Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 181. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 303  —  181. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur og Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar.

     1.      Hversu mikið fjármagn fer til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landinu, sundurliðað eftir landshlutum og stofnunum?
    
Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar eru níu á landsbyggðinni, stofnaðar á árunum 1998–2003. Miðstöðvarnar eru sjálfseignarstofnanir og rekstur þeirra er ekki á ábyrgð ríkisins. Stofnaðilar miðstöðvanna voru sveitarfélög, fræðsluaðilar, stéttarfélög, ýmis félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki.
    Menntamálaráðuneytið gerir árlega samning til eins árs í senn við símenntunarmiðstöðvar á grundvelli fjárveitinga frá Alþingi. Samningurinn við stöðvarnar kveður á um að þær beiti sér m.a. fyrir margs konar námskeiðahaldi, samstarfi við menntastofnanir og geri almenningi kleift að stunda nám með fjarkennslusniði.
    Í samningunum er þess auk þess getið að stöðvarnar skuli leitast við að halda til haga heildaryfirliti yfir eftirspurn og framboð náms til íbúa hvers svæðis og að leggja eigi sérstaka áherslu á samstarf við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi. Í samningnum er ekki tilgreint hversu hár hlutur af samningsupphæðinni skuli renna til háskólanámsins heldur er það ákvörðun hverrar stöðvar.
    Framlag ríkisins til þeirra níu fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem starfa á landsbyggðinni er samkvæmt fjárlögum 2005 samtals 96,7 millj. kr. Beint framlag til stöðvanna nemur 85,5 millj. kr. en auk þess fá þær sérstakt framlag, 11,2 millj. kr., til reksturs svonefnds FS- nets, sem er háhraðanettenging. Framlag ríkisins, 96,7 millj. kr., skiptist jafnt á milli allra fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar samanber eftirfarandi töflu.

Framlag ríkisins til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva árið 2005 (millj. kr.).



Beint framlag á fjárlögum, 2005 Framlag til reksturs FS-nets, 2005 Samtals
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 9,5 1,2 10,7
Símenntunarmiðstöð Vesturlands 9,5 1,2 10,7
Fræðslumiðstöð Vestfjarða 9,5 1,2 10,7
Farskóli Norðurlands vestra 9,5 1,2 10,7
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar 9,5 1,2 10,7
Fræðslumiðstöð Þingeyinga 9,5 1,2 10,7
Fræðslunet Austurlands 9,5 1,2 10,7
Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja 9,5 1,2 10,7
Fræðslunet Suðurlands 9,5 1,2 10,7
Samtals 85,5 11,2 96,7

    Auk framlaga á fjárlögum afla símenntunarmiðstöðvarnar sér rekstrartekna með ýmsum öðrum hætti, svo sem með tekjum af námskeiðum og seldri þjónustu, beinum styrkjum frá fyrirtækjum og sveitarfélögum og af ýmsum sérverkefnum. Í samantekt sem KVASIR, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna á landsbyggðinni, gerði í október 2002 kemur fram að framlög ríkisins það ár námu um 35% af tekjum stöðvanna, 65% komu með öðrum hætti.

     2.      Hvað ræður mismunandi stuðningi við einstakar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar?
    
Starfsemi fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna á landsbyggðinni hefur vaxið á síðustu árum og fjöldi einstaklinga á landsvísu sem nýta sér þjónustu þeirra aukist jafnt og þétt. Föst framlög hafa á sama hátt vaxið, eða um 36% frá árinu 2001 til ársins 2005. Vegna byggðastefnu stjórnvalda njóta stöðvarnar sömu framlaga burtséð frá því hvar þær eru.
    Menntamálaráðuneytið gerir samninga við símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni á grundvelli fjárveitinga frá Alþingi. Miðstöðvunum er ætlað að efla þjónustu á svæðum þar sem þörf er og hvetja til aukinnar þátttöku í námi þar sem þátttaka er lítil. Framlag til einstakra stöðva er 9,5 millj. kr. Sú upphæð er til að standa undir grunnkostnaði við rekstur stöðvanna, svo sem húsnæðiskostnaði, rekstri tölvubúnaðar og launum forstöðumanns. Auk þess fær hver stöð 1,2 millj. kr. til reksturs FS-netsins. Hver stöð fær þannig samtals 10,7 millj. kr.

     3.      Hversu mikill er kostnaður einstakra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva við fjarkennslu á háskólastigi og hver er hlutur ráðuneytisins í þeim kostnaði?
    
Kostnaður við fjarkennslu á háskólastigi er mjög misjafn eftir því hvaða símenntunarmiðstöð á í hlut. Samkvæmt eftirfarandi upplýsingum er ráðuneytið hefur aflað frá stöðvunum má gera ráð fyrir því að þessi kostnaður geti verið allt frá 220.000 kr. til 29.163.900 kr. á þessu ári.

Áætlaður kostnaður vegna háskólanáms árið 2005, eftir stöðvum.



Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 14.980.800 kr.
Símenntunarmiðstöð Vesturlands 7.560.000 kr.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða 12.752.477 kr.
Farskóli Norðurlands vestra 6.032.000 kr.
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar 220.000 kr.
Fræðslumiðstöð Þingeyinga 14.480.000 kr.
Fræðslunet Austurlands 29.163.900 kr.
Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja 8.834.700 kr.
Fræðslunet Suðurlands 14.445.000 kr.

    Eins og fram kemur í svari við 1. lið er í samningum við símenntunarmiðstöðvarnar gert ráð fyrir að hlutverk þeirra sé m.a. að gera almenningi kleift að stunda nám með fjarkennslusniði. Hlutur þess er ekki skilgreindur sérstaklega í samningum en gert er ráð fyrir að miðstöðvarnar hagi því í samræmi við þarfir og getu. Þá eru símenntunarmiðstöðvarnar sjálfseignarstofnanir og rekstur þeirra á eigin ábyrgð. Menntamálaráðuneytið gerir hins vegar sérstakan samning um fjárframlög til starfseminnar á grundvelli fjárlaga, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar. Þá er rétt að taka fram að námseiningar nemenda í fjarnámi samsvara námseiningum nemenda í staðbundnu námi háskóla með tilliti til fjármögnunar. Kennslukostnaður er því borinn uppi af skólastofnunum.

     4.      Hversu margir stunda háskólanám hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sundurliðað eftir stofnunum?
    
Fjöldi nemenda er stunda háskólanám hjá símenntunarmiðstöðvunum hefur farið vaxandi allt frá því að farið var að bjóða háskólanám í fjarnámi. Þeir skólar sem bjóða upp á slíkt nám eu Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Hólaskóli.

Nemendur sem stunda háskólanám í fjarnámi hjá símenntunarmiðstöðvum


á haustönn 2005, eftir stofnunum.



Haustönn 2005
KHÍ
HA
HR
Hólar Annað Samtals
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 0 74 1 5 0 0 80
Símenntunarmiðstöð Vesturlands 0 42 8 0 0 0 50
Fræðslumiðstöð Vestfjarða 0 55 15 0 0 0 70
Farskóli Norðurlands vestra – miðstöð um fjarkennslu 44 39 3 9 0 0 95
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar 0 0 0 0 0 20 20
Fræðslumiðstöð Þingeyinga 9 11 10 0 0 10 40
Fræðslunet Austurlands 57 51 23 20 9 10 170
Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja 18 32 4 6 0 3 63
Fræðslunet Suðurlands 0 61 14 0 0 1 76
Samtals 128 365 78 40 9 44 664

     5.      Hversu mikið fjármagn er ætlað til þekkingar- og háskólasetra á landinu vegna kennslu á háskólastigi?
    Á grundvelli byggðaáætlunar hafa sérstök framlög vegna sameiginlegs átaksverkefnis menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis runnið til Háskólanámsseturs á Austurlandi á Egilsstöðum, Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði og Þekkingarseturs Húsavíkur. Árið 2005 nema framlög til Háskólanámsseturs á Austurlandi 16,5 millj. kr., til Háskólaseturs Vestfjarða 21 millj. kr. og til Þekkingarseturs á Húsavík 8 millj. kr.
    Ráðuneytið hefur nú til athugunar fjárstuðning við háskólamenntun á landsbyggðinni, m.a. í tengslum við nýja byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2006–2009. Endanleg ákvörðun um stuðning við háskólamenntun á landsbyggðinni mun ekki verða tekin fyrr en ný byggðaáætlun og fjárlög ársins 2006 hafa verið samþykkt.