Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 320  —  299. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu samstarfs vestnorrænna landa í orkumálum.

Flm.: Halldór Blöndal, Guðrún Ögmundsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2004, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla samstarf vestnorrænna landa í orkumálum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð var fram á 131. löggjafarþingi en varð þá eigi tekin á dagskrá. Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2004 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 20.–24. ágúst 2004. Ályktunin var á þessa leið:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkis- og landsstjórnir landanna þriggja að efna til samstarfs um orkumál þjóðanna, með áherslu á sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Óskað er eftir því að gerð verði grein fyrir framgangi samvinnunnar með árlegri skýrslu.
    Samstarf þjóðanna á sviði orkumála hefur verið ánægjulegt þrátt fyrir ólíkar aðstæður og mismunandi leiðir við nýtingu. Engu að síður er mikilvægt að efla enn frekar samstarf landanna á milli og miðla þekkingu og reynslu betur en gert hefur verið.
    Orkumál eru mikilvægur málaflokkur í örri þróun og því mikilvægt að stuðla að aukinni samvinnu og nýjum áherslum í orkuframleiðslu, einkum hvað varðar sjálfbæra nýtingu. Því er mikilvægt að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem samvinna vestnorrænu landanna á sviði orkumála getur veitt við þróun endurnýjanlegrar orku.
    Vestur-Norðurlönd búa yfir sérfræðiþekkingu og tækni í tengslum við umhverfisvæna endurnýjanlega orku og orkusparnað, auk þess sem stefnt er að frekari þróun á því sviði. Í Færeyjum hafa þegar verið reistar vindmyllur, á Grænlandi er áhersla lögð á vatnsorku og á Íslandi eru gerðar tilraunir með hagnýtingu vetnis sem orkugjafa. Að öðru leyti er orkan sem notuð er í vestnorrænu löndunum afar ólík. Löndin eiga þó það markmið sameiginlegt að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa, svo sem vatns- og vindorku, jarðvarma og vetnis.“