Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 800  —  552. mál.




Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um starfsemi og hæfi stjórnenda Kauphallarinnar.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hvert er álit ráðherra á að ráðandi stjórnendur fjármálastofnana og lífeyrissjóða skuli sitja í stjórn Kauphallarinnar og hver er afstaða Fjármálaeftirlitsins til þess? Telur ráðherra að seta þeirra í stjórninni geti valdið hagsmunaárekstrum, m.a. þar sem ýmsir sem þar sitja tengjast viðskiptum í kauphöllinni?
     2.      Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir breytingum á ákvæðum laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða þannig að óheimilt verði að stjórnendur félaga sem skráð eru í Kauphöllinni eigi sæti í stjórn hennar, skylt verði að skipa óháða stjórnendur, og að í lögunum verði ekki gerðar minni kröfur til stjórnenda Kauphallarinnar en í málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, m.a. um vanhæfi stjórnenda til meðferðar mála hjá Kauphöllinni?
     3.      Hver er skoðun ráðherra á að stjórn Kauphallarinnar skuli framselja ákvörðunarvald til forstjóra í eftirlitsmálum, m.a. um beitingu viðurlaga vegna brota á reglum Kauphallarinnar, og hver er afstaða Fjármálaeftirlitsins til þess?
     4.      Hvaða áhrif mun tilskipun Evrópusambandsins um útboðs og skráningarlýsingar, nr. 2003/71, hafa á starfsemi Kauphallarinnar hér á landi en samkvæmt þeirri tilskipun er sú krafa gerð að starfsemin njóti algjörs sjálfstæðis gagnvart aðilum markaðarins þannig að forðast megi hagsmunaárekstra og stjórnvöld geta ekki framselt ábyrgð sína? Mun ráðherra í samræmi við þá tilskipun leggja til að ákvörðunarvald um opinbera skráningu og viðurlagaheimildir færist frá Kauphöllinni til Fjármálaeftirlitsins?