu ekki virt.
    Ríkisstjórnin skal gera utanríkismálanefnd Alþingis grein fyrir hvernig hún hyggst beita sér til að tryggja að markmið ályktunar þessarar nái fram að ganga.

Greinargerð.


    Sterkar líkur eru á því að bandaríska leyniþjónustan hafi notað Ísland sem viðkomustað við flutning fanga á leið til landa þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur.
    Samgönguráðherra dönsku ríkisstjórnarinnar hefur upplýst í danska þinginu um skrásetningarnúmer fjölda flugvéla sem bandaríska leyniþjónustan hefur leigt af flugfélögum og hafa millilent í Danmörku en rökstuddur grunur leikur á að flugvélarnar hafi verið notaðar m.a. til að flytja meinta hermdarverkamenn í þessu skyni. Samkvæmt upplýsingum sem Ríkisútvarpið mun hafa fengið hjá flugmálastjórn hafa 15 af ofangreindum flugvélum lent margsinnis hér á landi, raunar miklu oftar en í Danmörku. Nokkrar hafa lent hér einu sinni, sumar nokkrum sinnum, ein 8 sinnum, ein 11 sinnum og tvær 15 sinnum. Í þessu ljósi er óhætt að segja að verulegar líkur séu á því að bandarísk stjórnvöld hafi notað Ísland sem viðkomustað í flutningum fanga í tilgangi sem brýtur í bága við alþjóðlega samninga.
    Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er með öllu óheimilt að beita menn pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ísland hefur jafnframt gerst aðili að fjölmörgum alþjóðlegum mannréttindasamningum sem banna pyndingar eða illa meðferð á föngum. Í 3. gr. alþjóðasamnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 23. október 1996, er lagt bann við því að mönnum sé vísað úr landi, þeir endursendir eða framseldir til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að þeir sæti þar pyndingum. Í 5. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að enginn maður skuli sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sams konar ákvæði er einnig að finna í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ísland er aðili að þessum samningum og má nefna að mannréttindasáttmáli Evrópu hefur lagagildi á Íslandi. Jafnframt er refsivert að íslenskum rétti að beita pyndingum.
    Flutningsmenn vekja sérstaka athygli á því að nýlegar breytingar á almennum hegningarlögum veita íslenska ríkinu refsilögsögu í málum sem tengjast brotum á alþjóðasamningi um bann við pyndingum frá 1984, jafnvel þótt brotið sé framið utan íslensks forráðasvæðis. Íslenska ríkið fer með lögsögu á forráðasvæði sínu hvort sem um er að ræða á landi, í landhelgi eða lofthelgi og á ekki að leyfa umferð erlendra loftfara eða skipa sem flytja menn til staða þar sem hætt er við að mannréttindi verði á þeim brotin.
    Af framansögðu má sjá að það er með öllu óverjandi að Ísland sé notað með einhverjum hætti til að beita fanga ómannúðlegri meðferð, hvað þá pyndingum. Slíkt stríðir gegn friðsamlegum og mannúðlegum viðhorfum íslensku þjóðarinnar. Það gengur jafnframt í berhögg við stjórnarskrá Íslands, íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
    Hið algera bann samningsins við pyndingum og illri meðferð felur einnig í sér algert bann við að flytja fanga til ríkis þar sem hætta er á að hann verði pyndaður eða látinn sæta grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Í því ljósi og af almennum siðferðilegum ástæðum er allsendis óþolandi að erlend stjórnvöld misnoti íslenska lögsögu í þessum tilgangi.
    Enginn vafi má leika á viðhorfi fulltrúa íslensku þjóðarinnar í þessu máli. Því er brýnt að afstaða Alþingis til málsins komi skýrt fram, eins og hér er lagt til.