Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.

Þskj. 976  —  666. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags
á skráningu og þinglýsingu skipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Skipabók um skjöl, er varða öll skip, sem skrásetningarskyld eru, er haldin hjá sýslumanninum á Ísafirði.

2. gr.

    Í stað orðsins „rúmlestir“ í 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: brúttótonn.

3. gr.

    41. gr. laganna orðast svo:
    Þinglýsing skjala, er varða skip 5 brúttótonn eða stærra, skal fara fram hjá sýslumanninum á Ísafirði. Sýslumanninum á Ísafirði er heimilt, þegar ytri aðstæður hamla eðlilegum flutningi skjala til Ísafjarðar, að taka til dagbókarfærslu skjöl varðandi skip, er borist hafa honum á rafrænan hátt frá öðru sýslumannsembætti. Það sýslumannsembætti sér um að senda frumrit skjalsins til sýslumannsins á Ísafirði. Skjalinu verður ekki þinglýst fyrr en frumrit berst.
    Ákvæði 4. og 5. gr. laga nr. 34/1985 halda þó gildi sínu eftir því sem við á.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Þinglýsing um skrásett skip, 5 brúttótonn og stærri.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Skjali, er varðar skrásett skráningarskylt skip minna en 5 brúttótonn, skal þinglýst við embætti sýslumannsins á Ísafirði. Sýslumanninum á Ísafirði er þó heimilt að taka til dagbókarfærslu skjöl er varða skip, er borist hafa honum á rafrænan hátt frá öðru sýslumannsembætti.
     b.      Í stað orðsins „rúmlestir“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: brúttótonn.

7. gr.

    Í stað orðsins „rúmlestir“ í 44. gr. laganna kemur: brúttótonn.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Nú er skráð skráningarskylt skip innan 5 brúttótonna flutt á milli skráningarumdæma. Skal þá þinglýsingarstjóri senda óbeinum rétthöfum, ef þeir eru kunnir, tilkynningu um flutnings skips milli umdæma.
     b.      3. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Þinglýsing um skrásett skráningarskyld skip minni en 5 brúttótonn.

10. gr.

    Í stað orðsins „rúmlestir“ í d-lið 49. gr. laganna kemur: brúttótonn.

II. KAFLI

Breyting á lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðanna „þinglýsingarstjórum hér á landi“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: sýslumanninum á Ísafirði.

12. gr.

    Í stað orðanna „hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra hér á landi“ í 3. mgr. 1. gr. a laganna kemur: sýslumanninum á Ísafirði.

13. gr.

    Orðið „hlutaðeigandi“ í 5. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „í því þinglýsingaumdæmi þar sem skip á eða átti heimilisfang“ í 2. mgr. kemur: við sýslumannsembættið á Ísafirði.
     b.      3. mgr. fellur brott.

15. gr.

    Orðið „hlutaðeigandi“ í 1. málsl. 16. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað orðsins „rúmlestir“ í 3. gr. laganna kemur: brúttótonn.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

17. gr.

    Í stað orðsins „rúmlestir“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: brúttótonn.

18. gr.

    2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    Beiðni um nauðungarsölu á skipi, sem er skrásett hér á landi, skal beint til sýslumannsins á Ísafirði. Sýslumaðurinn á Ísafirði getur ákveðið að nauðungarsala fari fram hjá öðrum sýslumanni, sé sá samþykkur að taka við sölumeðferð og unnt sé að sýna fram á hagsmuni af því að salan fari þar fram. Ef framkvæmd nauðungarsölu flyst milli umdæma þarf ekki að endurtaka þær athafnir sem hafa þegar farið fram.

V. KAFLI

Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað orðsins „brúttósmálestum“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: brúttótonnum.

VI. KAFLI

Gildistaka.

20. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Fyrir 1. júlí 2006 skulu sýslumenn færa inn í miðlægan þinglýsingargagnagrunn skipa allar gildandi þinglýsingarupplýsingar um skip og senda sýslumanninum á Ísafirði öll skjöl sem varða þinglýsingar skipa í þeirra umdæmi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af starfshóp sem samgönguráðherra og dómsmálaráðherra tilnefndu í lok desember 2005, en í hópnum sátu fulltrúar frá samgönguráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, sýslumanninum á Ísafirði og Siglingastofnun Íslands.
    Tilgangur frumvarpsins er einkum:
     1.      Að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip í gegnum Landskrá fasteigna, sem er gagna- og upplýsingakerfi á tölvutæku formi, en Fasteignamat ríkisins annast rekstur þess. Samkvæmt gildandi lögum skal Landskrá fasteigna skrá allar fasteignir í landinu og er hún grundvöllur skráningar, þinglýsinga og mats fasteigna, húsaskrár Hagstofu Íslands og þjóðskrár. Í dag er þinglýsingarbók fyrir skip aðeins tölvufærð hjá fjórum sýslumannsembættum en hjá öðrum embættum er þinglýsingarbókin lausblaðabók. Með þessu móti er stefnt að því að upplýsingar um skip verði ekki skráðar hjá mörgum opinberum aðilum.
     2.      Að einfalda framkvæmd þinglýsingar vegna skipa með því að leggja til að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta verði hjá einu sýslumannsembætti, sýslumanninum á Ísafirði, í stað 27 sýslumannsembætta eins og nú er. Með því móti er framkvæmd þinglýsinga einfölduð og sköpuð skilyrði til samræmingar og sérþekkingar á þinglýsingum vegna skipa og ekki verður lengur nauðsynlegt að senda frumrit skipsskjala á milli sýslumannsembætta þegar skip eru seld á milli skráningarumdæma. Eftir sem áður er miðað við að hvert og eitt sýslumannsembætti geti gefið út veðbókarvottorð vegna skipa og báta. Lagt er til grundvallar að þinglýsing skipa fari fram hjá sýslumanninum á Ísafirði, óháð því hvort um er að ræða skip undir eða yfir 5 brúttótonnum, en einungis þegar um skráningarskyld skip er að ræða, sbr. 1. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa.
     3.      Gert er ráð fyrir að sýslumaðurinn á Ísafirði geti móttekið skjöl með rafrænum hætti frá öðrum sýslumannsembættum og fært skjöl í dagbók á grundvelli rafrænna gagna. Tilgangur þessa er að gera þjónustuþega jafnsetta án tillits til búsetu, en eigendur skipa eru um land allt.
     4.      Að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Miðað er við að þinglýsingargagnagrunnurinn verði samtengdur aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands og að skrifstofa Siglingastofnunar á Ísafirði verði í húsnæði sýslumannsins á Ísafirði og annist skráningar í aðalskipaskrá og verður því aðalskipaskrá og þinglýsingarbók skipa og báta haldin á einum og sama stað. Með því móti er framkvæmd þinglýsinga einfölduð og verður ekki lengur nauðsynlegt að senda tilkynningar um breytta skráningu frá Siglingastofnun til annarra sýslumannsembætta og tilkynningar um þinglýsingar frá sýslumannsembættum til Siglingastofnunar. Eftir sem áður er miðað við að útskrift úr aðalskipaskrá og afgreiðsla útstrikunarvottorða geti auk þess farið fram á skrifstofu Siglingastofnunar í Kópavogi.
     5.      Að einfalda framkvæmd nauðungarsölu á skráðum skipum með því að þær verði alfarið hjá sýslumanninum á Ísafirði. Nauðungarsala skipa er nátengd þinglýstum kvöðum og eignarheimildum þeirra og þykir eðlilegt að uppboðin fari fram þar sem upplýsingar og gögn um þinglýsingar á skipum er að finna.
    Siglingastofnun Íslands heldur aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa. Sýslumenn þinglýsa eignarheimildum og kvöðum á skip, hver í sínu umdæmi. Þegar skip er frumskráð hjá Siglingastofnun ber stofnunni að senda „hlutaðeigandi þinglýsingastjóra“ tilkynningu um skráninguna og á sama hátt ber stofnuninni að tilkynna síðari breytingar á skráningarumdæmi skips. Á sýslumönnum hvílir einnig tilkynningarskylda til Siglingastofnunar í hvert sinn er breytingar verða á eigendaskráningu skipa. Framkvæmd þessara tilkynninga verður einfaldari nái frumvarpið fram að ganga, eins og áður er komið fram.
    Sýslumannsumdæmin eru 27 og heldur hver sýslumaður skipabók yfir þau skip sem skráð eru í umdæminu. Ef skip er selt á milli umdæma þarf að senda „öll skjöl sem í gildi eru“ varðandi skipið frá sýslumanni í eldra umdæmi til sýslumanns í hinu nýja umdæmi. Oft ber aðalskipaskrá Siglingastofnunar og skipabókum sýslumanna ekki saman um eignarheimild svo vikum og mánuðum skiptir. Öll skjöl verða kyrr á sama stað verði frumvarp þetta að lögum. Lagt er til með frumvarpi þessu að eignarheimilda- og veðbandaskráning skipa verði hluti af Landskrá fasteigna sem Fasteignamat ríkisins hefur komið á fót. Sú skráning leysir þó ekki þann vanda að frumrit skipsskjala eru send milli sýslumannsembætta þegar skip eru seld milli umdæma til þess að skrá sama skipið inn hjá ýmsum sýslumönnum, auk þess sem misbrestur er á að eigendaskipti séu tilkynnt tímanlega til Siglingastofnunar og þar með sýslumanna.
    Siglingastofnun og sýslumaðurinn á Ísafirði telja að unnt verði að leysa vandamál í tengslum við skráningu og þinglýsingu skipa með því að einfalda umsýsluna á þann veg að skrifstofa Siglingastofnunar á Ísafirði sjái um færslu aðalskipaskrár og embætti sýslumannsins á Ísafirði sjái um allar þinglýsingar á réttindum tengdum skráðum skipum. Ísafjörður og Reykjavík eru einu staðirnir á landinu þar sem þessi starfsemi fer saman. Nú þegar eru haffæriskírteini fyrir allt landið gefin út á Ísafirði. Sýslumaðurinn á Ísafirði getur lagt til sérfræðiþekkingu með löglærðum fulltrúum sínum, auk þess sem rými er til frekari verkefna innan embættisins.
    Við fyrstu sýn mætti ætla að óhagræði gæti orðið samfara breyttum lögum fyrir þá sem þinglýsa þurfa breytingum á eignarhaldi skipa. Því mun þó ekki þannig varið því að staðreyndin er sú að samningar um kaup og sölu skipa eru flestir gerðir hjá báta- og skipasölum í Reykjavík og Hafnarfirði. Því þarf að senda skjöl þaðan til viðkomandi sýslumanna úti á landi og þá jafnvel til tveggja, ef kaupandi og seljandi eru búsettir hvor í sínu umdæminu. Ekki ætti því að verða mikil breyting á, þegar aðeins þarf að senda skjölin á einn stað. Jafnframt er gert ráð fyrir því að unnt verði að senda skjöl með rafrænum hætti frá sýslumannsembættum víðsvegar um landið til sýslumannsins á Ísafirði til þess að stytta afgreiðslutíma og jafna aðstöðu viðskiptamanna um land allt.
    Samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, er sérhvert skip sem er 6 metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna, skráningarskylt. Mismunandi reglur gilda um stofnun og rétt eignarhafta á skrásettum skipum eftir því hvort skipin eru 5 rúmlestir eða stærri eða minni en 5 rúmlestir. Með frumvarpi þessu er lagt til að breyta viðmiðuninni í 5 brúttótonn, en ekki er gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á fyrrnefndum reglum og munu þær taka til svipaðs fjölda skipa og verið hefur. Um nánari ástæður þess að breyta úr rúmlestum í brúttótonn vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Til að taka af tvímæli er lagt til að bætt verði við 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna: „er haldin hjá sýslumanninum á Ísafirði“.

Um 2. gr.


    Mælieiningin rúmlestir er á undanhaldi. Reglur nr. 244/1987, um mælingar skipa, kveða á um að frá og með 1. júlí 1987 skuli mæla skip samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa (International Convention on Tonnage Measurement of Ships) sem undirrituð var í Lundúnum 23. júní 1969 og tók gildi 18. júlí 1982. Í þessum reglum felst að taka þarf upp brúttótonn í stað brúttórúmlesta í mælingum skipa. Vegna mismunandi mælireglna á rýmum í skipum er reiknistuðull fyrir umreikning úr rúmlestum í brúttótonn ekki einhlítur. Hér er lagt til að í stað 5 rúmlesta viðmiðunar komi 5 brúttótonna viðmiðun. Samkvæmt aðalskipaskrá eru um 722 skráð skip minna en 5 rúmlestir. Sé miðað við 5 brúttótonn eru 885 skip innan þeirra marka. Skráðum skipum í þessum neðsta flokki fjölgar því nokkuð, en þar sem þetta hefur fyrst og fremst þýðingu varðandi þinglýsingar og ekki þarf að greiða stimpilgjald af skráningu kaupsamninga og afsala er þessi breyting ekki íþyngjandi fyrir þau skip er færast í neðri flokkinn.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að 5 brúttótonn komi í stað 5 rúmlesta, sbr. athugasemdir við 2. gr. Þá er lagt til að þinglýsing skjala er varða skráningarskyld skip 5 brúttótonn eða stærri skuli fara fram hjá sýslumanninum á Ísafirði. Í 6. gr. er hið sama lagt til varðandi skráningarskyld skip undir 5 brúttótonn að stærð. Þetta þýðir í raun að þinglýsingu skjala varðandi öll skráningarskyld skip (þ.e. 6 metrar og lengri) er ætlað að fara fram hjá sýslumanninum á Ísafirði. Þinglýsingar vegna skipa sem ekki eru skráningarskyld og skipa sem ekki hafa verið skrásett munu áfram verða í umsjá viðkomandi sýslumanna, sbr. VII. kafla laganna. Ekki er talið unnt að færa þessar þinglýsingar til Ísafjarðar því óskráð skip er eins og hvert annað lausafé og skortir allar merkingar, tilgreiningar og auðkenni sem gerð er krafa um við skráningu skipa. Vilji eigandi skrá skip sem ekki er skráningarskylt þá er honum það heimilt samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985.
    Lagt er til að heimilt sé fyrir sýslumannsembættið á Ísafirði að dagbókarfæra skjal þrátt fyrir að ekki sé um frumrit að ræða. Heimildin er bundin því að ekki sé fært að koma frumriti skjals með eðlilegum hætti, t.d. vegna ófærðar, til sýslumannsins á Ísafirði. Þinglýsingarbeiðandi geti þá snúið sér til annars sýslumannsembættis sem sér um að skanna skjalið inn og senda frumritið með pósti til sýslumannsins á Ísafirði. Skjalið telst fyrst afhent þegar sýslumaðurinn á Ísafirði móttekur skannaða skjalið og önnur skilyrði móttöku eru uppfyllt, svo sem greiðsla gjalda skv. 14. gr. og ekki ber að vísa því frá skv. 6. gr. Það sýslumannsembætti sem skannar skjalið og sendir tekur ekki afstöðu til þess hvort skjalið sé tækt til þinglýsingar né móttekur gjöld skv. 14. gr. Þinglýsingarstjóri getur ekki þinglýst skjalinu fyrr en frumritið berst.
    Í 2. efnismálsgr. er lagt til að vísað verði til 4. og 5. gr. gildandi siglingalaga, nr. 34/1985, í stað 5. og 6. gr. eldri siglingalaga, nr. 66/1963.

Um 4. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu verður þinglýsingarstjóri aðeins einn og er því lagt til að 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. falli brott.
    Nái frumvarpið fram að ganga þarf ekki að senda skjöl á milli þinglýsingarstjóra og er því lagt til að 2. mgr. 42. gr. falli brott.

Um 5. gr.


    Sjá athugasemdir við 2. gr.

Um 6. gr.


    Hér er í a-lið lagt til að skjölum er varða skrásett skráningarskyld skip minna en 5 brúttótonn skuli þinglýst við embætti sýslumannsins á Ísafirði. Þetta er í samræmi við breytingar á 41. gr þinglýsingarlaganna, sbr. athugasemdir við 3. gr.
    Í b-lið er lagt til að orðið brúttótonn komi í stað rúmlestir. Vísað til þess sem áður er sagt í athugasemdum við 2. gr.

Um 7. gr.


    Sjá athugasemdir við 2. gr.

Um 8. gr.


    Í a-lið er lagt til að í 1. málsl. 1. mgr. 45. gr. komi brúttótonn í stað rúmlesta. Jafnframt er 2. málsl. umorðaður með tilliti til þess að þinglýsingarstjóri verður aðeins einn, í stað margra áður.
    Í b-lið er lagt til að 3. mgr. 45. gr. falli brott því ekki verður um neinn „fyrri“ þinglýsingarstjóra að ræða.

Um 9. og 10. gr.


    Sjá athugasemdir við 2. gr.

Um 11.–15. gr


    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar á lögum um skráningu skipa sem leiðir af þeim breytingum sem lagðar eru til á þinglýsingalögum í I. kafla frumvarpsins um að þinglýsingarstjóri verði aðeins einn, þ.e. sýslumannsembættið á Ísafirði.

Um 16. og 17. gr.


    Hér er lagt til að í stað „rúmlesta“ komi „brúttótonn“ í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í I. kafla þessa frumvarps um breytingar á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, og vísast til athugasemda við 2. gr.

Um 18. gr.


    Verði frumvarp þetta að lögum flytjast allar þinglýsingar skráðra skipa til sýslumannsins á Ísafirði. Allar upplýsingar um þinglýsingar skráðra skipa verða því hjá sýslumanninum á Ísafirði sem mun halda þinglýsingarbók skipa gegnum gagna- og upplýsingakerfið Landskrá fasteigna sem verður samtengd aðalskipaskrá Siglingastofnunar. Aðrir sýslumenn hætta að halda þinglýsingarbók skipa í núverandi mynd og er því lagt til að sýslumaðurinn á Ísafirði annist alla uppboðsmeðferð á skráðum skipum. Uppboð á skipum fer að öllu jöfnu fram á skrifstofu sýslumanns, burtséð frá því hvar skip er statt hverju sinni. Í 3. mgr. 18. gr. nauðungarsölulaganna segir að beiðni um nauðungarsölu á loftfari, sem skrásett er hér á landi, skuli beina til sýslumannsins í Reykjavík, en hjá því embætti fara fram allar þinglýsingar varðandi skráð loftför. Hér er lagt til að sami háttur verði hafður hvað skip varðar, þ.e. að öllum beiðnum um nauðungarsölu skuli beint til sýslumannsins á Ísafirði. Þó er gert ráð fyrir að sýslumaðurinn á Ísafirði geti heimilað í undantekningartilvikum að lokasala skipa geti farið fram hjá öðrum sýslumanni, sé sá samþykkur að taka við sölumeðferðinni.
    Hér er lagt til að 2. og 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. falli brott. Þar sem gert er ráð fyrir því að nauðungarsölumeðferð fari að meginstefnu til fram hjá sýslumanninum á Ísafirði skiptir ekki máli lengur í hvaða umdæmi skip er skráð og ákvæði vegna flutnings skipa á milli umdæma eru því ekki lengur nauðsynleg.

Um 19. gr.


    Lagt er til að í stað „brúttósmálestum“ í 1. mgr. 16. gr. komi „brúttótonnum“. Vísað er til athugasemda við 2. gr.

Um 20. gr.


    Lagt er til, verði frumvarpið að lögum, að það taki gildi 1. júní 2006. Eftir þann tíma fer færsla aðalskipaskrár fram hjá Siglingastofnun á Ísafirði. Þinglýsingar vegna skipa verða gerðar hjá sýslumanninum á Ísafirði í miðlægan gagnagrunn Landskrár fasteigna og sýslumannsembættið á Ísafirði mun jafnframt annast uppboðsmeðferð á skipum í flestum tilvikum. Útskrift úr þinglýsingarbókum og afgreiðsla veðbókarvottorða verður áfram hjá hverju og einu sýslumannsembættanna og jafnframt er miðað við að einstaklingar og fyrirtæki geti keypt aðgang að þinglýsingargrunninum í samræmi við reglur sem um það verða settar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa.

    Markmiðið með frumvarpinu er m.a. að taka upp samræmdan þinglýsingagagnagrunn fyrir skip í gegnum Landskrá fasteigna og einfalda framkvæmd þinglýsingar skipa. Lagt er til grundvallar að þinglýsing skipa fari fram hjá sýslumanninum á Ísafirði. Breytingarnar eiga við um lög nr. 39/1978, nr. 115/1985, nr. 34/1985, nr. 90/1991 og nr. 36/1978. Með breytingu á mælieiningu skipa fjölgar þeim skipum sem eru undanþegin stimpilgjöldum og munu því tekjur ríkissjóðs af þeim minnka óverulega. Áætlað er að kostnaður Sýslumannsins á Ísafirði aukist um 2,8 m.kr. þar sem starfsemin fari fram þar í stað 27 sýslumannsembætta eins og nú er. Ætti kostnaður annarra embætta því að lækka og kostnaðaáhrif verða óveruleg.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér óverulag áhrif á útgjöld fyrir ríkissjóð.