Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 724. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1060  —  724. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skipan nefndar um skattaumhverfi íslenskra kaupskipaútgerða og íslenskra farmanna.

Flm.: Kristján L. Möller, Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna leiðir til að færa skattaumhverfi íslenskra kaupskipaútgerða til samræmis við það sem nú tíðkast í löndum með alþjóðlega skipaskrá. Þannig verði stuðlað að því að útgerðirnar skrái skip sín hér á landi og starfsemin haldist í landinu. Í nefndinni sitji fulltrúar allra þingflokka sem nú eiga sæti á Alþingi, ásamt fulltrúa forsætisráðherra, fulltrúa kaupskipaútgerða og fulltrúa stéttarfélaga farmanna. Nefndin skili tillögum fyrir 1. desember 2006.

Greinargerð.


    Ekki þarf að fara mörgum orðum um að siglingar skipa til og frá Íslandi eru Íslendingum mjög mikilvægar. Kaupskipaútgerð er alþjóðleg atvinnugrein og siglingar til landsins og frá því eru öllum frjálsar. Útgerðir kaupskipa starfa þannig í alþjóðlegri samkeppni án landamæra. Á undanförnum árum hefur orðið sú þróun á alþjóðlegum kaupskipamarkaði að flestar kaupskipaútgerðir hafa leitað með skráningu kaupskipa til þeirra ríkja sem hafa boðið þeim best rekstrarumhverfi hverju sinni. Nú eru nær öll kaupskip íslenskra skipafélaga og dótturfélaga þeirra skráð erlendis. Öll kaupskip sem sigla milli Íslands og annarra landa eru því erlend, ýmist með íslenskum áhöfnum að hluta til eða öllu leyti eða algerlega erlendum áhöfnum. Hér á landi hefur þessi þróun haft þau áhrif að atvinnuöryggi íslenskra sjómanna er ótryggt en auk þess hefur hún haft ýmis hliðaráhrif í landi, t.d. á menntun sjómanna og ýmsa þjónustutengda starfsemi.
    Fjölmargir aðilar, þar á meðal samtök atvinnurekenda og sjómanna, hafa á undanförnum árum og raunar áratugum lýst yfir áhyggjum af þessari þróun. Kallað hefur verið eftir aðgerðum stjórnvalda til að hægt verði að sporna við henni. Bent hefur verið á þær leiðir sem nágrannalönd okkar hafa farið til að skapa kaupskipaútgerðum sem best rekstrarumhverfi. Þær aðgerðir hafa aðallega falist í því að bæta rekstrarskilyrði útgerðanna með rýmri löggjöf og skattaumhverfi þeirra hefur verið gert hagfelldara. Það hefur víða sýnt sig að hliðaráhrif þessara aðgerða hafa verið umtalsverð og má þar nefna að farmönnum hefur fjölgað. Afleidd starfsemi í landi hefur einnig aukist og tekjur ríkisins aukist sem því nemur.
    Samgönguráðherra skipaði árið 2004 í samráði við fjármálaráðherra starfshóp til að fara yfir stöðu þessara mála. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu í nóvember 2004. Niðurstöður hans voru að leggja fram tvo valkosti. Sá fyrri er að gera ekki neitt og sá síðari er að setja á stofn alþjóðlega skipaskrá hér á landi.
    Í skýrslu starfshópsins eru dregnar saman upplýsingar um hvernig staðið er að þessum málum hjá helstu siglingaþjóðum Evrópu. Þar kemur fram að þær hafa allar gripið til þess ráðs að stofna alþjóðlega skipaskrá. Í skýrslunni er gerð sérstök grein fyrir árangri Íra en árið 2000 hafði írski flotinn minnkað umtalsvert. Árið 2002 stofnuðu Írar hins vegar alþjóðlega skipaskrá með tilheyrandi hliðarráðstöfunum. Síðan hefur írski flotinn stækkað um 70% og atvinnutækifærum í greininni fjölgað umtalsvert.
    Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum kosið að sitja hjá þegar íslenskar kaupskipaútgerðir hafa siglt skipum sínum úr landi og komið sér fyrir erlendis þar sem rekstrarumhverfi útgerðanna er hagfelldara. Kjósi íslensk stjórnvöld að sitja hjá áfram og aðhafast ekkert er líklegt að afleiðingarnar verði alvarlegar. Sjóflutningar til og frá landinu komast með tímanum í hendur erlendra fyrirtækja sem búa við hagstæðara rekstrarumhverfi og íslensk farmannastétt deyr út. Þá verða hliðaráhrif aðgerðarleysisins einnig mikil í landi.
    Sú tillaga sem hér er flutt gerir ráð fyrir að komið verði á fót nefnd til að bera saman skattaumhverfi kaupskipaútgerða hérlendis og í nágrannalöndum okkar. Leitað verði leiða til að færa skattaumhverfið hér á landi til samræmis við það sem nú tíðkast í löndum með alþjóðlega skipaskrá og horft verði til leiða sem nágrannaríki okkar hafa farið í þessum efnum á undanförnum árum. Þar má sérstaklega nefna leið sem Svíar hafa farið og þann árangur sem þeir hafa náð. Hér á landi var nýlega staddur Tomas Abrahamsson, formaður flutningadeildar sænsku verkalýðssamtakanna SEKO, og á fundi með nokkrum íslenskum þingmönnum gerði hann m.a. grein fyrir sænsku leiðinni. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. desember 2006.