Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 769  —  526. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald eða stöðvun stóriðjuframkvæmda.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Þuríður Backman, Hlynur Hallsson,


Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla, samhliða kosningum til sveitarstjórna 27. maí nk., um það hvort þjóðin vill áframhaldandi stórfellda uppbyggingu stóriðju í landinu næstu árin eða að allar frekari framkvæmdir af því tagi verði settar í biðstöðu a.m.k. til ársins 2012.
    Alþingi felur dómsmálaráðherra að undirbúa og kynna kosninguna, þ.m.t. að tryggja að unnt verði að greiða atkvæði um málið í kosningum utan kjörfundar.

Greinargerð.


    Síðustu áratugi hefur atvinnustefna stjórnvalda einkennst mjög af áherslum á stórvirkjanir í stærstu fallvötnum landsins í þágu álframleiðslu fjölþjóðafyrirtækja. Saga slíkra framkvæmda er landsmönnum vel kunn og hafa skoðanir frá upphafi verið skiptar um ýmislegt sem stóriðjuuppbyggingunni tengist. Framan af deildu menn einkum um loftmengun, raforkuverð, þjóðhagslega arðsemi og áhrifin á efnahagslegt sjálfsforræði landsmanna, en seinni árin hafa náttúruspjöll og umhverfisáhrif, auk áhrifanna á ímynd landsins og annað atvinnulíf, bæst við af vaxandi þunga. Hart og mikið hefur verið deilt um þessi efni og ljóst að mörgum yrði það kærkomið að geta látið hug sinn í ljósi í almennri atkvæðagreiðslu um framhald mála. Það væri í fullu samræmi við vaxandi áhuga í samfélaginu á lýðræðislegum leikreglum og auknum möguleikum almennings til áhrifa á þróun mála. Nefna má hugmyndir um íbúalýðræði og um almennar atkvæðagreiðslur um einstök málefni. Hvað sem líður deilum um hið liðna er meira en tímabært að rækileg umræða fari fram um megináherslur í umhverfis- og atvinnumálum á komandi árum og áratugum. Fátt er betur til þess fallið en þjóðaratkvæðagreiðsla til að virkja almenning til þátttöku í rökræðum og til að mynda sér skoðun. Það er einnig í anda þeirra opnu og lýðræðislegu stjórnarhátta sem flestir vilja núorðið kenna sig við að þjóðin sjálf leggi línurnar og veiti stjórnmálamönnunum leiðsögn í afdrifaríku stórmáli sem þessu. Fátt kemur til með að hafa meiri áhrif á framtíðarásýnd landsins, á atvinnuhætti og mannlíf á Íslandi, en ákvarðanir um hvað verður ofan á í virkjana- og stóriðjumálum. Málið varðar alla landsmenn og komandi kynslóðir munu ekki síst dæma ráðamenn nútímans út frá því sem ákveðið verður í þeim efnum.
    Fjölmargar fleiri ástæður renna stoðum undir þá hugmynd að frekari framvinda stóriðjustefnu og tilheyrandi bygging stórvirkjana verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Einmitt nú eru slík tímamót að rík ástæða er til að staldra við og kalla eftir víðtæku samráði um það hvort telja megi skynsamlegt og ráðlegt að auka framleiðslu áls í Straumsvík um 150 % og byggja að auki tvö ný álver, hvort í sínum landshlutanum, með þeirri umfangsmiklu orkuöflun sem slík uppbygging kallaði á. Sumir vilja kosta miklu til að halda þessari uppbyggingu áfram, aðrir telja slíka uppbyggingu of dýru verði keypta. Málið snýst í raun um það hvernig Ísland við viljum sjá og hvernig Íslands við viljum njóta á næstu árum og áratugum.
    Afstaða flytjenda þessarar tillögu er að sjálfsögðu ekkert launungarmál. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ein flokka haldið uppi stöðugri gagnrýni á þá atvinnustefnu sem hver ríkisstjórnin af annarri hefur haldið á lofti á undanförnum árum, þar sem stóriðjustefnan hefur yfirskyggt allt annað. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur brýnt að gera grundvallarbreytingar á stjórnarstefnunni svo leggja megi grunn að uppbyggingu og framförum í íslensku samfélagi á traustum og varanlegum forsendum. Atvinnulíf verður að hvíla á sjálfbærum grunni eigi uppbygging þess að standast til langframa. Fjölbreytni og sjálfbærni eiga að vera grundvallarviðmið í atvinnustefnu á Íslandi. Reynsla seinustu ára sýnir að þróttmikil nýsköpun í atvinnulífi og lítil og meðalstór fyrirtæki hafa mesta vaxtarmöguleika, skapa flest störf og skila þjóðarbúinu mestu. Með því að styðja slíka atvinnuþróun má auka útflutningstekjur þjóðarinnar og stuðla að hagvexti án þess að gengið sé á höfuðstól náttúrunnar. Fjölbreytt atvinnulíf á sjálfbærum grunni er það sem koma skal.
    Á Íslandi ríkir nú skeið ójafnvægis í efnahagsmálum. Við búum við einhverja mestu þenslu sem riðið hefur yfir fyrr og síðar, viðskiptahalli með tilheyrandi erlendri skuldasöfnun er geigvænlegur og verðbólga yfir settum mörkum. Forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru við það að bresta. Hátt raungengi krónunnar skapar útflutnings- og samkeppnisgreinum mikla erfiðleika. Skilyrði til nýsköpunar í almennu atvinnulífi eru afar erfið við þessar aðstæður og áhugi innlendra fjárfesta beinist að útlöndum. Enginn vafi er á því að stóriðjustefnan og þær stórframkvæmdir sem á grundvelli hennar eru í gangi eiga stóran þátt í þeirri þenslu sem nú ríkir. Þetta stafar annars vegar af hinum beinu efnislegu áhrifum þessara stórframkvæmda, umsvifum og innstreymi fjármagns sem tengjast þeim. Hins vegar stafar þetta af þeim væntingum sem framkvæmdirnar hafa kynt undir og því mati markaðarins, einkum gjaldeyrismarkaðarins, að þær og áframhald þeirra sé ávísun á mikinn vaxtamun milli Íslands og annarra landa og hátt gengi krónunnar. Opinber yfirlýsing um að nú verði staldrað við, hagkerfinu leyft að jafna sig og jafnvægi skapað á nýjan leik í þjóðarbúskapnum mundi því strax hafa áhrif á þann þátt sem snýr að væntingum. Einnig skiptir máli fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar að þar fái menn vissu fyrir því að núverandi ástand verði tímabundið en ekki framlengt með nýjum og nýjum stórframkvæmdum. Slík stöðvun orkufrekra stóriðjuframkvæmda gæfi einnig færi á að marka stefnu sem byggðist á fjölbreyttari uppbyggingu iðnfyrirtækja af viðráðanlegri stærð og væri laus við stórfelld ruðningsáhrif í hagkerfinu. Þá ber loks að nefna að enn er ólokið gerð rammaáætlunar og veigamiklar forsendur skortir til að leggja grunn að sjálfbærum orkubúskap. Stöðvun stóriðjuframkvæmda mundi einnig skapa möguleika á breyttum áherslum í því samhengi og ekki er vanþörf á. Við allt þetta bætist að þjóðhagslegur ávinningur þessara fjárfestinga í heild er í vaxandi mæli dreginn í efa.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð minnir á þá staðreynd að ósnortið land, víðerni og villt náttúra er auðlind sem virða ber og varðveita á eigin forsendum. Sérstaða Íslands í samfélagi þjóðanna felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru landsins, fjölbreytileika landslags, víðernum og víðsýni en óvíða í heiminum sjást landmótunaröfl náttúrunnar jafn greinilega og í íslenskri víðáttu. Þessi sérstaða er stærsti þátturinn í þeirri ímynd sem við flest viljum að landið hafi. Til þess að vernda þessa auðlind og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru þarf að takmarka alla mannvirkjagerð og röskun á verðmætustu svæðum, friðlýsa þau og tryggja að hægt sé að njóta þeirra án þess að spilla þeim.
    Lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðsla um stöðvun eða framhald stóriðjuframkvæmda fari fram samhliða kosningum til sveitarstjórna 27. maí nk. Orða má spurningar í slíkri atkvæðagreiðslu á fleiri en einn veg, en aðalatriðið er að þjóðin fái að segja hug sinn í þessu stórmáli. Flytjendur þessarar tillögu leggja til að kjósendum verði gefinn kostur á að merkja við annan af tveimur eftirfarandi kostum:
     a.      Stjórnvöld beiti sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu stóriðju og heimili framkvæmdir við allt að þrjú ný álversverkefni með tilheyrandi virkjunum á komandi árum.
     b.      Stjórnvöld beiti sér fyrir því að ekki verði hafist handa um frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu sex árum, hvorki nýbyggingar né stækkun núverandi iðjuvera, umfram þau verkefni sem þegar eru hafin eða samið hefur verið um með öllum tilskildum leyfum.