Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.

Þskj. 821  —  566. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu,
nr. 54/1962, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðskrá annast almannaskráningu samkvæmt lögum þessum, útgáfu vottorða, skilríkja og annað það er lög mæla fyrir um.
    Dómsmálaráðherra fer með stjórn Þjóðskrár og skal hún rekin sem skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu. Fjárreiður Þjóðskrár skulu vera algerlega greindar frá fjárreiðum ráðuneytisins.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Auk Þjóðskrár starfa sveitarstjórnir að almannaskráningu.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðið „þjóðskráin“ skal ritað með hástaf og sama orð með sama hætti hvarvetna annars staðar í lögunum (í viðeigandi orðmynd).
     b.      Í stað orðsins „Hagstofunnar“ í 3. tölul. kemur: dómsmálaráðuneytis.
     c.      6. tölul. orðast svo: að láta í té efnivið í mannfjöldaskýrslur Hagstofu Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Tilkynningar ljósmæðra til Þjóðskrár um fæðingar. Skýrslur presta þjóðkirkjunnar, forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga til Þjóðskrár um nafngjafir við skírnir eða nafngjafir án skírna, hjónavígslur og mannslát.
     b.      Í stað orðsins „Hagstofunnar“ í 3. og 4. tölul. 1. mgr. kemur: Þjóðskrár.
     c.      5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Gögn dómsmálaráðuneytis um ættleiðingarleyfi, breytingar á ríkisfangi o.fl. í því sambandi.
     d.      6. tölul. 1. mgr. orðast svo: Sérstakar upplýsingar sveitarstjórna, presta þjóðkirkjunnar, forstöðumanna eða presta skráðra trúfélaga, Útlendingastofnunar og annarra opinberra aðila um menn.
     e.      Í stað orðsins „Hagstofan“ í 2. mgr. kemur: Þjóðskrá.

5. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðskrá getur krafist þess af opinberum aðilum að þeir láti henni í té skýrslur og upplýsingar sem hún þarfnast til starfsemi sinnar, enda séu þær á reiðum höndum. Þjóðskrá er heimilt að ákveða skilafresti í þessu sambandi.

6. gr.

    Í stað orðsins „Hagstofan“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: Þjóðskrá.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Nú kemur það í ljós að prestur þjóðkirkjunnar, forstöðumaður eða prestur skráðs trúfélags hefur vanrækt að gera lögboðna skýrslu til Þjóðskrár um nafngjöf við skírn eða nafngjöf án skírnar, hjónavígslu eða mannslát eða skýrsla um slíkt er fyrst látin í té að liðnum skilafresti, og varðar það þá sekt.
     b.      2. mgr. fellur brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Í janúarmánuði ár hvert sendir Þjóðskrá sveitarstjórnum og skattyfirvöldum eintak af íbúaskrá viðkomandi umdæmis 1. desember næsta ár á undan.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Sveitarstjórnir skulu fara yfir íbúaskrána eins fljótt og auðið er eftir móttöku hennar. Sveitarstjórn gerir athugasemdir um oftalda eða vantalda einstaklinga á henni, samkvæmt nánari fyrirmælum Þjóðskrár. Að þessu loknu tilkynnir sveitarstjórn Þjóðskrá athugasemdir sínar um oftalda og vantalda einstaklinga.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Þjóðskrá sendir hlutaðeigandi skattyfirvaldi afrit af tilkynningum þeim sem hún sendir sveitarstjórn skv. 11.–13. gr. og breyta þessir aðilar íbúaskránni til samræmis. Sama gildir um aðrar breytingar sem Þjóðskrá tilkynnir þessum aðilum.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Sveitarstjórn skal tilkynna hlutaðeigandi skattyfirvaldi allar breytingar á íbúaskrá sem hún gerir skv. 4. mgr. 10. gr. og rita þessir aðilar þær á íbúaskrá.

10. gr.

    15. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Iðgjöld til almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, og sóknargjöld samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum, skulu lögð á menn á sömu stöðum og tekjuskattur er á lagður eftir íbúaskrá 1. desember hvert ár, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 89. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

12. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðskrá veitir upplýsingar um aðsetur manna og önnur atriði samkvæmt skrám sínum og gögnum, eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Þjóðskrá annast útgáfu fæðingarvottorða og hliðstæðra vottorða til opinberra nota, svo sem um búsetu, hjúskaparstöðu, sambúðarskráningu og staðfestingu á dánardegi.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal ákvæði um skráningu og rekstur þjóðskrár, aðgang að skránni og innheimtu gjalds, svo sem fyrir útgáfu vottorða, skilríkja, aðgang að skránni og afnot af upplýsingum hennar.
    Hagstofu Íslands er heimilt að hagnýta þjóðskrá og gögn hennar til hagskýrslugerðar. Þjóðskrá skal láta Hagstofunni í té afrit af skránni og upplýsingar úr henni eftir því sem hún óskar og án þess að gjald komi fyrir. Þjóðskrá skal jafnframt aðstoða Hagstofuna eftir föngum við að finna nöfn og heimilisföng þátttakenda í úrtaksathugunum hennar. Hagstofunni er skylt að fara með skrána og önnur gögn tengd henni sem hagskýrslugögn sem um gildir trúnaður.

13. gr.

    Í stað orðsins „vélspjöldum“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: gögnum.

14. gr.

    22. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 2002 lagði ríkisstjórnin fram tillögur um endurskipulagningu á verkefnum á sviði efnahagsmála og hagskýrslugerðar. Var þar meðal annars gert ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og verkefni hennar færð til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Alþingi samþykkti lög þessa efnis vorið 2002 og tóku þau gildi 1. júlí það ár. Í þeim fólst að þau verkefni á sviði hagskýrslugerðar, sem Þjóðhagsstofnun hafði haft með höndum, voru færð til Hagstofunnar. Jafnframt var þá ákveðið að stefnt skyldi að fleiri breytingum á starfsemi Hagstofunnar. Í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun var greint frá því að áformað væri að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja hagskýrslugerðina um leið með því að endurskipuleggja Hagstofuna og flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyrðu hagskýrslugerðinni beinlínis lengur og var þá átt við þjóðskrá og almannaskráningu og skráningu fyrirtækja.
    Upphaflega var stefnt að því að færa þjóðskrá og fyrirtækjaskrá frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra. Horfið var frá þessum áformum hvað snerti þjóðskrá þar sem fram komu efasemdir um að verkefni almannaskráningar ættu fulla samleið með meginverkefnum ríkisskattstjóra. Áformin um flutning á fyrirtækjaskráningu til ríkisskattstjóra gengu hins vegar eftir og tók það embætti við skráningu fyrirtækja, hlutafélaga, einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri um mitt ár 2003.
    Nú hefur verið ákveðið að ljúka þessum breytingum á verkaskiptingu stofnana og endurskipulagningu Hagstofunnar með því að færa þjóðskrá og almannaskráningu frá henni til dómsmálaráðuneytis, sbr. samþykkt ríkisstjórnarinnar á fundi 27. september 2005. Til þess að þessi breyting nái fram að ganga þarf að breyta ákvæðum reglugerðar um Stjórnarráð Íslands og ýmsum lögum á þessu sviði. Með frumvarpi þessu er leitað nauðsynlegra breytinga á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu en samhliða er flutt annað frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem leiða af flutningi þjóðskrár frá Hagstofunni til dómsmálaráðuneytis.
    Hagstofan kom þjóðskránni á fót fyrir röskri hálfri öld. Stofnun þjóðskrárinnar og rekstur hennar var skipulagður í samvinnu við skattyfirvöld og landlæknisembættið. Henni var komið á fót til að sinna brýnum þörfum stjórnvalda fyrir samræmda skráningu landsmanna. Þetta þótti ekki síst nauðsynlegt til að tryggja að skattskylda næði jafnt til allra; enginn kæmist undan henni og enginn yrði skattlagður tvisvar. Enn fremur átti skráin að mæta þörfum heilbrigðiskerfisins fyrir heildarskrá, sem þá var meðal annars talin geta komið að miklum notum við eftirlit með smitsjúkdómum og þá sérstaklega í tengslum við útrýmingu berkla, sem þá var eitt helsta viðfangsefni heilbrigðisyfirvalda. Loks átti þjóðskráin að verða Hagstofunni efniviður til hagskýrslugerðar.
    Allt þetta hefur gengið eftir. Rekstur þjóðskrár hefur falið í sér margháttað hagræði fyrir stjórnvöld, atvinnulíf og almenning. Það er hagræði fólgið í því að öll stjórnvöld og opinber kerfi geti unnið með eina samhæfða skrá, sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Hagstofan hefur annast almannaskráninguna í samvinnu við sveitarfélögin og ýmis stjórnvöld, ekki síst skattyfirvöld og sýslumenn. Þegar undan er skilið það hlutverk þjóðskrár að vera uppspretta gagna til hagskýrslugerðar má hins vegar færa fyrir því rök að auka megi hagræðingu í rekstri hennar með því að flytja hana frá hagskýrslugerðinni og auka tengsl skráningarstarfsins við skylda starfsemi innan stjórnkerfisins. Er þá gert ráð fyrir að Hagstofan hafi áfram aðgang að þjóðskrá og gögnum hennar til hagskýrslugerðar og hagnýting þeirra í því skyni verði engu minni en verið hefur.
    Samsetning hagskýrslugerðar og rekstur þjóðskrár í einni stofnun hefur á síðari árum ekki þótt jafnheppileg og var þegar þjóðskráin var stofnuð. Þetta stafar af ekki síst af þeirri þróun sem orðið hefur í viðhorfum og reglum um meðferð persónubundinna gagna. Þessi þróun hefur meðal annars verið fólgin í því að kröfur um gagnaleynd hafa verið skilgreindar ítarlega eftir því í hvaða skyni gögnum er safnað og með þau unnið. Opinber skráning einstaklinga í þjóðskrá lýtur þannig öðrum reglum en þær sem verða að gilda um hagskýrslugerð. Á árunum 1992 og 1994 voru á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samdar og samþykktar svonefndar grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð. Ísland hefur staðfest þessar reglur og hefur Hagstofan leitast við að fylgja þeim. Þær mæla meðal annars fyrir um eftirfarandi meginatriði:
          að fullkominn trúnaður skuli ríkja um hagskýrslugögn, sem varða tiltekna einstaklinga, fyrirtæki eða aðra aðila,
          að gögn, sem safnað er til hagskýrslugerðar, megi ekki nota í öðrum tilgangi og
          að ekki megi birta niðurstöður á þann hátt að þær verði rekjanlegar til tiltekinna einstaklinga eða aðila.
    Þessar reglur koma ekki í veg fyrir að Hagstofan hagnýti þjóðskrá og aðrar opinberar skrár, svo sem fyrirtækjaskrár, skattskrár eða tryggingaskrár, til hagskýrslugerðar, enda sé einstaklingsbundnum upplýsingum ævinlega haldið leyndum. Hins vegar þykir erfiðara að verja að Hagstofan fari með almannaskráningu og fáist með því beinlínis við einstaklingsbundin mál og úrlausn álitamála um skráningu einstaklinga, þegar meginstarfsemi hennar byggist á því að heitið sé fyllsta trúnaði um einstaklingsbundin gögn. Þetta getur dregið úr trúverðugleika Hagstofunnar sem óvilhallrar hagskýrslustofnunar.
    Sem fyrr segir var skilið á milli hagskýrslustarfsemi Hagstofunnar og rekstrar fyrirtækjaskrár á árinu 2003 og er nú gert ráð fyrir svipuðum skilnaði á milli hagskýrslugerðar og almannaskráningar hennar. Er lagt til að þjóðskrá og almannaskráning verði færð til dómsmálaráðuneytis.
    Tengsl þjóðskrár og verkefna á sviði dómsmálaráðuneytis hafa vaxið til mikilla muna á síðustu árum. Þjóðskráin er þannig undirstaða ýmissa verkefna sem dómsmálaráðuneytið og stofnanir þess hafa með höndum, svo sem skráningar útlendinga, veitingar dvalarleyfa og útgáfu vegabréfa og ökuskírteina. Þá er þjóðskrá og gagnasafn hennar ein helsta heimild um margháttuð málefni einstaklinga á sviði sifjaréttar, svo sem um faðerni barna, ættleiðingar, forsjá barna, stofnun og slit hjúskapar og staðfestrar samvistar og skráningar sambúðar og slit hennar, svo og um ríkisfang, mannanöfn o.fl. Er það ætlun dómsmálaráðuneytisins að hagnýta þessi tengsl með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni, til dæmis hvað varðar útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja og umsjá með verkefnum ráðuneytisins á sviði löggjafar um mannanöfn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar þess efnis að Þjóðskrá verði færð frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir að hlutverk Þjóðskrár verði eftir sem áður að annast almannaskráningu samkvæmt lögunum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta er ætlunin að hagnýta tengsl Þjóðskrár og verkefna á sviði dómsmálaráðuneytis með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni og er því lagt til að Þjóðskrá annist útgáfu ýmissa skilríkja og annað það er lög mæla fyrir um.
    Lagt er til að Þjóðskrá verði rekin sem skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu en ekki sem deild eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Ástæða þessarar orðalagsbreytingar er sú að þegar lögin, sem eru frá árinu 1962, voru sett var starfsemi ráðuneyta almennt skipt í deildir en er í dag skipt í skrifstofur. Í 12. gr. frumvarpsins er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna, þar á meðal rekstur Þjóðskrár, og er vísað nánar til athugasemda við þá grein.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að einungis sveitarstjórnir starfi með Þjóðskrá að almannaskráningu. Hlutverki sóknarpresta í slíkri skráningu lauk fyrir mörgum árum. Eru því ákvæði um störf sóknarpresta að almannaskráningu löngu úrelt og rétt að fella þau niður í lögum um þjóðskrá.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er í a-lið gert ráð fyrir að þegar vísað er til „þjóðskrár“ í lögunum sem skrifstofu ráðuneytisins verði hún rituð með hástaf (stórum staf), en þegar rætt er um skrána sem slíka verði hún rituð með lágstaf (litlum staf). Hvarvetna sem orðið kemur eftirleiðis fyrir í lögunum verður það ritað með hástaf þar sem tilvísanir eiga við Þjóðskrá sem skrifstofu.
    Í b-lið er lagt til að í stað tilvísunar til ákvörðunar Hagstofunnar verði vísað til ákvörðunar dómsmálaráðuneytis.
    Þá er í c-lið lagt til að heiti Hagstofu Íslands verði ritað fullum fetum.

Um 4. gr.

    Í a-lið er lagt til að verklag sem Þjóðskrá tók upp árið 1988 við skil á fæðingarskýrslum verði lögfest. Fram til þess tíma skiluðu ljósmæður fæðingarskýrslum til sóknarpresta sem síðan sendu þær Þjóðskrá eftir innfærslu upplýsinga í prestsþjónustubækur. Þetta ferli tók oft langan tíma og varð ótækt þegar ákveðið var árið 1986 að skrá upplýsingar almennt daglega í þjóðskrá. Nú senda ljósmæður Þjóðskrá fæðingarskýrslur daglega í Reykjavík og litlu síðar utan af landi. Með gildistöku nýrra barnalaga 1. nóvember 2003 var þetta verklag Þjóðskrár lögfest, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Þar segir m.a. að barn skuli skráð í þjóðskrá þegar eftir fæðingu þess. Prestar eru nú hættir að skrá fæðingar sem verða í sóknum þeirra í prestsþjónustubækur en skrá einungis í bækurnar ákveðin prestsverk. Þá er enn fremur í a-lið lögð til orðalagsbreyting til nútímahorfs. Áður fyrr stóðu sóknarprestar einir að skýrslugjöf til Þjóðskrár vegna nafngjafa barna hvort sem þau voru skírð eða ekki. Þessi háttur er löngu aflagður og berast Þjóðskrá nú skýrslur um nafngjafir, hjónavígslur og andlát frá prestum þjóðkirkjunnar, forstöðumönnum eða prestum skráðra trúfélaga. Í b–e-liðum eru annars vegar tilvísanir til Þjóðskrár í stað Hagstofu og hins vegar orðalagsbreytingar að hluta til þær sömu og í a-lið.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til þær orðalagsbreytingar að Þjóðskrá getur krafist þess af opinberum aðilum að þeir láti henni í té skýrslur og upplýsingar sem hún þarfnast til starfsemi sinnar, í stað Hagstofunnar. Þá verði Þjóðskrá í stað Hagstofunnar heimilt að ákveða skilafresti í þessu sambandi.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að í stað tilvísunar til Hagstofunnar verði vísað til Þjóðskrár.

Um 7. gr.

    Í a-lið er lögð til sama breyting og getið er um í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins hvað varðar orðin prestar þjóðkirkjunnar, forstöðumenn eða prestar skráðra trúfélaga í stað orðsins sóknarprestar. Í b-lið er lagt til að málsgreinin verði felld brott úr lögunum því hún á ekki lengur við og eftir orðalagsbreytingar í a-lið greinarinnar er hún óþörf.

Um 8.–10. gr.

    Hér er lagt til að sama breyting verði gerð á lögunum um hlutverk sóknarpresta í almannaskráningu og getið er um í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Lagatilvísanir í 17. gr. laganna eru til laga sem fallin eru úr gildi og ný lög hafa komið í þeirra stað. Eru því hér lagðar til breytingar þar sem vísað er til núgildandi laga um almannatryggingar, laga um sóknargjöld o.fl. og laga um tekjuskatt.

Um 12. gr.

    Í 1. og 2. mgr. eru lagðar til orðalagsbreytingar því ákvæðin þykja orðin gamaldags en efnislega eru þau eins.
    Í 3. mgr. er lagt til að dómsmálaráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði m.a. um skráningu, rekstur og aðgang að þjóðskrá og miðlun upplýsinga úr henni svo og um gjaldtöku fyrir aðgang að og afnot af skránni og upplýsingum hennar. Þetta ákvæði er hliðstætt ákvæðum í lögum um fyrirtækjaskrá, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Er gert ráð fyrir að gjaldtöku vegna afnota þjóðskrár verði hagað á svipaðan hátt og nú er gert og verið hefur lengst af hjá Hagstofunni. Miðað er við að með afnotagjöldum megi standa undir meginhluta rekstrar Þjóðskrár.
    Við flutning Þjóðskrár frá Hagstofunni er nauðsynlegt að tryggja að hún hafi áfram fullan aðgang að og afnot af þjóðskrá til hagskýrslugerðar. Um þetta eru ákvæði í 4. mgr. Með mörg gögn Þjóðskrár verður vitaskuld að fara sem trúnaðargögn líkt og gildir um öll gögn sem safnað er beinlínis til hagskýrslugerðar. Með því er átt við að ekki séu látnar í té upplýsingar um einstaklinga og að upplýsingar séu einungis birtar á samandregnu formi og verði ekki raktar til viðkomandi. Um þessi atriði er meðal annars kveðið á í svonefndum grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagskýrslugerð sem Ísland hefur staðfest eins og vikið er að í almennum athugasemdum hér að framan. Þetta ákvæði er efnislega hliðstætt því sem lögfest var við flutning fyrirtækjaskrár Hagstofunnar til ríkisskattstjóra.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að orðið vélspjöld verði lagt niður og í stað þess komi orðið gögn. Mörg ár eru frá því Þjóðskráin fór að miðla gögnum sínum með öðrum hætti en fyrir tilstuðlan vélspjalda. Við stofnun Þjóðskrár árið 1953 var byggt á sérstöku manntali sem tekið var 16. október 1952 og manntali frá árinu 1950. Upplýsingar úr þessum manntölum voru færðar á vélspjöld sem voru í almennri notkun til ársins 1977. Ennþá er sótt í þessi spjöld daglega við leit eldri upplýsinga.

Um 14. gr.

    Lagt er til að greinin verði felld brott. Við flutning Þjóðskrár í dómsmálaráðuneyti fer um fjárreiður hennar eins og greint er frá í 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps.

Um 15. gr.

    Lagt er til að breytingar samkvæmt þessu frumvarpi taki gildi á sama tíma og breyting á reglugerð um Stjórnarráð Íslands þess efnis að þjóðskrá og almannaskráning flytjist frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutningsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1962,
um þjóðskrá og almannaskráningu.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að verkefni Þjóðskrár og almannaskráningar verði flutt frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Þjóðskráin verði skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu en fjárreiður hennar verði greindar frá fjárreiðum ráðuneytisins. Einnig er gert ráð fyrir að hagnýta tengsl Þjóðskrár og verkefna á sviði dómsmálaráðuneytis með því að fela Þjóðskrá aukin verkefni eins og útgáfu vegabréfa og annarra skilríkja svo og umsjá með ýmsum verkefnum ráðuneytisins á sviði löggjafar um mannanöfn. Samhliða þessu frumvarpi er flutt annað frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem leiða af flutningi þjóðskrárinnar.
    Að öðru leyti en að ofan greinir er fyrirhugað að starfsemi Þjóðskrár verði með svipuðum hætti og verið hefur og að rekstrarkostnaður hennar og verkefna sem þangað verða færð verði óbreyttur. Gert er ráð fyrir að fjárveiting og tekjur vegna starfseminnar verði færð undir dómsmálaráðuneytið en verulegur hluti útgjaldanna verður eins og áður fjármagnaður með rekstrartekjum þjóðskrárinnar, svo sem afnotagjöldum. Ætla má að sú fjármála- og greiðsluþjónusta sem Hagstofan hefur sinnt fyrir Þjóðskrána nemi 1–2 störfum. Á næstunni verður unnið að nánari greiningu á ársreikningum og rekstraráætlun Þjóðskrár til að leggja mat á þær fjárveitingar sem flytja þarf til dómsmálaráðuneytisins. Er því ekki gert ráð fyrir að frumvarpið auki útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.