Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 392. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 912  —  392. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneytinu, Tryggva Þór Haraldsson, Steinar Friðgeirsson, Pétur Þórðarson, Steingrím Jónsson, Þröst Magnússon og Guðmund Karlsson frá Rafmagnsveitum ríkisins, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Eirík Bogason frá Samorku, Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Ingunni S. Þorsteinsdóttur frá ASÍ, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðrúnu Ósk Sigurjónsdóttur frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þóreyju Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Fasteignamati ríkisins, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Samtökum atvinnulífsins, Fjármálaeftirlitinu, talsmanni neytenda, Rafmagnsveitum ríkisins, Samtökum iðnaðarins, Norðurorku, Byggðastofnun, Orkuveitu Húsavíkur, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Hitaveitu Suðurnesja, Orkustofnun, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Með frumvarpinu er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Félagið verður að fullu í eigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldir núverandi fyrirtækis renni til hins nýja hlutafélags, Rarik hf. Skv. 9. gr. frumvarpsins verður allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri greiddur af félaginu. Einnig mun Rarik hf. taka við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna.
    Rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum er m.a. að hlutafélagaform henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við og að reksturinn verði sveigjanlegri. Þá er talið að fjárfestingar og nýjungar í rekstri verði auðveldari í framkvæmd. Einnig takmarkast ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.
    Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson og Katrín Júlíusdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Hlynur Hallsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.
    Sigurjón Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2006.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Helgi Hjörvar,


með fyrirvara.



Einar Oddur Kristjánsson.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Gunnar Örlygsson.



Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Katrín Júlíusdóttir,


með fyrirvara.