Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 329. máls.

Þskj. 361  —  329. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
nr. 78 26. maí 1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjuþing ákveður skipan umdæma vígslubiskupa.

2. gr.

    1.–3. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Kirkjuþingsfulltrúar eru kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára í senn.
    Kirkjuþing ákveður skipan kjördæma kirkjuþings og fjölda kirkjuþingsmanna.
    Á kirkjuþingi skulu leikmenn vera fleiri en vígðir.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Kirkjuþing 2005 hefur beint þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra að flytja frumvarp þetta til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, sbr. 2. mgr. 23. gr. laganna.
    Á kirkjuþingi 2004 lagði biskupafundur, sbr. 19. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, fram víðtækar tillögur að breyttri prófastsdæmaskipan. Kirkjuþing afgreiddi tillöguna með svofelldri þingsályktun:
    „Kirkjuþing 2004 samþykkir að kjósa fimm manna nefnd kirkjuþingsfulltrúa til að fara yfir skipan prófastsdæma á landinu í samráði við biskupafund og aðra aðila.
    Nefndin athugi einnig núgildandi fyrirkomulag kosninga til Kirkjuþings.
    Aflað verði umsagna héraðsfunda á næsta ári að undangenginni nauðsynlegri almennri kynningu. Nefndin skili áliti sínu til biskupafundar og Kirkjuráðs með tillögum í samræmi við þá niðurstöðu sem starf nefndarinnar leiðir til.“
    Nefndin samdi framangreind frumvarpsdrög og afhenti kirkjuráði þau í febrúarmánuði 2005.
    Fulltrúar úr nefndinni kynntu þessa tillögu á héraðsfundum í öllum prófastsdæmum á þessu ári.
    Kirkjuráð taldi í ljósi umsagna héraðsfunda rétt að leggja til við kirkjuþing að mælst yrði til þess að að ráðherra flytti frumvarp þetta.
    Samkvæmt 21. gr. þjóðkirkjulaga er skipan kjördæma til kirkjuþings miðuð við skipan prófastsdæma eins og þau voru 1. janúar 1998, þegar lögin tóku gildi. Heiti þáverandi prófastsdæma eru talin upp í ákvæðinu. Ef breyta á kosningafyrirkomulagi eða skipan kjördæma er lagabreyting nauðsynleg. Slíkt fyrirkomulag þykir ekki í samræmi við þann megintilgang þjóðkirkjulaga að auka sjálfstæði kirkjunnar í eigin málum. Enn fremur stríðir fyrirkomulag þetta á vissan hátt gegn ákvæði 50. gr. þar sem mælt er fyrir um að kirkjuþing setji m.a. starfsreglur um skipan prófastsdæma. Ákvæði 21. gr. girðir í raun fyrir að kirkjuþing geti beitt þessu valdi sem því ber skv. 50. gr. Í samræmi við þá hugmyndafræði þjóðkirkjulaga að kirkjan hafi sem mest sjálfræði um eigin mál, þar á meðal skipulagsmál sín, þykir eðlilegt að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum með sama hætti og sóknum, prestaköllum og prófastsdæmum.
    Þá þykir með sömu rökum eðlilegt að kirkjuþing ákveði fjölda fulltrúa á kirkjuþingi í stað þess að slíkt sé lögbundið. Eigi að síður þykir rétt að ganga ekki lengra en svo að áskilja áfram í lögum að leikmenn verði í meiri hluta á kirkjuþingi eins og nú er. Hlutfallið ákveður þó kirkjuþing eftirleiðis, verði frumvarp þetta að lögum. Rökrétt er einnig að breyta ákvæðum um umdæmi vígslubiskupa á sama hátt, þ.e. að afnema upptalningu prófastsdæma þar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að ákvæði 18. gr. laganna verði einfaldað frá því sem nú er þó efnisbreyting sé lítil. Er það nauðsynlegt vegna samhengis við önnur ákvæði frumvarps þessa. Samkvæmt því verði afnumin upptalning prófastsdæma. Kirkjuþing ákveði skipan vígslubiskupsumdæma eins og verið hefur.

Um 2. gr.


    Lagt er til að kirkjuþing ákveði skipan kjördæma kirkjuþings og fjölda kirkjuþingsmanna. Næst þar með samræmi við 50. gr. laganna auk þess sem kirkjuþing ákveður eftirleiðis fjölda fulltrúa á þinginu. Rétt þykir að áskilja að leikmenn á kirkjuþingi skuli vera fleiri en vígðir menn eins og verið hefur. Lagt er til að orðið vígðir verði notað í stað „prestar“ áður.

Um 3. gr.


    Lagt er til að frumvarpið, verði það samþykkt, öðlist gildi 1. janúar 2006. Er litið til þess að kosningar til kirkjuþings fara fram á árinu 2006 og er æskilegt að frumvarp þetta hafi öðlast gildi þá svo að unnt sé að koma á nauðsynlegum breytingum á starfsreglum kirkjunnar. Er þá einkum litið til þess að samræma þarf kjördæmaskipan við kirkjuþingskosningar þeirri breyttu skipan prófastsdæma sem ákveðin var á síðasta kirkjuþingi með sameiningu Barðastrandarprófastsdæmis og Ísafjarðarprófastsdæmis í eitt Vestfjarðaprófastsdæmi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn
og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

    Í frumvarpi þessu er m.a. lagt til að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum sínum með sama hætti og sóknum, prestaköllum og prófastsdæmum og einnig fjölda kirkjuþingsmanna. Ekki er ástæða til að ætla að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.