Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 368. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 558  —  368. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Magnússonar um endurskoðun skipulags- og byggingarlaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður endurskoðun skipulags- og byggingarlaga og gerð frumvarps að nýjum lögum sem Öryrkjabandalag Íslands fékk frumdrög að í júlí árið 2004?

    Á vegum umhverfisráðuneytisins er unnið að heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Tvær nefndir vinna að endurskoðuninni, annars vegar um skipulagsþáttinn og hins vegar um byggingarþáttinn. Nefndunum er ætlað að hafa náið samráð varðandi tillögugerð enda stefnt að því að frumvörp til breyttra laga annars vegar skipulagslaga og hins vegar byggingarlaga verði lögð fram samtímis á Alþingi. Við endurskoðunina skal taka mið af reynslu af framkvæmd gildandi laga og í tengslum við endurskoðun byggingaþáttarins skal gerð tillaga um að byggingar- og brunavarnamál verði í sérstökum lögum, byggingarlögum. Enn fremur skal við endurskoðun ákvæða byggingarþáttarins tekið á eftirliti með byggingarvörum á markaði, réttindamálum meistara og stofnunum sérstakrar byggingastofnunar þar sem byggingarmál og brunavarnir yrðu vistaðar.
    Í nefnd um endurskoðun byggingarlaga sitja auk fulltrúa umhverfisráðuneytisins, fulltrúar tilnefndir af forsætisráðherra, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Brunamálastofnun. Enn fremur er nefndinni ætlað að hafa samráð við tiltekna aðila við gerð frumvarpsins, þar á meðal Öryrkjabandalag Íslands.
    Í nefnd um endurskoðun skipulagsþáttarins sitja auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Skipulagsstofnun.
    Sú endurskoðun sem snýr að byggingarlagaþættinum er töluvert viðameiri en sú sem snýr að skipulagsþættinum sem er í fastari skorðum. Auk þeirra þátta sem nefndinni er sérstaklega falið að fjalla um og áður er getið hefur nefndin bent á að taka þurfi afstöðu til ýmissa annarra þátta sem jafnvel heyra undir önnur ráðuneyti en umhverfisráðuneytið með það fyrir augum að starfað verði eftir einum byggingarlögum sem þá falli undir eitt ráðuneyti og eina stofnun.
    Vorið 2004 sendi nefnd um endurskoðun byggingarlagaþáttarins út frumvarpsdrög til ráðgjafaraðila, þar á meðal til Öryrkjabandalagsins, og fékk þá síðan til fundar þar sem sérstaklega var farið yfir stöðu málsins. Þar var sérstaklega óskað eftir athugasemdum og tillögum í tengslum við uppbyggingu stjórnkerfisins, svo sem verkefna Byggingarstofnunar og hlutverks hennar innan stjórnkerfisins. Sem stendur er nefndin að leggja lokahönd á gerð frumvarps til byggingarlaga sem ætlunin er að senda áðurnefndum ráðgjafaraðilum til umsagnar fljótlega eftir áramót. Í framhaldi af því mun nefndin skila tillögum til umhverfisráðherra sem stefnir að því að leggja fram á vorþingi frumvarp til byggingarlaga og frumvarp til skipulagslaga, en vinna við hið síðarnefnda er einnig langt komin.