Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 652. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 959  —  652. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Katrín Júlíusdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Björgvin G. Sigurðsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jón Kr. Óskarsson, Margrét Frímannsdóttir.


1. gr.
              

    Við 1. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er þeim sem hafa leyfi til sölu tóbaks skv. 11. mgr. 8. gr. laga um tóbaksvarnir heimilt að selja nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er þeim sem selja tóbak veitt heimild til sölu nikótínlyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld. Hvað sölu nikótínlyfja varðar gilda aðrar reglur laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, eftir sem áður um seljanda. Flutningsmenn vilja þar einkum nefna 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að hvorki megi selja né afhenda tóbak einstaklingi yngri en 18 ára.
    Markmið frumvarpsins er að fjölga sölustöðum nikótínlyfja þannig að þau verði valkostur í stað tóbaks þar sem það er selt. Nikótínlyf sem seld eru í lausasölu eru í formi tyggigúmmís, plásturs, innsogs- og nefúðalyfs. Hins vegar eru til nikótíntöflur sem einungis fást gegn framvísun lyfseðils og verður ekki gerð breyting á því með þessu frumvarpi. Frumvarpið felur í sér að unnt verður að kaupa nikótínlyf m.a. á bensínstöðvum, veitingastöðum, í stórmörkuðum og í söluturnum. Verði frumvarpið að lögum má búast við að samkeppni aukist og að verð slíkra lyfja lækki.
    Í Svíþjóð hafa verið uppi tillögur um sama efni. Þar hefur verið lagt til að nikótínlyf megi selja þar sem tóbak er selt. Í skýrslu danska lyfjaeftirlitsins sem kom út í september 2005 er fjallað um reynsluna af frjálsari verslun með lyf. Í skýrslunni er fjallað um það að nikótínlyf geti hjálpað reykingamönnum að hætta að reykja og því megi færa rök fyrir því að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak. Þó er bent á það í skýrslunni að nikótín sé það efni í tóbakinu sem sé ávanabindandi. Fram kemur í skýrslunni að rannsóknir hafi sýnt fram á að um 10% fyrrverandi reykingamanna sem hafi notað nikótínlyf til að hætta noti slík lyf ekki lengur en í eitt ár. Þó að Danir hafi heimilað frjálsa verslun með fleiri lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld er það ekki ætlun flutningsmanna að stíga slík skref.
    Flutningsmenn telja að með því að auðvelda aðgengi reykingamanna að nikótínlyfjum sjái fleiri þau sem valkost í stað tóbaks. Því telja flutningsmenn að með samþykkt þessa frumvarps verði stigið mikilvægt skref í tóbaksvörnum.