Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 725. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1061  —  725. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.

    Við 2. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Eigendur séreigna skulu tryggja að reykingar í séreignum mengi ekki andrúmsloft annarra séreigna né valdi verulegum óþægindum eða rýrnun á verðmæti þeirra.

    2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að eigandi séreignar beri ábyrgð á því að reykingar í séreignum mengi ekki andrúmsloft annarra séreigna né valdi verulegum óþægindum eða rýrnun á verðmæti þeirra. Í ljósi skaðsemi óbeinna reykinga og annarra óþæginda sem af þeim stafa telur flutningsmaður æskilegt að eigendur íbúða í fjöleignarhúsum beri þá ábyrgð að sjá til þess að reykingar í séreign þeirra mengi ekki andrúmsloft annarra séreigna, né heldur hafi þau áhrif að valdi verulegum óþægindum eða rýrnun á verðmæti þeirra. Óbeinar reykingar er það þegar einstaklingur andar að sér lofti sem mengað er tóbaksreyk. Sá sem verður fyrir óbeinum reykingum andar að sér sömu efnum og sá sem reykir. Þess má geta að í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, kemur fram að virða skuli rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra.