Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 719. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1055  —  719. mál.




Frumvarp til laga



um löggildingu starfsheitis áfengis- og vímuefnaráðgjafa.

Flm.: Valdimar L. Friðriksson.



1. gr.

    Lög þessi taka til starfsheitis og starfsréttinda áfengis- og vímuefnaráðgjafa.
    Með áfengis- og vímuefnaráðgjafa í lögum þessum er átt við hvern þann er veitir aðstoð skjólstæðingi sem háður er hvers konar vímuefnum.

2. gr.

    Rétt til þess að nota starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi hér á landi hefur sá einn sem hlotið hefur til þess löggildingu heilbrigðisráðherra.
    Óheimilt er að ráða sem áfengis- eða vímuefnaráðgjafa annan en þann sem hefur hlotið löggildingu samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra skal halda skrá um þá sem hafa leyfi til að bera starfsheiti samkvæmt lögum þessum.
    Landlæknir hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara.

3. gr.

    Til að öðlast löggildingu ráðherra á starfsheitinu áfengis- og vímuefnaráðgjafi skal hlutaðeigandi uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      hafa fengið kennslu í sérfræðum um áfengis- og vímuefnameðferð, alls 300 klukkustundir,
     b.      hafa unnið við áfengis- og vímuefnaráðgjöf að aðalstarfi undir handleiðslu fagfólks í 6000 klukkustundir, eða í þrjú ár.
    Ráðherra setur reglugerð þar sem settar eru nánari reglur um nám og starfsmat.
         

4. gr.

    Nú kemur upp ágreiningur um notkun starfsheitisins áfengis- og vímuefnaráðgjafi og sker ráðherra þá úr.

5. gr.

    Ráðherra skal staðfesta leyfi ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að bera starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi hafi hann hlotið menntun og reynslu sambærilega við það sem gerð er krafa um í 3. gr.

6. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða fésektum auk þess sem heimilt er að svipta hlutaðeigandi starfsréttindum.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2007. Fyrir þann tíma skal ráðherra hafa viðurkennt starfsheitið áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ráðherra skal skipa nefnd með aðilum Félags áfengisráðgjafa sem skili til hans tillögu að nánari útfærslu skilyrða um menntun og starfsreynslu löggiltra áfengis- og vímuefnaráðgjafa.


Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að starfsheiti áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði löggilt af heilbrigðisráðherra en eins og þessum málum er nú háttað eru engar formlegar kröfur gerðar til áfengis- og vímuefnaráðgjafa af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Því getur hver sem er kallað sig áfengisráðgjafa. Fyrir þá sem eiga við áfengisvandamál að stríða skiptir þjónusta áfengisráðgjafa miklu máli, sömuleiðis fyrir fjölskyldur þeirra, og raunar þjóðina alla. Tilgangurinn með því að setja lög um starfsréttindi þessara aðila er m.a. að vernda þá sem leita eftir þjónustu áfengisráðgjafa. Að þeir geti gengið að því vísu að sá sem kallast áfengis- og vímuefnaráðgjafi hafi hlotið menntun og próf í viðurkenndum fræðum um áfengis- og vímuefnameðferð, auk starfsreynslu á því sviði.
    Félag áfengisráðgjafa hefur kallað eftir lögum um starfsréttindi þessara aðila. Í ályktun frá aðalfundi félagsins, 18. janúar 2006, kemur fram að færst hafi í vöxt að athugasemdir berist félaginu vegna eftirlitslausrar starfsemi einyrkja sem kalla sig áfengisráðgjafa. Félagið bendir á að erfitt sé að horfa fram hjá því að þeir sem taka að sér að aðstoða fólk sem glímir við áfengis- eða vímuefnavanda eftir stutt kvöldnámskeið, eða jafnvel ekkert nám, séu óhæfir til slíkra starfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um gildissvið laganna og skilgreint hvað felist í heitinu áfengis- og vímuefnaráðgjafi.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um lögverndun þess starfsheitis sem frumvarpið nær til.
    2.–3. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Í 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, kemur fram að landlæknir hafi eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Rétt þykir að árétta það í þessu frumvarpi að landlæknir hafi eftirlit með framkvæmd laga þessara, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta notað hið löggilda starfsheiti „áfengis- og vímuefnaráðgjafi“. Vísast um þetta nánar í fylgiskjal með frumvarpinu þar sem fjallað er um þær kröfur og skilyrði sem Félag áfengisráðgjafa telur að gera eigi til þeirra sem vilja nota þetta starfsheiti.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Með ákvæðinu er ráðherra gert skylt að viðurkenna starfsréttindi manna sem koma frá öðrum ríkjum innan EES, enda uppfylli þeir þau skilyrði sem kveðið er á um í lögum þessum. Hlutverk ráðherra yrði hér að sannreyna gildi slíkra vottorða og kanna hvort öllum skilyrðum sé fullnægt.

Um 6. og 7. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Kveðið er á um skipan nefndar sem komi með tillögu að nánari útfærslu á þeim kröfum sem gerðar eru til áfengis- og vímuefnaráðgjafa skv. 3. gr., sbr. fylgiskjal.



Fylgiskjal.


Félag áfengisráðgjafa:
    

Faglegar kröfur til áfengis- og vímuefnaráðgjafa.



    Eftirfarandi eru þær faglegu kröfur og skilyrði sem Félag áfengisráðgjafa gerir til þeirra sem vilja kalla sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa.
     1.      Að þeir hafi unnið við áfengis- og vímuefnaráðgjöf á heilbrigðisstofnun sem stýrt er af fagfólki sem er faglega ábyrgt fyrir allri starfsemi í 6000 klst. eða þrjú ár þar sem áfengis- eða vímuefnaráðgjöf er aðalstarf nemans. Vinnustundir séu vottaðar af yfirlækni viðkomandi heilbrigðisstofnunar.
     2.      Að þeir hafi unnið undir handleiðslu fagfólks á þessum þremur árum. Handleiðslutímar skiptist þannig að á þremur árum fái neminn handleiðslu sem fram fer í teymisvinnu undir handleiðslu læknis alls 150 klukkustundir, handleiðsla sem fram fer á samráðsfundum alls 75 klukkustundir og handleiðsla í 100 klukkustundir hjá handleiðara sem getur verið reyndur ráðgjafi, sem hefur starfað í 5 ár eða lengur og er með CAC eða sambærilegt próf, og auk þess viðurkenndur af Handís, handleiðslufélagi Íslands.
     3.      Að þeir hafi fengið kennslu í sérhæfðum fræðum um áfengis- og vímuefnameðferð alls 300 klukkustundir sem skiptast jafnt á milli eftirtalinna fjögurra flokka. Lyfjafræði vímuefnanna, ráðgjafastarfið, fræðilegur grunnur áfengisráðgjafar og fagleg mál. Sjá nánar í fylgiskjali.
     4.      Fræðslan þarf að vera frá fagaðilum, læknum, sálfræðingum, hjúkrunarfræðingum, félagsfræðingum, ráðgjöfum með tilskildar kröfur eins og segir í lið 2.
     5.      Að þeir hafi staðist próf frá Skóla SÁÁ fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem eru forpróf áfengisráðgjafa, próf í lyfjafræði vímuefna og almennt próf áfengis og vímuefnaráðgjafa eða sambærileg önnur próf sem aðrar heilbrigðisstofnanir leggja fyrir.
     6.      Að fyrir liggi viðurkenning frá ábyrgum handleiðara að viðkomandi hafi uppfyllt kröfur verklega hluta námsins og sömuleiðis staðfesting tveggja til þess bærra einstaklinga að viðkomandi hafi að þeirra mati faglegan og siðferðilegan styrk til að vinna með fólki.
     7.      Eða að þeir hafi lokið prófi NAADAC, en handhafar þeirra hafa uppfyllt öll ofantalin skilyrði (það er að hafa gilt skírteini frá NAADAC).