Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 469. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 756  —  469. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um lokanir veiðisvæða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða skyndilokanir veiðisvæða auk reglugerðarlokana voru í gildi árin 2004 og 2005?

    Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til Hafrannsóknastofnunarinnar og fylgir hér svar hennar.
    Eins og kunnugt er eru skyndilokanir síbreytilegar yfir árið enda vara þær jafnan aðeins í tvær vikur í senn. Þannig voru skyndilokanir árið 2005 alls 94 en 73 og 113 árin 2004 og 2003. Stöku sinnum eru skyndilokanir hins vegar mun fleiri, t.d. um 170 árið 1993 og 150 árið 2000. Fjöldi skyndilokana hverju sinni ræðst m.a. af styrk árganga sem eru að koma inn í veiðina auk hlutfalls eldri árganga í stofni.
    Árið 2005 voru 46% lokana vegna línuveiða og 37% vegna botnvörpuveiða en samsvarandi tölur fyrir árið 2004 voru 54% og 15%. Lokanir vegna annarra veiðarfæra voru síðan mun færri, mest á handfæri 2004 eða 14%.
    Langflestar lokanir eru að venju vegna veiða á þorski, 56% árið 2005 og 75% árið 2004. Ýsa er jafnan næst í röðinni og voru lokanir vegna ýsu 26% af heild árið 2005 en aðeins 4% árið á undan sem er reyndar óvenju lítið miðað við ýsu. Lokanir vegna annarra tegunda eru jafnan mun færri og voru um eða undir 5% árin 2004 og 2005.
    Fjöldi reglugerðarlokana var í gildi árin 2004 og 2005, flestar vegna fiskibotnvörpu- og línuveiða (sjá meðfylgjandi kort). Aðdragandi reglugerðarlokana gegnum árin eru jafnan tíðar skyndilokanir vegna smáfisks á tilteknu svæði. Auk venjubundinna reglugerðar- og friðunarsvæða voru auk þess í gildi árin 2004 og 2005 reglugerðarsvæði í djúpkantinum út af Vestfjörðum og einnig við Suðausturland þar sem skylt er að nota smáfiskaskilju við þorsk- og ýsuveiðar.
    Önnur reglugerðarsvæði sem í gildi voru árin 2004 og 2005 voru m.a. vegna smárækju út af Norðausturlandi og meðafla í kolmunnaveiðum á Þórsbanka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.