Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 728. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1064  —  728. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Bjarnason, Bjarkey Gunnarsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Orðin „virkjun Héraðsvatna við Villinganes (Villinganesvirkjun) með allt að 40 MW afli“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að fella brott heimild iðnaðarráðherra til að leyfa Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes í Skagafirði (Villinganesvirkjun).

Villinganesvirkjun.
    Með lögum nr. 48/1999 var iðnaðarráðherra m.a. heimilað að leyfa Rafmagnsveitum ríkisins (Rarik) gerð Villinganesvirkjunar.
    Virkjun við Villinganes hefur lengi verið til skoðunar eða allt frá því að fyrst var farið að skoða virkjun við Blöndu. Þegar ákveðið var að ráðast í byggingu Blönduvirkjunar stöðvaðist hins vegar frekari undirbúningur Villinganesvirkjunar. Árið 1999 færðist heimildin til að virkja Héraðsvötn frá Landsvirkjun til Rarik. Stuttu síðar stofnaði Rarik í samvinnu við heimamenn í Skagafirði orkufyrirtækið Héraðsvötn með það fyrir augum að hefja undirbúning að byggingu Villinganesvirkjunar.
    Fyrirhugað er að stífla Héraðsvötn milli bæjanna Villinganess og Tyrfingsstaða, þ.e. um 2 km neðan við ármót Austari-Jökulsár og Vestari-Jökulsár. Áhrifasvæði virkjunarinnar er meðfram ánum ofan ármótanna og þaðan með Héraðsvötnum til sjávar, alls um 55 km leið. Áhrifasvæðið liggur um bæði sveitarfélögin í Skagafjarðarsýslu, Akrahrepp og Sveitarfélagið Skagafjörð.
    Á árunum 1999–2001 var unnin skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Villinganesvirkjunar og var það staðfest af Skipulagsstofnun 5. júlí 2002 með nokkrum athugasemdum. Skýrslan var harðlega gagnrýnd og m.a. talið að hún byggðist á takmörkuðum og úreltum gögnum, hvorki væri metinn inn fórnarkostnaður óspilltrar náttúru né mikilvægi gljúfranna og jökulsánna fyrir fljótasiglingar og aðra ferðaþjónustu í Skagafirði, sem byggist á sögu, menningu og óspilltri náttúru. Það var og gagnrýnt að ekki voru rannsökuð áhrif hugsanlegrar stíflunar jökulsánna á lífríki og náttúrufar á vatnasvæði Héraðsvatna neðan stíflustæðisins og á grunnsævi í Skagafirði.
    Þar sem Skipulagsstofnun hafði samþykkt umhverfismatið fyrir sitt leyti með nokkrum skilyrðum stóð aðeins á framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Við sveitarstjórnarkosningar 2002 lagði Vinstri hreyfingin – grænt framboð í Skagafirði þunga áherslu á að jökulsánum og Héraðsvötnum yrði ekki fórnað í þágu virkjana og stóriðju og var andvíg Villinganesvirkjun, en gert var ráð fyrir henni í tillögum að aðalskipulagi sveitarfélagsins sem þá lágu fyrir. Að loknum kosningum var myndaður meiri hluti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðismanna og í samstarfssamningnum sem undirritaður er af sveitarstjórnarfulltrúum þessara flokka er eftirfarandi tekið fram: „Horfið verði frá áformum um virkjun við Villinganes og aðkoma sveitarfélagsins að Héraðsvötnum ehf. endurskoðuð.“
    Þótt tekist hafi verið á um þessi mál allt kjörtímabilið og öll stjórnmálaöfl í sveitarstjórn Skagafjarðar önnur en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi sent frá sér ályktun um að þau væru reiðubúin að fórna jökulsánum fyrir virkjanir í þágu álvers í Skagafirði þá mættu þau áform afar harðri andstöðu íbúanna. Niðurstaðan varðandi fyrirhugaða Villinganesvirkjun varð því sú að 16. mars 2006 afgreiddi sveitarstjórnin 4. tillögu að aðalskipulagi Skagafjarðar fyrir árin 2005–2017 til Skipulagsstofnunar og óskaði jafnframt eftir að sú tillaga yrði auglýst skv. 18. gr. skipulagslaga. Í þessari lokatillögu sveitarstjórnar er hvergi gert ráð fyrir Villinganesvirkjun í aðalskipulagi Skagafjarðar. Því er eðlilegt að þeirri ákvörðun sé fylgt eftir með því að fella brott allar heimildir sem kunna að vera í lögum fyrir virkjun við Villinganes í Skagafirði.
    Óumdeilt er að umhverfisáhrif af virkjun Héraðsvatna við Villinganes yrðu mikil. Gljúfur Héraðsvatna færu að hluta til undir vatn auk þess sem vatnsborðshækkunar mundi gæta upp eftir gljúfrum Vestari- og Austari-Jökulsár. Þá yrðu áhrif á dýralíf mikil, t.d. fuglalíf og fiska.
    Á undanförnum árum hefur mikil uppbygging á sviði ferðaþjónustu átt sér stað í Skagafirði. Einn liður í þeirri uppbyggingu eru fljótasiglingar sem stundaðar hafa verið á undanförnum árum á jökulsánum báðum. Því hefur verið haldið fram af þeim sem best þekkja til að aðstæður til fljótasiglinga í Skagafirði séu á meðal þeirra bestu í heiminum. Ljóst er að virkjun Héraðsvatna við Villinganes hefði mikil áhrif á þessar siglingar og jafnvel mundu þær leggjast alveg af.

Lokaorð.
    Flutningsmenn telja m.a. á framangreindum forsendum og ekki síst vegna þess hversu einstakt landsvæði hér er á ferðinni að rétt sé að hætta við öll áform um virkjunar- og orkuframkvæmdir þar.

Fylgiskjal I.


Ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði.

„Meðan Vötnin ólgandi að ósum sínum renna“.

(8. júní 2005.)

    Héraðsvötnin og Jökulsárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg.
    Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði, en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina eins og skýrt hefur komið í ljós að undanförnu. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.



Fylgiskjal II.


Ályktun aðalfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði.
(29. janúar 2006.)

    Aðalfundur VG í Sveitarfélaginu Skagafirði haldinn 29. janúar 2006 fagnar þeirri fjölbreyttu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Skagafirði síðustu árin og áformum um miðstöð hátækniiðnaðar í héraðinu. Hins vegar hafnar fundurinn hugmyndum um álver við Kolkuós og stórvirkjanir í Skagafirði í tengslum við álbræðslu á Norðurlandi sem eru andstæðar hagsmunum Skagfirðinga. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði, en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina ásamt því að ganga á náttúru landsins og aðra atvinnukosti til framtíðar.
    Enn fremur fagnar fundurinn ákvörðun um að þyrma Þjórsárverum og hvetur til þess að einnig verði komið í veg fyrir að Héraðsvötnunum og Jökulsánum í Skagafirði, sem svo mjög móta ásýnd og ímynd héraðsins, verði fórnað. Aðalfundur VG í Skagafirði leggst alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði og því að gert sé ráð fyrir slíkum framkvæmdum á aðalskipulagi Skagafjarðar.