Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 811  —  557. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2005.

Inngangur.
    Fulltrúar Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu alla helstu fundi þingmannasamkundunnar á árinu. Pétur H. Blöndal formaður og Jóhanna Sigurðardóttir sóttu vetrarfundina í Vínarborg í febrúarmánuði, auk ritara, og fullskipuð sendinefnd tók virkan þátt í ársfundinum sem haldinn var í Washington að þessu sinni. Þá sótti formaður Íslandsdeildar aukastjórnarnefndarfund þingsins í Sveti-Stefan í Svartfjallalandi ásamt ritara.
    Íslandsdeildin var að venju afar virk í störfum sínum á árinu. Ber þar helst að nefna að umræða um eftirlit nefndar á vegum ÖSE-þingsins með fjármálum ÖSE hélt áfram. Nefndin var stofnuð í umboði forseta ÖSE-þingsins árið 2004 að frumkvæði Péturs H. Blöndal. Miklar vonir hafa verið bundnar við að með störfum nefndarinnar hljóti þjóðkjörnir þingmenn sem á ÖSE-þinginu sitja aukið hlutverk við að hafa eftirlit með hvernig skattfé þjóðanna er varið. Árið 2005 skilaði nefnd vísra mann um framtíðarhlutverk ÖSE niðurstöðum sínum. Nefndinni var ætlað að skýra hlutverk og stefnu stofnunarinnar í nýrri heimsmynd. Niðurstöður nefndarinnar hafa verið til umræðu frá síðustu mánuðum ársins án þess að skýr niðurstaða um aðgerðir hafi fengist. Enginn fulltrúi ÖSE-þingsins sat í nefndinni og hefur forseti ÖSE- þingsins lýst vonbrigðum sínum með þá skipan við fastanefnd stofnunarinnar.
    
ÖSE og ÖSE-þingið.
    Skýran greinarmun verður að gera á Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu annars vegar og ÖSE-þinginu hins vegar. ÖSE er alþjóðastofnun sem starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975 og er ætlað að stuðla að friðar- og öryggissamvinnu aðildarríkjanna 55 í Evrópu og Norður-Ameríku. Líkt og gildir um aðrar alþjóða- og milliríkjastofnanir fer starfsemi ÖSE fram í umboði stjórnvalda aðildarríkjanna. ÖSE-þingið starfar á hinn bóginn í umboði þjóðþinga aðildarríkjanna og er samkunda yfir 300 þjóðkjörinna þingmanna. Jafnvel þótt samskipti ÖSE-þingsins við ÖSE séu mikil eru formlegu tengslin lítil en hafa þó farið vaxandi. ÖSE-þingið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1992 er fyrsti ársfundurinn fór fram í Búkarest. Á þeim fundi var ákveðið að stofna skrifstofu ÖSE-þingsins sem var staðsett í Kaupmannahöfn. Samskipti ÖSE og ÖSE-þingsins eru aðallega í því formi að helstu forsvarsmenn ÖSE ávarpa þingfundi og nefndarfundi og svara spurningum þingmanna. Þá eru ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins lagðar fyrir stofnunina og þeim svarað af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þá er vonast til að með stofnun sérnefndar um fjármál ÖSE að eftirlitshlutverk ÖSE-þingsins muni aukast.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, er stærsta svæðisbundna alþjóðastofnun heims sem starfar eingöngu að öryggismálum. Hún starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975 og er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Í störfum sínum á sviði öryggismála beitir stofnunin mjög víðri nálgun sem tekur til flestra þátta samfélagsgerða þeirra ríkja eða svæða sem sjónum er beint að. Dæmi um þetta er starfsemi ÖSE á sviði afvopnunarmála, fyrirbyggjandi erindrekstur, traustvekjandi aðgerðir og sáttaumleitanir, kosningaeftirlit og efling mannréttinda, lýðræðisþróunar og hagræns öryggis og umhverfisöryggis.
    Meginstef starfs stofnunarinnar er náin samvinna jafnbærra aðila og bera vinnureglur og verklag stofnunarinnar það með sér að ríkin sem þar starfa saman standa jafnfætis. Höfuðstöðvar ÖSE eru í Vínarborg. Ákvörðunartaka stofnunarinnar fer að megninu til fram innan fastaráðsins, sem fundar vikulega og í sitja fastafulltrúar aðildarríkja ÖSE. Þá fundar öryggissamstarfsvettvangur ÖSE (Forum for Security Co-operation) einnig vikulega og ræðir sérstaklega þau ríki eða svæði þar sem ófriðlega horfir. Æðsta ákvörðunarvald ÖSE eru leiðtogafundir en þess á milli fundar ráðherraráðið, vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er í raun yfirheiti yfir allar þær ákvarðanir og starfsemi sem aðildarríkin hafa komið sér saman um að framfylgja.
    Einn mikilvægasti og mest sýnilegi hluti starfsemi ÖSE á sér stað hjá vettvangsskrifstofum stofnunarinnar og hefur hann náð að skila afar miklum árangri, ekki síst frá aldamótunum. Fulltrúar ÖSE sem starfa á vettvangsskrifstofum stofnunarinnar starfa náið með valdhöfum í þeim ríkjum eða héröðum þar sem starfið fer fram og liðsinna við að efla innviði lýðræðis og mannréttinda auk annarra þátta. Vettvangsstarfið er einkar viðamikið og alls eru um 3000 manns alla jafna að slíkum störfum á hverjum tíma. Undanfarin ár hefur ÖSE einsett sér að styrkja vettvangsstörf stofnunarinnar og er það í takt við þær áherslur sem komið hafa ítrekað fram hjá þingmannasamkundu ÖSE.
    Átökin á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar urðu til þess að ÖSE hlaut viðamikið hlutverk við uppbyggingarstarf. Vegur og virðing stofnunarinnar jókst í kjölfarið og umsvifin jukust í hlutfalli við það. Kákasuslýðveldin og Mið-Asíuríkin hafa notið samstarfsins við ÖSE í ríkum mæli á síðustu árum og missirum og er ljóst að mun meiri pólitísk vigt hefur verið lögð í að aðstoða ríkin á þessum landsvæðum. Af öðrum verkefnum má nefna kosningaeftirlit og baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, t.d. með alþjóðlegri samvinnu á sviði löggæslumálar. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygl og vopnasmygl.
    Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem hafa sett sér sömu markmið. ÖSE hefur því mikilvægu hlutverki að gegna í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og nýtist það starf einkar vel í baráttunni gegn hryðjuverkum, mansali og þjóðernisofstæki.

ÖSE-þingið.

    Þingmannasamkunda ÖSE (ÖSE-þingið) starfar til hliðar við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og er skipað þjóðkjörnum þingmönnum aðildarríkjanna. ÖSE-þingið hefur að mörgu leyti endurspeglað starf stofnunarinnar með nefndarstarfi sínu sem helgast af hinum þremur víddum ÖSE, þ.e. stjórnmálum og öryggismálum, efnahags- og umhverfismálum og lýðræðis- og mannréttindamálum. Að auki er þingið mikill aflvaki fyrir áherslubreytingar á starfi ÖSE og veitir einnig stofnuninni óformlegan pólitískan stuðning. Fulltrúar ÖSE-þingsins hafa verið ötulir talsmenn stofnunarinnar heima fyrir og hefur sá stuðningur reynst mikilvægur.
    Aukins skilnings hefur gætt á störfum þingsins á undanförnum árum og er nú svo komið að þingmannasamkundan á afar farsælt samstarf við ÖSE en á það þótti skorta fyrir nokkrum árum. Ályktanir ÖSE-þingsins rata inn á borð ráðherraráðsins og fastaráðsins og hljóta þar umfjöllun. Ljóst þykir að þátttaka ÖSE-þingsins í yfirgripsmikilli starfsemi ÖSE er mikill akkur fyrir stofnunina. Þá tekur ÖSE-þingið afar virkan þátt í grasrótarstarfi stofnunarinnar, ekki síst með kosningaeftirlitsstörfum þingmanna sem sæti eiga á þinginu. Auk hefðbundinna nefndarstarfa ÖSE-þingsins eru starfræktar ýmsar sérnefndir sem ræða og eru ráðgefandi í tilteknum málefnum svo sem um stöðu mála í Moldóvu, stjórnmálaástandið í Úkraínu, jafnréttismál ÖSE og fjármál ÖSE, svo fá dæmi eru nefnd. Oftar en ekki hefur starf sérnefnda þessara skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi.
    ÖSE-þingið er eðli málsins samkvæmt mun minna í sniðum en stofnunin sjálf og er rekstrarkostnaður hennar greiddur með fastaframlögum þjóðþinga aðildarríkjanna, eða af utanríkisráðuneytum þar sem því er að skipta. Alþingi greiðir um 0,19% heildarframlaga þingsins, eða 4.388 evrur árið 2005.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru í upphafi ársins 2005 Pétur H. Blöndal, formaður, þingflokki sjálfstæðismanna, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, þingflokki framsóknarmanna, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru þau Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki sjálfstæðismanna, Hjálmar Árnason, þingflokki framsóknarmanna, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    3. október 2005 var Jóhann Ársælsson, þingflokki Samfylkingarinnar, kjörinn varamaður í stað Ástu R. Jóhannesdóttur. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildarinnar til 1. september en þá tók Guðfríður Lilja Grétarsdóttir við starfinu.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir árið 2005 var þannig:
    
1.    nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal.
    Til vara: Guðlaugur Þór Þórðarson.
2.    nefnd um efnahagsmál, vísindamál,
    tæknimál og umhverfismál:
Dagný Jónsdóttir.
    Til vara: Hjálmar Árnason.
3.    nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Jóhanna Sigurðardóttir.
    Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir,
Jóhann Ársælsson frá 3. október.

Starfsemi á árinu 2005.
a. Fundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 24.–25. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til fundar í Vínarborg. Var fundurinn afar vel sóttur af fulltrúum 55 landsdeilda ÖSE-þingsins og sem fyrr var meginmarkmiðið að gefa öllum fulltrúum ÖSE-þingsins sem sæti eiga í málefnanefndum þingsins færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal formaður og Jóhanna Sigurðardóttir, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Fund stjórnarnefndarinnar, sem haldinn var að morgni fimmtudagsins 24. febrúar, ávörpuðu Andreas Kohl, forseti austurríska þingsins, og Alcee Hastings, nýkjörinn forseti ÖSE- þingsins, sem sagði fundarmönnum frá störfum ÖSE-þingsins frá síðasta ársfundi þess í Edinborg og vék hann í máli sínu að eftirfylgni Edinborgar-yfirlýsingarinnar. Á fundinum voru einnig teknar fyrir skýrslur gjaldkera þingsins og framkvæmdastjóra, auk þess sem formenn sérlegra málefnanefnda lögðu áfangaskýrslur sínar fyrir stjórnarnefndina. Stjórnarnefndin samþykkti minni háttar breytingu á þingsköpum sem tók til forsætisnefndar þingsins. Auk þess var rætt um fundi fram undan og kosningaeftirlit sem fram hefði farið mánuðina á undan. Nokkrar umræður urðu um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og eftirlit ÖSE- þingsins, sem og forsetakosningarnar í Úkraínu þar sem kosningaeftirlitsmenn ÖSE-þingsins skiptu sköpum.
    Undir liðnum skýrslur sérnefnda tók hollenski þingmaðurinn Nebahat Albayrak, formaður sérnefndar ÖSE-þingsins um fjárlög ÖSE, til máls og minnti fundarmenn á tilurð nefndarinnar sem sett var á laggirnar eftir Edinborgar-fundinn, að frumkvæði Péturs H. Blöndal, formanns Íslandsdeildarinnar. Sagði hún að ÖSE-þingið ætti að gegna mikilvægu hlutverki hvað fjármál ÖSE varðaði og að hún vonaðist eftir samvinnu við höfuðstöðvarnar í Vínarborg. Rakti hún vandamál þau sem loðuðu við fjárlög ÖSE ár hvert, þ.e. að viss ríki virtust taka fjárhagsáætlun komandi árs „í gíslingu“ í ljósi þess að öll aðildarríkin verða að veita fjárlögunum samþykki sitt. Þá ræddi hún enn fremur um fund sérnefndarinnar í tengslum við Ródos- fundinn í október 2004 og að í kjölfar hans hefði verið ákveðið að nefndarmenn sendu utanríkisráðuneytum sínum bréf þar sem þau voru innt svara við ákveðnum spurningum um fjárlögin. Minntist Albayrak á svar utanríkisráðuneytis Hollands sem henni þótti ámælisvert þar sem lítið væri gert úr hlutverki ÖSE-þingsins og sagt að aukins gagnsæis væri ekki þörf. Að lokum sagði hún að nefndin hefði einsett sér að hafa ályktanir ársfundanna til hliðsjónar við störf sín og reyna þannig að þrýsta á um að vilji þingsins endurspeglaðist í verkefnum ÖSE. Nokkrar umræður sköpuðust um innleg Albayraks og fögnuðu menn þessu frumkvæði sérnefndarinnar auk þess sem fundarmenn lýstu vanþóknun sinni á því að einstök ríki kæmu í veg fyrir samþykkt fjárlaganna.
    Að venju funduðu málefnanefndirnar þrjár einnig á febrúarfundinum þar sem fjallað var um væntanleg skýrsludrög fyrir ársþingið og sérstaklega um nefnd vísra manna til að fjalla um framtíðarhlutverk ÖSE. Var harðlega gagnrýnt að enginn fulltrúi frá ÖSE-þinginu hefði verið skipaður í nefndina.
    Sameiginlegur fundur allra nefnda var haldinn báða fundardagana. Á fyrri fundinum hlýddu þátttakendur á ávörp Alcee Hastings, forseta ÖSE-þingsins, Heinz Fischer, forseta Austurríkis, og Dimitrij Rupel, utanríkisráðherra Slóveníu, sem fór með formennsku í ráðherraráðinu árið 2005. Í ávarpi Rupels var lögð áhersla á mikilvægi kosningaeftirlits og hlutverk ÖSE-þingsins í því starfi. Hvatti hann jafnframt þingmenn til að leggja sitt af mörkum til að endurbæta störf ÖSE, sem svo mjög hefur verið í deiglunni undanfarin missiri. Sagði hann að ÖSE væri að nokkru leyti í erfiðri stöðu, sem jafnframt mætti túlka sem tækifæri til framtíðar. Sagði hann að stækkun ESB og NATO og þróun síðustu ára í alþjóðasamskiptum hefði leitt til þess að umhverfi og hlutverk ÖSE væri mjög breytt og kallaði það á gagngera endurskoðun sem nú færi fram. Seinni fundurinn var haldinn síðdegis föstudaginn 25. febrúar og hófst hann á því að Tone Tingsgård, fulltrúi þingsins í jafnréttismálum, hélt framsögu og svaraði spurningum þingmanna.
    Þá tók til máls Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, sem senn lætur af störfum, og ræddi hann aðallega um stöðu fjárlaga ÖSE. Þau mál hafa orðið æ fyrirferðarmeiri að undanförnu, enda hefur fjárlagaferlið sjálft orðið tilefni háværra gagnrýnisradda innan og utan stofnunarinnar. Þannig bar til í febrúar að fjárlög ársins 2005 höfðu enn ekki hlotið samþykki Rússa. Var þetta annað árið í röð sem svo háttaði til og helgast það af samstöðureglunni svonefndu sem kveður á um að öll aðildarríkin verða að sættast á ákvarðanir ráðherraráðsins. Rússar héldu þannig fjárlögunum í nokkurs konar gíslingu. Auk þeirra tveggja fluttu gjaldkeri þingsins, kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, og framkvæmdastjórinn, Spencer Oliver, framsögur á fundinum.
    Sem kunnugt er hefur sérnefnd ÖSE-þingsins um fjárlög ÖSE þegar tekið til starfa að frumkvæði formanns Íslandsdeildar. Sérnefndin, sem í sitja fjórir þingmenn undir forsæti hollenska þingmannsins Nebahat Albayrak, fundaði í Vínarborg og báru fulltrúar hennar þar saman bækur sínar. Rætt var um í hvaða farveg ætti að beina starfinu og var ljóst að mikill áhugi er á að gera gangskör í meðhöndlun fjárlaga ÖSE og opna fjárlagaferlið með þeim hætti að ÖSE-þingið hefði þar áhrif. Var enn fremur rætt um afstöðu fastanefndanna í Vínarborg til starfs nefndarinnar og um hver næstu skref yrðu. Niðurstaða fundarins varð að á Washington-fundinum í júlí mundi nefndin skila af sér áliti á fjárlögum ÖSE og fjárlagaferlinu.
    Nebahat Albayrak, formaður sérnefndar um fjárlög ÖSE, tók til máls á sameiginlega fundinum föstudaginn 25. febrúar, eftir ávarp Jans Kubis, framkvæmdastjóra ÖSE, og innti hann svara við spurningum um hvernig auki mætti þátttöku ÖSE-þingsins í eftirliti með fjárlagaferlinu sem og hvernig auka mætti gagnsæi fjármálahliðar stofnunarinnar. Fór Albayrak yfir helstu þætti starfs sérnefndarinnar og sagði að mikill pólitískur vilji væri á bak við hana. Þá spurði hún framkvæmdastjórann hvort það væri skilningur hans að nauðsynlegt væri að upplýsa ekki um of hvernig fé sem ætlað væri til tiltekinna verkefna á vegum stofnunarinnar, væri varið. Vísaði hún með þessum orðum sínum til svars utanríkisráðherra Hollands, Bernards Bots, sem einnig fór með formennsku í ráðherraráðinu árið 2004, við bréfi sínu en þar kom fram að enn væri tóm til endurbóta á fjárlagaferlinu þótt jafnframt væri nauðsynlegt að hafa ákveðið svigrúm innan fjárhagsáætlunar svo tryggja mætti sjálfstæði ÖSE og vettvangsskrifstofanna gagnvart aðildarríkjunum og sértækum hagsmunum þeirra. Í svari Kubis kom fram að hann fagnaði stofnun sérnefndarinnar og sagði að full þörf væri á kröftum hennar. Sagði hann enn fremur að það væri rétt hjá sérnefndinni að svör ráðherraráðsins við spurningum sem fram hefðu komið væru fremur rýr og að nauðsyn væri á að bæta þar úr. Að öðru leyti svaraði Kubis því til að hann sem embættismaður stofnunarinnar gæti ekki skorið úr um hve langt ætti að ganga í að virkja krafta þingsins við eftirlitshlutverkið, ákvarðanir ÖSE byggðust á samstöðu.

b. 14. ársfundur ÖSE þingsins.
    Dagana 5.–9. júlí var fjórtándi ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Washington. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar þau Pétur H. Blöndal formaður, Dagný Jónsdóttir varaformaður og Jóhanna Sigurðardóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Meginþema fundarins var að þessu sinni þrjátíu ára samstarf á vettvangi Helsinki-sáttmálans og framtíðarverkefni ÖSE. Tóku skýrslur og ályktanir málefnanefndanna þriggja mið af þessu þema og var þar rætt um að sömu forsendur og lágu til grundvallar Helsinki-sáttmálanum á sínum tíma væru enn í gildi í dag þrátt fyrir gjörbreytta heimsmynd og nýjar ógnir.
    Þá beindust sjónir manna að framtíðarhlutverki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og hvernig stofnunarinnar nyti best við í samstarfi við aðrar svæðisbundnar alþjóðastofnanir í álfunni í baráttunni gegn helstu vám sem aðildarríkin standa frammi fyrir, svo sem alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, mansali, peningaþvætti og vopnasmygli. Yfir þrjú hundruð fulltrúar 55 aðildarríkja ÖSE-þingsins sátu setningarfund ársfundarins og hlýddu á setningarávarp bandaríska þingmannsins Alcee Hastings, forseta ÖSE-þingsins. Auk þess ávörpuðu eftirfarandi tignargestir þingfundi ÖSE-þingsins: Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Dennis J. Hastert, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Dimitrij Rupel, utanríkisráðherra Slóveníu og formaður ráðherraráðs ÖSE, Sam Brownback, öldungadeildarþingmaður og formaður bandarísku landsdeildarinnar, og Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóri ÖSE. Mikill hluti umræðna á þingfundinum fór í að ræða nýútkomna skýrslu hinna vísu manna, þ.e. skýrslu nefndar sem skipuð var ýmsum fyrrverandi og núverandi framámönnum í RÖSE- og síðar ÖSE-samstarfinu og fjallaði um framtíðarhlutverk ÖSE. Mikil vinna hafði legið að baki skýrslunni en Slóvenar, sem fara með formennsku í ráðherraráði ÖSE árið 2005, höfðu frumkvæði að ritun hennar og kom hún út fjórum dögum fyrir Washington- fundinn.
    Fyrsti formlegi liður ársfundarins var fundur stjórnarnefndar ÖSE-þingsins sem skipuð er formönnum allra landsdeilda, auk formanna og annarra embættismanna málefnanefndanna. Á fundinum voru teknar fyrir áfangaskýrslur hinna ýmsu sérnefnda ÖSE-þingsins og skýrslur frá fundum og ráðstefnum sem efnt hafði verið til á árinu á vegum ÖSE-þingsins. Var fundarmönnum m.a. sagt frá árangri ráðstefnu um Miðjarðarhafssvæðið og mansal sem efnt var til á Ródos haustið 2004, auk þess sem fjallað var um kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins. Þá var stuttlega rætt um ráðstefnur og fundi þá sem fram undan væru. Að því loknu héldu gjaldkeri þingsins og framkvæmdastjóri framsögur. Kanadíski þingmaðurinn Jerry Grafstein, gjaldkeri þingsins, sagði að samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG væru sjóðir ÖSE-þingsins í góðu horfi og lagði hann fram fjárhagsáætlun fyrir starfsárið 2005–2006 sem var samþykkt. Þá sagði Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins stuttlega frá helstu breytingum á störfum skrifstofu ÖSE-þingsins og verkefnum þess. Því næst var fjallað um endurnýjun á umboði stjórnarnefndarinnar til framkvæmdastjórans, Spencers Olivers. Oliver sem setið hafði sem framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins frá stofnun þess árið 1994 hafði fyrir fundinn sóst eftir endurráðningu og samkvæmt þingsköpum var endurráðningin borin undir stjórnarnefndina.
    Fyrir fundinn hafði ítalska sendinefndin lagt fram breytingartillögu við þingsköp sem kvað á um að framkvæmdastjórinn gæti að hámarki setið tvisvar sinnum í fimm ár og þar að auki gæti framkvæmdastjóri setið ellefta árið í starfi ef sérstakar aðstæður krefðust þess. Nokkur bréfa- og skoðanaskipti höfðu átt sér stað um þetta mál mánuðina á undan meðal fulltrúa stjórnarnefndarinnar og voru nokkuð skiptar skoðanir um hvort rétt væri að framkvæmdastjóri samtakanna gæti setið, með samþykki stjórnarnefndarinnar, svo lengi sem hann kysi eða hvort rétt væri að takmarka gildistíma ráðningarsamnings æðsta embættismanns ÖSE- þingsins. Höfundur breytingartillögunnar, Ítalinn Giovanni Kessler, hafði fengið tilskilinn fjölda undirskrifta, þar á meðal undirskrift formanns Íslandsdeildar, og óskaði eftir því að leggja hana fram til atkvæða á fundinum. Fyrir fundinn hafði Alcee Hastings, forseti ÖSE- þingsins, skipað sérstaka nefnd sem ræða átti breytingartillöguna auk annarra hugsanlegra breytinga á þingsköpum ÖSE-þingsins. Nefndin hafði ekki komið saman fyrir stjórnarnefndarfundinn og því ekki tekið afstöðu til breytingartillögu Kesslers. Í ljósi þess þvertók Hastings fyrir það að leyfa framlögn breytingartillögunnar og taldi að ekki væri nægur stuðningur fyrir hendi. Olli þetta mikilli óánægju á fundinum og urðu margir til þess að mótmæla þessari ákvörðun forsetans. Tóku menn fram að ekki væri verið að gagnrýna störf Spencers Olivers, á hinn bóginn væri breytingartillagan sanngjörn og tæki mið af nútímalegum stjórnunarháttum. Hastings ákvað jafnframt að efna til atkvæðagreiðslu um endurnýjun starfsumboðs framkvæmdastjórans og varð niðurstaðan sú að endurráðning hans var samþykkt með miklum meiri hluta atkvæða. Sjö greiddu atvæði á móti endurráðningunni, m.a. formaður hollensku, bresku og íslensku sendinefndarinnar. Á fundinum var einnig staðfest ráðning Danans Tinu Schön í embætti annars tveggja aðstoðarframkvæmdastjóra ÖSE-þingsins. Þegar þessi dagskráratriði höfðu verið tekin fyrir fluttu formenn sérnefnda og sérlegir fulltrúar ÖSE-þingsins framsögur um starf sitt. Undir þessum dagskrárlið var m.a. rætt um mansal, stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, stöðu mála í Moldóvu, og ástandið í Nagorno- Karabak. Þá var einnig rætt um kosningaeftirlit í Kirgistan og Moldóvu. Fyrir ársfundinn í Washington höfðu verið lagðar fram 16 viðbótarályktunartillögur frá landsdeildum og var þeim vísað til viðeigandi málefnanefnda í lok fundarins.
    Á fundi 1. nefndar (nefndar um stjórnmál og öryggismál) var tekin fyrir skýrsla belgíska þingmannsins Pieter de Crem sem bar yfirskrift meginþema fundarins. Umræðurnar í nefndinni beindust að fjölmörgum málefnum sem tæpt var á í skýrslunni, m.a. hlutverki ÖSE til friðar og stöðugleika í Evrópu, baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og endurbótum á innra skipulagi ÖSE. Í ályktun meginskýrslu 1. nefndar var hryðjuverkastarfsemi í hvers kyns mynd fordæmd harðlega og minnt á meginhlutverk þjóðþinga aðildarríkjanna við að berjast gegn þeirri vá. Þá var rætt um eiturlyfjasmygl í ályktuninni og aðildarríkin hvött til þess að efla varnir sínar á því sviði. Á fundinum voru tekin fyrir fern viðbótarályktanadrög og samþykkt og vísað til þingfundar. Ályktanirnar sem samþykktar voru fjölluðu um hryðjuverk og sjálfsmorðssprengjuárásir, stöðu mála í Abkasíu, hryðjuverk og mannréttindi og stöðu mála í Moldóvu.
    Í 2. nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda og umhverfismál) var tekin fyrir skýrsla rússneska þingmannsins Leoníds Ivantsjenkós sem einnig fjallaði um meginþema fundarins. Efnistökin voru þó önnur en í 1. nefnd og var megináherslan lögð á efnahagslegt gildi ÖSE-samstarfsins í fortíð og nútíð og aðildarríkin í austri hvött til þess að nývæða efnahagslíf sitt, borgurum til heilla. Þá voru helstu áfangar í umhverfisvernd á síðustu árum tíundaðir og rætt um hve nánum böndum umhverfismál og öryggismál tengdust. Var hvatt til ríkara samstarfs ríkja í umhverfismálum og lögð áhersla á að forvarnir í umhverfismálum og úrlausn brýnna mála væru hreint öryggismál og þyrfti því að setja í forgang. Nefndin tók fimm viðbótarályktanadrög til meðferðar þ.e. ályktanir um léttvopn og smávopn, öryggi sjófarenda og sjórán, Miðjarðarhafsvídd ÖSE-samstarfsins, peningaþvætti og baráttu gegn spillingu. Allar viðbótarályktanirnar voru samþykktar og vísað til þingfundar.
    Í 3. nefnd (nefnd um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál) var tekin fyrir skýrsla belgíska þingmannsins Anne-Marie Lizin sem, eins og hinar meginskýrslur fastanefndanna, bar titil meginþema fundarins. Meginefnistök skýrslunnar voru m.a. um jafnrétti kynjanna, baráttuna gegn mansali, algildi lýðréttinda og kröfur minnihlutahópa um mannréttindi. Miklar umræður urðu um skýrslu Lizin og voru alls 15 breytingartillögur lagðar fram við ályktun hennar. Ein þeirra, og sú sem einna mesta athygli vakti, var breytingartillaga bandaríska þingmannsins Eleanor Holmes Norton um að íbúar Washington ættu rétt til að taka þátt í þingkosningum, en sem kunnugt er geta íbúar höfuðborgar Bandaríkjanna ekki kosið sér fulltrúa á þing. Var breytingartillagan samþykkt. Auk meginályktunar nefndarinnar tók 3. nefnd fimm viðbótarályktunardrög til meðferðar og fjölluðu þau um baráttuna gegn mansali og kaup á kynlífsþjónustu meðal alþjóðlegra friðargæslusveita, þörfina á siðareglum fyrir starfsfólk ÖSE á vettvangi, baráttuna gegn mansali, þörfina á skilvirkara starfi á vettvangsskrifstofum ÖSE og fjármögnun lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE (ODIHR). Voru öll drögin samþykkt og þeim vísað til þingfundar eftir miklar umræður. Í fjarveru formanns stjórnaði sænski þingmaðurinn Cecilia Wigström fundum nefndarinnar af mikilli röggsemi. Í lok hvers nefndarfundar var kjörið í embætti hennar.
    Efnt var til þingfundar þriðjudaginn 9. júlí. Meðal dagskrárliða var skýrsla gjaldkera þingsins, kanadíska þingmannsins Jerrys Grafsteins, og skýrsla framkvæmdastjóra ÖSE- þingsins, Spencer Oliver. Þá var efnt til almennra umræðna um skýrslur og ályktunardrög málefnanefndanna. Í umræðum kom fram að ÖSE (áður RÖSE) hefði náð einstökum árangri á þeim þremur áratugum frá því að Helsinki-yfirlýsingin var undirrituð sem hefði valdið straumhvörfum í kalda stríðinu og lægi enn til grundvallar einu farsælasta öryggis- og mannréttindasamstarfi veraldar. ÖSE væri einstök stofnun með einstaka eiginleika. Þá voru ályktanir málefnanefnda og viðbótarályktanir samþykktar. Ályktanirnar voru steyptar í skjal sem nefnist Washington-yfirlýsing ÖSE-þingsins. Í lok fundarins var kjörið í trúnaðarembætti þingsins. Alcee Hastings var einn í framboði til forseta og endurkjörinn án atkvæðagreiðslu. Í kosningum til embætta varaforseta voru fimm í kjöri. Þeir sem flest atkvæði hlutu voru Belginn Pieter de Crem, Barbara Hering frá Sviss, Oleh Bilorus frá Úkraínu og Pia Christmas-Möller frá Danmörku. Þau voru öll kjörin til þriggja ára. Þá var Jerry Grafstein endurkjörinn til tveggja ára í embætti gjaldkera.
    Auk funda í málefnanefndum og þingfundar var efnt til sérlegra funda til hliðar við þinghaldið. Efnt var til sérstaks fundar um málefni Miðjarðarhafsins, auk þess sem sérnefnd ÖSE- þingsins um gagnsæi og góð vinnubrögð, nefnd um málefni Hvíta-Rússlands og nefnd um málefni Nagorno-Karabak funduðu. Að venju var einnig efnt til sérlegs kvennafundar ÖSE- þingsins í boði bandarísku sendinefndarinnar.

c. Aukastjórnarnefndarfundur.
    Dagana 7.–10. október voru haldnir fundir stjórnarnefndar ÖSE-þingsins ásamt því sem þemaráðstefna þingsins, sem að þessu sinni fjallaði um lýðræði og góða stjórnarhætti í fjölmenningarlegum samfélögum, og ráðstefna um málefni Miðjarðarhafssvæðisins fór fram. Fundirnir fóru fram í Sveti-Stefan í Svartfjallalandi. Pétur H. Blöndal formaður sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur ritara.
    Á fundi stjórnarnefndarinnar fór forseti ÖSE-þingsins yfir starf sitt undanfarna mánuði og ræddi m.a. fund sem hann átti með fastafulltrúum aðildarríkja ÖSE í Vín. Að því loknu fór gjaldkeri þingsins yfir fjárhag þess. Þar kom fram að þingið væri enn sem fyrr rekið innan þess fjárhagsramma sem því er sett. Auk þess var rætt um kosningaeftirlit ÖSE-þingsins og málefni sérnefnda þingsins. Að lokum fór framkvæmdastjóri ÖSE yfir fjárhag stofnunarinnar. Hann skýrði skiptingu fjármuna milli vettvangsskrifstofa ÖSE og höfuðstöðvanna. Að því loknu fóru fram almennar umræður um fjárhag stofnunarinnar. Á fundinum spurðist Pétur Blöndal fyrir um starf vinnuhóps ÖSE-þingsins sem ætlað er að fylgjast með fjárhag stofnunarinnar.
    Á þemaráðstefnu ÖSE-þingsins í Svartfjallalandi voru lýðræði og góðir stjórnarhættir í fjölmenningarsamfélögum til umræðu. Haldnir voru fjórir fundir um þau málefni. Á fyrsta fundinum var rætt um stjórnun á fjölmenningarsamélögum, á öðrum fundinum var rætt um þá áskorun sem felst í lýðræði í fjölmenningarsamfélögum, á þriðja fundinum var rætt um stofnanir og hlutverk þeirra í verndun minnihlutahópa og að lokum var fundur um mikilvægi borgaralegs samfélags.
    Á ráðstefnu ÖSE-þingsins um málefni Miðjarðarhafssvæðisins var lögð sérstök áhersla á fólksflutninga og viðskipti innan svæðisins sem eru nú sem endranær einhver mikilvægustu viðfangsefni ríkjanna við Miðjarðarhafið, auk þess sem þau hafa mikil áhrif í flestum ríkjum Evrópu.


Alþingi, 21. febr. 2006.



Pétur H. Blöndal,


form.


Dagný Jónsdóttir,


varaform.


Jóhanna Sigurðardóttir.