Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 121. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 458  —  121. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve mikill er kostnaðurinn við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna orðinn og hvað er áætlað að hann verði hár?

    Kostnaður við framboðið frá árinu 2001 er orðinn um 200 millj. kr. uppsafnað. Hann er aðallega til kominn vegna fjölgunar í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, sem hefur átt sér stað til að styrkja þátttöku Íslands í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og undirbúa framboðið.
    Undirbúningsvinnu og áætlanagerð vegna framboðsins hefur hingað til verið sinnt samhliða öðrum málum og hefur því ekki leitt til fjölgunar í utanríkisráðuneytinu. Enginn teljandi risnu- eða ferðarkostnaður hefur fallið til vegna framboðsins.
    Gætt verður hófs í framhaldinu. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna framboðsins næstu þrjú ár, eða þar til kosið verður um sætið í ráðinu haustið 2008, verði rúmlega 200 millj. kr. Það felur í sér lækkun frá fyrri áætlun vegna þessara þriggja ára um u.þ.b. 170 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum farandsendiherra vegna framboðsins eða öðrum sérstökum ferðalögum vegna þess. Kosningabaráttan verður fyrst og fremst háð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York. Ekki er heldur gert ráð fyrir risnu eða stórum menningarviðburðum vegna framboðsins. Þó að óumflýjanlegt sé að fjölga frekar starfsmönnum í fastanefnd Íslands í New York, verður það gert með tilfærslu starfsmanna úr ráðuneytinu. Litið verður á framboðið sem tímabundið forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar, sem önnur verkefni víkja fyrir á meðan á því stendur.
    Ráðherra fór ítarlega yfir þessar forsendur og kostnaðaráætlunina á fundi með utanríkismálanefnd og mun hafa samráð við nefndina um stöðu framboðsins á hverjum tíma og kostnað þess vegna.
    Nái Ísland kjöri hefur verið áætlað að kostnaður vegna setunnar í öryggisráðinu árin 2009–2010 gæti numið um 100 millj. kr. á ári. Þennan kostnað er þó erfitt að áætla nákvæmlega. Þannig er auðvitað ekki hægt að útiloka að atburðir í alþjóðamálum á kjörtímabili Íslands leiddu til aukinna umsvifa í störfum ráðsins.