Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 747. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1083  —  747. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að undirbúa skráningu miðhálendis Íslands sem heimsminja UNESCO.

Flm.: Helgi Hjörvar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að setja miðhálendi Íslands á yfirlitsskrá yfir þá staði sem ætlunin er að skrá sem heimsminjar UNESCO og fela heimsminjanefnd Íslands að undirbúa umsókn þar að lútandi.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari vilja flutningsmenn leggja áherslu á að kannað verði til hlítar hvort skrá megi miðhálendi Íslands í heild sinni eða tilteknar náttúru-, menningar eða landslagsheildir þess á heimsminjaskrá UNESCO. Hin síðari ár hefur færst í vöxt að á heimsminjaskrá séu sett heilu landsvæðin sem af menningarlegum eða náttúrufarslegum ástæðum eru talin svo sérstæð að teljist til sameiginlegrar arfleifðar mannsins. Ágætt dæmi um þetta er fyrirhuguð umsókn norskra stjórnvalda um að ytri hluti Lofoten komist á heimsminjaskrá UNESCO en þeir telja að þar fari saman einstök náttúra og menning sem eigi sér fáar hliðstæður í heiminum. Annað dæmi er Laponia-svæðið í Norður-Svíþjóð sem samanstendur af fjórum þjóðgörðum og tveimur friðlýstum svæðum og er eitt stærsta svæði í Evrópu með nánast ósnertri náttúru. Flest bendir til að miðhálendi Íslands sé einmitt slík heild, með þeim margvíslegu náttúrufyrirbærum og náttúruperlum sem þar er að finna.
    Hin ósnortnu víðerni hálendisins eru ekki aðeins sérstæð vegna óvenjulegrar náttúrufegurðar, heldur er þar að finna margvíslegt, sérstætt náttúrufar. Helgast sumt af því að flekamót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekans liggja um hálendið frá suðvestri til norðausturs og rekur þá hvorn frá öðrum um 2 cm á ári og má sjá landris og gliðnun hér á landi sem hvergi annars staðar í heiminum er jafnsýnileg og aðgengileg. Jarðhiti ásamt með samspili jökla og vatnaleiða setja einnig mark sitt á svæðið. Þá er þar að finna sérstæðar jarðmyndanir, eldstöðvar og sjaldgæft gróðurfar, auk þess sem þar eru stórar varpstöðvar fugla og búsvæði hreindýra svo eitthvað sé nefnt.
    Fá mannvirki er að finna á miðhálendinu sem gefur því aukið gildi. Það felur í sér lífsgæði þau sem verða æ eftirsóknarverðari í nútímasamfélagi sem er náttúruupplifun, ómenguð af iðn- og tæknivæðingu samfélagsins. Þau mannvirki sem þar eru, svo sem vegir og virkjanir, eiga þó ekki að varna skráningu svæðisins og skráning þess kæmi ein og sér heldur ekki í veg fyrir frekari mannvirkjagerð þar né starf að endurheimt landgæða, en mundi kalla á skipulag og áætlanir um hvernig Ísland hyggist vernda og hlúa að þeirri einstæðu perlu sem miðhálendið er.

Heimsminjaskrá UNESCO.
    Árið 1972 var gerður samningur á þingi Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins. Samningurinn grundvallast á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins og hann er einstakur að því leyti að í honum eru náttúruvernd og friðun menningarminja tengd saman í einu skjali. Með samningnum viðurkenndu ríki nauðsyn verndunar, þar sem það er talið skaða arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur. Alþjóðasamfélagið verndar náttúruminjar sem búa yfir einstakri fegurð og menningarminjar frá fyrri siðmenningarskeiðum sem eru á heimsminjaskrá.
    Hvatinn að gerð samningsins var ákall um að bjarga Abu Simbel í Egyptalandi, Feneyjum á Ítalíu, Moenjodaro í Pakistan og Borobodur í Indónesíu. Ef ekki hefði verið gert samstillt átak á alþjóðavettvangi hefðu þessar minjar glatast fyrir fullt og allt.
    Aðildarríkin, sem standa að samningnum, hafa sameinast í því verkefni að bera kennsl á og varðveita merkilegustu náttúru- og menningarminjar í heiminum. Þau virða að fullu fullveldi þjóða og forðast að skerða eignarrétt manna sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi þjóðar en líta svo á að alþjóðasamfélaginu í heild beri skylda til að vernda heimsminjar.
    Til þess að komast á heimsminjaskrá þarf viðkomandi staður að vera einstakur í heiminum, afmörkun hans þarf að vera skýr af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar og full sátt þarf að ríkja um verndun, umsjón og rekstrarfyrirkomulag hans. Til þess að tilnefna megi miðhálendi Íslands þyrfti því að fara fram umfangsmikil undirbúningsvinna og stefnumörkun meðal annars um verndun þess. Ef staður er skráður á heimsminjaskrá á hvert ríki þess kost að fá alþjóðasamfélagið til samstarfs um að upplýsa íbúa viðkomandi lands um einstakt gildi staðarins og aðstoða þannig við að varðveita náttúru- og menningarminjar hverrar þjóðar.
    Staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti. Heimsminjaskráin er talin vera afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar ekki síður en til uppbyggingar vandaðrar ferðaþjónustu í hverju landi.
    Menningarminjar eru hvers kyns söguleg mannvirki, byggingar og menningarlandslag með sögulega, listræna, vísindalega, þjóðfræðilega og mannfræðilega eiginleika.
    Náttúruminjar eru staðir sem hafa jarðfræðilegt, líffræðilegt og vistfræðilegt gildi og búa yfir fegurð og sérstöku lífríki. Einstök svæði sem búa yfir sérstakri auðlegð eru t.d. eyðimerkur, þjóðgarðar, eldstöðvar, ár og flóar. Hlúa þarf að þessari auðlegð og vernda hana til að viðhalda hinni sérstöku fjölbreytni sem svæðin búa yfir.
    Íslendingar gerðust aðilar að samningnum í desember árið 1995 og hafa lagt fyrir heimsminjanefndina skrá yfir staði sem við viljum tilnefna á heimsminjaskrá svo hægt verði að sækja um með formlegum hætti. Þingvellir og Skaftafell voru efst á þeim lista. Umsókn um tilnefningu Þingvalla var samþykkt á fundi heimsminjanefndarinnar í Kína, 2. júlí 2004.
    Á listanum eru Skaftafell, Breiðafjörður, Núpsstaður, Víðimýrarkirkja, Keldur, Gásar, Reykholt, Surtsey, Mývatn og Herðubreiðarlindir og Askja. Yfirlitsskráin er nú til endurskoðunar og er þingsályktunartillögu þessari ætlað að vera innlegg í þá endurskoðun. Þannig hefur færst í vöxt að stór landsvæði og landslagsheildir séu tilnefnd í stað einstakra afmarkaðra svæða og eðlilegt að yfirlitsskrá taki mið af þeirri alþjóðlegu þróun.

Heimsminjaskrá – valforsendur.
    Til að fá sæti á heimsminjaskránni þarf viðkomandi fyrirbæri að vera af einstöku mikilvægi fyrir alþjóðasamfélagið og að falla undir að minnsta kosti eina forsendu í valforsendulista skrárinnar. Það er mat flutningsmanna að miðhálendið falli undir forsendur VII–X sem þýðir að svæðið í heild sinni er dæmi um einstakt náttúrufyrirbæri og býr yfir afburða náttúrufegurð og fagurfræðilegu mikilvægi. Það er einnig einstakt í sinni röð hvað það varðar að þar er hægt að sjá merki jarðsögunnar, dæmi um jarðfræðilegt þróunarferli og það er þýðingarmikill vitnisburður um þróun landslagsþátta, landmótun og landfræðileg sérkenni af eðlisrænum toga á gliðnandi jarðskorpuflekum á neðansjávarhryggjum. Á svæðinu er einnig að finna einstök dæmi um mikilvæg vistfræðileg og líffræðileg þróunarferli sem og þróun vistkerfa jarðar, ferskvatns, stranda og sjávar og þróun plöntu- og dýrasamfélags. Einnig má færa rök að því að á svæðinu séu mikilvæg og þýðingarmikil dæmi um náttúruleg búsvæði, þar með talin svæði sem innihalda tegundir í hættu sem vernda beri in situ (á sínum stað) og eru afar mikilvægar út frá alheimssjónarmiði og sjónarhóli vísinda og verndunar.

Afmörkun miðhálendis Íslands samkvæmt greinargerð um Miðhálendi Íslands, svæðisskipulag 2015.
    Miðhálendi Íslands nær yfir u.þ.b. 40% af landinu eða ríflega 44.000 km². Það skiptist í átta landslagsheildir, auk jökla, sem aftur skiptast í samtals 57 deilisvæði. Víða nær afmörkun deilisvæða út fyrir mörk skipulagssvæðisins og eru þau auðkennd sérstaklega með stjörnu ( *) í greinargerð með svæðisskipulagi miðhálendis Íslands og fylgir lýsingin hér með:

Norðvesturhálendi:
Afréttur Lunddæla og Andkílinga – Ok *, Eiríksjökull – Hallmundarhraun, Arnarvatnsheiði – Tvídægra *, Stórisandur, Grímstunguheiði, Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði *, Beljandatungur – Guðlaugstungur, Hofsafrétt – jaðarsvæði Hofsjökuls *, Vesturhluti Kjalar, Kjalhraun – Baldheiði.

Norðurhálendi:
Nýjabæjarfjall – Mjóidalur *, Sprengisandur – Bleiksmýrardrög, Drög Skjálfandafljóts, Fljótsalda – Króksdalur.

Norðausturhálendi, suðurhluti:
Trölladyngja, Ódáðahraun *, Askja – Dyngjufjöll, Herðubreið, Kverkfjöll – Krepputunga, Brúardalir; Fagridalur og Álftadalur, Efrafjall (Grjót).

Norðausturhálendi, norðurhluti:
Keldunesheiði – Þeistareykir *, Norðurfjöll *, Hólsfjöll *, Haugsöræfi *.

Austurhálendi:
Jökuldalsheiði – Smjörvatnsheiði *, Fljótsdalsheiði *, Vesturöræfi – Snæfell, Hraun *, Lónsöræfi – Þrándarjökull (Austfjarðafjallgarður) *, Suðursveitarfjöll (hálendið suðaustan Vatnajökuls) Öræfi *.

Suðurhálendi, austurhluti:
Björninn – Eystrafjall, Geirlandshraun (Síðufjöll) *, Lakagígar – Núpahraun, Grænifjallgarður – Tungnaárfjöll, Veiðivötn – Jökulheimar, Þórisvatn – Vonarskarð, Tungnafellsjökull – Vonarskarð.

Suðurhálendi, suðurhluti:
Höfðabrekkuheiði – Eyjafjöll *, Eldgjá – Mælifellssandur – Emstrur, Þórsmörk – Tindfjöll – Laufaleit *, Torfajökull – Löðmundur, Hekla – Vatnafjöll *.

Suðurhálendi, vesturhluti:
Þóristungur – Búðarháls – Gljúfurleit, Kjalvötn – Kvíslaveita, Þjórsárver, Kerlingafjöll, Hreppafjöll, efri hluti, Hreppafjöll, neðri hluti *, Hrunamannaafréttur, vesturhluti – Biskupstungnaafréttur, innri hluti, Biskupstungnaafréttur, neðri hluti, Jaðarsvæði Langjökuls, Ármannsfell – Skjaldbreiður – Högnhöfði *.

Jöklar:
Langjökull, Eiríksjökull og Þórisjökull, Hofsjökull, Vatnajökull, Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull.


Heimildir:
http://www.natmus.is/umsafnid/heimsminjaskra/
http://www.thingvellir.is/heimsminjaskra/hvader/
http://whc.unesco.org/en/criteria/
Umhverfisráðuneyti og Skipulagsstofnun. (1999). Miðhálendi Íslands, svæðisskipulag 2015, greinargerð. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun.