Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 651  —  417. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Stefán Aðalsteinsson frá BHM, Ragnar Ingimundarson frá BSRB, Guðrúnu Zoëga frá kjaranefnd, Hjördísi Hákonardóttur, Benedikt Bogason og Arngrím Ísberg frá Dómarafélagi Íslands, Garðar Garðarsson frá Kjaradómi, Eirík Hilmarsson frá Hagstofu Íslands, Birgi Björn Sigurjónsson frá kjaraþróunardeild Reykjavíkurborgar, Sigurð Líndal, Eirík Tómasson, Skúla Eggert Þórðarson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Ólaf Hauksson frá Sýslumannafélagi Íslands, sr. Ólaf Jóhannsson frá Prestafélagi Íslands, Bolla Þór Bollason frá Félagi ráðuneytisstjóra og Baldur Guðlaugsson, Gunnar Björnsson og Þórhall Vilhjálmsson frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni m.a. afrit af bréfi Dómarafélags Íslands til Alþingis, ályktun stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana og athugasemdir frá Sýslumannafélagi Íslands. Nefndin aflaði auk þess fjölda gagna.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ríkisstjórnin hyggst skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Meðal þess sem nefndinni er ætlað að skoða er hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi launaákvarðana Kjaradóms og kjaranefndar þannig að betra samræmis sé gætt í starfskjörum þeim sem þær ná til, bæði innbyrðis og gagnvart almennum vinnumarkaði. Enn fremur er nefndinni ætlað að huga að þeim viðmiðunum og fyrirmælum sem einstökum aðilum eru sett í lögum um launaákvarðanir sínar. Fram hefur komið að þegar hefur verið skipaður formaður fyrir nefndina og að formlega hafi verið óskað eftir tilnefningum þingflokka í nefndina. Þær tilnefningar hafa enn ekki borist en hafin er vinna við gagnaöflun fyrir nefndina. Meiri hlutinn leggur á það áherslu að þessi nefnd hefji störf sem fyrst og vinni svo ötullega að drög að frumvarpi geti legið fyrir í lok mars næstkomandi þannig að hægt verði að samþykkja nýja skipan þessara mála fyrir lok þings.
    Í máli gesta, þeim gögnum sem aflað var og í umræðum nefndarmanna komu mörg sjónarmið fram. Voru þau rædd ítarlega. Upp úr stendur það sjónarmið að þessi hækkun launa æðstu stjórnenda ríkisins hefði komið á mjög viðkvæmum tíma. Aðilar vinnumarkaðarins voru nýbúnir ásamt ríkisstjórninni að fara í gegnum þríhliða samninga vegna þess að verðbólguviðmið kjarasamninga stóðust ekki og höfðu náð hófsamlegri launahækkun í trausti þess að það kæmi í veg fyrir víxlhækkanir launa og verðlags. Mikil launahækkun samkvæmt ákvörðun kjaradóms stuttu seinna til æðstu stjórnenda ríkisins vakti sterk viðbrögð og leiddi til óróa á vinnumarkaði sem gat ógnað þeim efnahagslega stöðugleika sem að var stefnt og náðst hefur. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir það og undir það sjónarmið vill meiri hlutinn taka og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 19. jan. 2006.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Einar Oddur Kristjánsson.



Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.