Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 795  —  547. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skattaumhverfi líknarfélaga.

Flm.: Sandra Franks, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Margrét Frímannsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson,
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Björgvin G. Sigurðsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með það fyrir augum að gera skattaumhverfi líknarfélaga hér á landi sambærilegt við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum, einkum með áherslu á afnám fjármagnstekjuskatts. Jafnframt verði kannað hvort nauðsynlegt er að gera aðrar breytingar til að aðstaða íslenskra líknarfélaga verði sambærileg við slík félög erlendis. Stefnt verði að því að ráðherra leggi fram frumvarp um málið við upphaf næsta þings.

Greinargerð.


    Íslensk líknarfélög njóta ekki undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts og með breytingum á lögum árið 2004 var afnumin undanþága til þeirra vegna greiðslu á erfðafjárskatti. Í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum þurfa líknarfélög hins vegar hvorki að greiða fjármagnstekjuskatt né erfðafjárskatt. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu Jónasar Guðmundssonar hagfræðings frá árinu 2004, „Skattaumhverfi félagasamtaka á Íslandi og í öðrum löndum – með sérstöku tilliti til góðgerðarsamtaka“. Skýrslan var unnin á vegum samvinnuhóps ABC-barnahjálpar, Barnaheilla, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands og SOS- barnaþorpanna. Annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum eru slík félög líka undanþegin fjármagnstekjuskatti af vöxtum, arði, söluhagnaði af fasteignum og hlutabréfum.
    Íslensk líknarfélög hafa ekki heldur lagalegan rétt til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af aðföngum. Þau búa einnig við lakara starfsumhverfi en erlend líknarfélög að því leyti að hér á landi er ekki heimilt að draga gjafir til góðgerðarfélaga frá skattskyldum tekjum í sama mæli og yfirleitt er heimilt bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Nú geta lögaðilar dregið frá skattstofni sínum einstakar gjafir og framlög til viðurkenndrar líknarstarfsemi. Frádrátturinn má þó ekki nema meira en 0,5% af tekjum á því ári þegar gjöfin er afhent. Í framangreindri skýrslu kemur fram að miklu rýmri frádráttarheimildir eru í Bandaríkjunum og flestum löndum Evrópu. Íslensk líknarfélög búa því við töluvert erfiðara skattaumhverfi en sams konar félög í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum og njóta alls ekki sama skattfrelsis og sambærileg félög sem þar starfa.
    Þrátt fyrir jákvæða afstöðu stjórnvalda til líknarfélaga hefur skattaumhverfi þeirra og frjálsra félagasamtaka farið versnandi á Íslandi á síðari árum. Til marks um það má nefna ákvörðun Alþingis frá 1996 um að frjáls félagasamtök skyldu greiða fjármagnstekjuskatt og fyrrgreinda breytingu árið 2004 um að erfðafjárskattur skyldi lagður á gjafir til líknarfélaga.
    Í þessari þingsályktunartillögu er því lagt til að fjármálaráðherra beiti sér fyrir lagabreytingum sem miði að því að gera skattalegt umhverfi líknarfélaga hérlendis sambærilegt við þau lönd sem Íslendingar miða sig oftast við. Fyrir líknarfélögin er langmikilvægast að ákvæðum um fjármagnstekjuskatt verði breytt þannig að þau njóti sömu skattfríðinda og erlend félög í heimalöndum sínum. Af þeirri ástæðu er í tillögu þessari lögð þyngst áhersla á undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts.

Mikilvæg samfélagsþjónusta líknarfélaga.
    Langflestir eru sammála um að líknarfélög vinna margvísleg þjóðþrifaverk sem falla undir mikilvæga samfélagsþjónustu. Þau sinna margbrotnum verkefnum á sviði félags- og heilbrigðismála, aðstoðar við fátæka, ýmiss konar liðsinnis við unga og aldraða einstaklinga, og við þróunarhjálp erlendis. Starfsemi þeirra beinist yfirleitt að því að draga úr vanda einstaklinga, svo sem vegna fátæktar, tímabundins eða varanlegs sjúkleika eða fötlunar, langvarandi erfiðleika barna, óhóflegrar neyslu vímugjafa og áfengis, auk margs annars. Nokkur þeirra starfa einnig að mikilvægum heilbrigðisrannsóknum sem skilað hafa ómældum árangri í baráttu gegn sjúkdómum. Engum blandast hugur um að ýta undir velferð og hagsæld samfélagsins með því að hlúa að einstaklingum og hópum sem af einhverjum orsökum eiga undir högg að sækja. Í hnotskurn má því segja að líknarfélög stuðli að vernd þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.
    Allt samfélagið hefur augljósan hag af starfi líknarfélaga. Þau starfa af hugsjónaástæðum og að stórum hluta er þeim haldið uppi með vinnu fórnfúsra sjálfboðaliða. Starf líknarfélaganna má skilgreina sem grenndarstarf í þeim skilningi að þau vinna á vettvangi vandamálanna sem þau glíma við. Þetta tvennt veldur því að þau eru að ýmsu leyti hæfari en opinberar stofnanir til að greiða úr ýmiss konar samfélagslegum vandamálum. Margir fræðimenn hafa fært rök að því að frjáls félagasamtök séu betur til þess fallin að vinna ýmiss konar líknarstörf en opinber stjórnvöld, þau séu úrræðabetri í leit að lausnum og nýti fjármagn með betri hætti. Samkeppni þeirra um stuðning frá fyrirtækjum og einstaklingum ýti jafnframt undir frumkvæði og nýja hugsun í starfi.
    Fátt bendir til annars en hlutverk líknarfélaga fari vaxandi í samfélaginu. Almennt er viðurkennt að þau vinna að verðugum félagslegum verkefnum, sem opinberar stofnanir þyrftu annars að sinna og verja til þess meira af fjármagni skattborgaranna en ella. Það er skoðun flutningsmanna að æskilegt væri að frjáls líknarsamtök og góðgerðarsamtök tækju að sér enn viðameira hlutverk í samfélaginu í framtíðinni. Í því ljósi er einkar nauðsynlegt að bæta skattalegt umhverfi þeirra. Það væri líka aukin hvatning fyrir einstaklinga og félagasamtök til að leggja meira af mörkum til þeirra.

Örvandi skattareglur.
    Góðgerðarsamtök og líknarfélög hafa vegna mikilvægs framlags til samfélagsmála notið velvilja stjórnvalda hér á landi og á Vesturlöndum. Skattareglur eru sá þáttur sem hefur mest áhrif á umhverfi frjálsra félagasamtaka eins og líknarfélaga. Þær eru einnig taldar hlutlausasta aðferðin sem hið opinbera hefur yfir að ráða til að búa slíkum samtökum hagstætt starfsumhverfi. Aðrar leiðir, svo sem úthlutun beinna styrkja til samtaka, ívilnun vegna gjalda fyrir opinbera þjónustu eða sérstök leyfi til fjáröflunar, byggjast fremur á matskenndum ákvörðunum stjórnvalda og eru ekki jafn almenns eðlis og skattareglur sem ganga jafnt yfir öll samtök sem þær ná yfir. Það skiptir afar miklu máli fyrir líknarfélög að skattareglur séu sem hagstæðastar og ýti undir starfsemi þeirra.
    Bæði hér á landi og annars staðar hafa stjórnvöld viðurkennt í verki samfélagslegt mikilvægi góðgerðasamtaka og líknarfélaga með því að samþykkja sérstakar örvandi skattareglur fyrir þau. Undanþágur frá skatti hér á landi, t.d. varðandi greiðslu tekjuskatts og eignarskatts, eru að mörgu leyti sambærilegar við lönd annars staðar í Evrópu og í Ameríku. Í því birtist jákvæður skilningur stjórnvalda hér á landi á því mikilvæga samfélagslega hlutverki sem líknarsamtök gegna. Þó er ljóst að í þýðingarmiklum atriðum, einkum varðandi fjármagnstekjuskatt, eru skattareglur á Íslandi miklu óhagstæðari líknarfélögum en í sambærilegum löndum. Tilgangur þingsályktunartillögu þessarar er að leiðrétta það og skapa jákvæðara starfsumhverfi fyrir íslensk líknarfélög.
    Samkvæmt upplýsingum úr fyrrgreindri skýrslu Jónasar Guðmundssonar eru starfandi hérlendis á annað hundrað líknarfélög, eða deildir í líknarfélögum, sem líkleg eru til að njóta góðs af samþykkt þessarar þingsályktunartillögu. Ekki er hægt að áætla hversu mikill kostnaður fyrir ríkissjóð gæti fylgt samþykkt hennar þar sem lagt er í hendur fjármálaráðherra að gera tillögur um umfang skattabreytinganna. Ætla má hins vegar að langmestur hluti kostnaðarins stafaði af breytingum á fjármagnstekjuskatti. Upplýsingar um hversu mikinn fjármagnstekjuskatt líknarfélög greiða nú liggja ekki fyrir. Fyrsti flutningsmaður hefur hins vegar lagt fram skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra um það sem gera má ráð fyrir að nýtist við umfjöllun málsins í þingnefnd.
    Fyrsti flutningsmaður hefur um árabil tekið þátt í starfi á vegum samtaka hjartveikra barna og þekkir af eigin raun að fjármagnstekjuskattur á vaxtatekjur líknarfélaga nemur umtalsverðum upphæðum hjá mörgum félögum. Nefna má að styrktarsjóður hjartveikra barna hefur á sl. fimm árum samtals greitt um 1700 þús. kr. í fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum. Óhætt er að segja að það skýtur skökku við að frjáls félagasamtök sem með söfnunum og sjálfboðastarfi létta á útgjöldum ríkisins skuli þurfa að greiða háar upphæðir í skatta af vaxtatekjum.