Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 793  —  546. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun.

Flm.: Kristján L. Möller, Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman,


Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson,
Sigurjón Þórðarson, Jón Bjarnason, Björgvin G. Sigurðsson,
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Þór Hafsteinsson, Jóhann Ársælsson,
Lúðvík Bergvinsson, Hlynur Hallsson, Jón Gunnarsson.


1. gr.

    Í stað orðsins ,,iðnaðarráðherra“ í 1. og 2. mgr. 1. gr., 11. tölul. 4. gr., 5. gr., 1. og 3. mgr. 7. gr., 1. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: forsætisráðherra.

2. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Byggðastofnunar skipa sjö menn og skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Stjórn Byggðastofnunar velur formann og varaformann úr eigin röðum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Innan mánaðar frá gildistöku laga þessara skal Alþingi kjósa nýja stjórn Byggðastofnunar skv. 2. mgr. 3. gr. laganna. Umboð núverandi stjórnar fellur niður frá sama tíma.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að Byggðastofnun verði flutt frá iðnaðarráðuneyti og færð undir valdsvið forsætisráðherra. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Alþingi kjósi stjórn stofnunarinnar í stað þess að ráðherra skipi stjórnina eins og nú er.
    Hinn 1. janúar 2000 tóku gildi lög nr. 106/1999, um Byggðastofnun. Í 1. gr. þeirra segir að Byggðastofnun sé sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyri undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Lög þessi leystu af hólmi lög nr. 64/1985, um Byggðastofnun. Með lögum nr. 64/1985 var Byggðastofnun komið á fót sem sjálfstæðri ríkisstofnun er heyrði undir forsætisráðherra og tók við eignum og skuldbindingum Byggðasjóðs. Var sú aðgerð hluti af víðtækri uppstokkun á sjóðakerfi ríkisins. Samkvæmt 2. gr. laganna var hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Í 3. gr. þeirra var kveðið á um að Byggðastofnun fylgdist með þróun byggðar í landinu. Þá gat stofnunin gert eða látið gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Jafnframt var hlutverk stofnunarinnar að veita lán eða annan fjárhagslegan stuðning, m.a. í því skyni að treysta byggð í landinu.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 1999 kom fram að ríkisstjórnin mundi vinna að endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands, skipan ráðuneyta og verkefna þeirra, þar sem hliðsjón yrði höfð af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Fyrsta verkefnið á þessu sviði var að flytja Byggðastofnun frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Í framhaldi af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar skipaði iðnaðarráðherra nefnd haustið 1999 til að fara yfir hlutverk, skipulag og starfsemi Byggðastofnunar. Nefndin skilaði ráðherra tillögum sínum í lok árs 1999 og voru þær settar fram í frumvarpi til nýrra heildarlaga um Byggðastofnun sem lagt var óbreytt fyrir Alþingi. Frumvarpið var svo samþykkt 21. desember 1999.
    Með lögum nr. 106/1999 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um Byggðastofnun. Markmið breytinganna var annars vegar að laga löggjöf um Byggðastofnun að þeirri þróun sem orðið hafði í starfsemi stofnunarinnar frá stofnun hennar 1985 og hins vegar að efla frumkvæði hennar á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar á landsbyggðinni. Þannig er hlutverk Byggðastofnunar nú að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin undirbýr, skipuleggur og fjármagnar verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Þá er Byggðastofnun nú sem fyrr einnig ætlað það hlutverk að fylgjast með þróun byggðar í landinu.
    Með lögunum var ýmsum þáttum í starfsemi Byggðastofnunar breytt. Fyrir utan það að málefni stofnunarinnar voru færð undir valdsvið iðnaðarráðherra er stjórn stofnunarinnar nú skipuð af iðnaðarráðherra í stað þingkjörinnar stjórnar áður. Samhliða því voru ráðherra fengnar auknar heimildir til að hafa áhrif á starf stofnunarinnar. Þá er í lögunum lögð meiri áhersla en áður á rannsóknarhlutverk Byggðastofnunar á sviði byggða- og atvinnuþróunar.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Byggðastofnun verði flutt frá iðnaðarráðherra og færð undir valdsvið forsætisráðherra á nýjan leik. Ástæðurnar fyrir því eru m.a. eftirfarandi:

Byggðaáætlanir.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að miklu verr hafi gengið en áður að framfylgja samþykktum Alþingis í byggðaáætlun eftir að málaflokkurinn var færður frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Heildaryfirsýn hefur skort og undir hælinn lagt hvort samþykktir sem öðrum ráðuneytum en iðnaðarráðuneyti er ætlað að vinna úr eru settar í gang og þeim fylgt eftir. Mörg dæmi mætti nefna þessu til staðfestu og má m.a. minna á ýmis svör ráðherra við fyrirspurnum um framkvæmd byggðaáætlunar sem ekki hefur verið fylgt eftir þrátt fyrir samþykkt Alþingis.
    Flutningsmenn eru því þeirrar skoðunar að málaflokkurinn sé betur kominn í forsætisráðuneytinu þar sem forsætisráðherra getur þá falið öðrum ráðuneytum framkvæmd einstakra mála.

Byggðastofnun lömuð.
    Málefni Byggðastofnunar hafa verið til umræðu undanfarið, m.a. vegna þess að stofnunin er hálflömuð og getur lítið sem ekkert gert. Ríkisstjórnin hunsar stofnunina og hún er einhvern veginn á milli þess að lifa eða deyja. Pólitíska vigt vantar greinilega inn í ríkisstjórn til að taka ákvarðanir um framtíðarhlutverk Byggðastofnunar. Leiða má líkur að því að það sé m.a. vegna þess að málaflokkurinn og þar með Byggðastofnun er vistuð hjá fagráðherra en ekki hjá forsætisráðherra, eins og flutningsmenn leggja hér til.
    Í dag er staða Byggðastofnunar afar veik og nú er svo komið að sökum fjárskorts getur stofnunin varla lengur sinnt því hlutverki sínu að styðja við atvinnurekstur á landsbyggðinni með lánveitingum og styrkjum. Þetta hefur áhrif víða á landsbyggðinni þar sem staðan er orðin grafalvarleg.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að Byggðastofnun verði flutt aftur til forsætisráðuneytisins til að leggja áherslu á mikilvægi stofnunarinnar og málaflokksins sem undir hana heyrir. Undir yfirstjórn forsætisráðherra verða byggðamál vonandi forgangsmál enda brýn þörf á að taka til hendi í málaflokknum og það strax.
    Verði frumvarp þetta að lögum þarf að gera breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands og færa byggðamál undir forsætisráðherra. Reglugerðin er meginréttarheimildin um verkaskiptingu í stjórnarráðinu, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1969, um Stjórnarráð Íslands.