Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 646. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1131 —  646. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um starfsemi Framtakssjóðs Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

    Leitað var til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um svör við fyrirspurninni og er eftirfarandi byggt á upplýsingum frá sjóðnum.

     1.      Hvernig hefur 1 milljarði kr. sem ríkisstjórnin lagði til Framtakssjóðs Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins af söluandvirði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. verið ráðstafað og hver hefur annast vörslu sjóðsins?
    Í 7. grein laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, segir m.a. svo um framlög í Framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs og markmið hans: „ ... Höfuðstól samkvæmt þessari málsgrein skal halda aðgreindum frá bókhaldi og reikningum sjóðsins og verja til hlutabréfakaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni. Stjórn Nýsköpunarsjóðs skal bjóða út vörslu fjárins og ráðstöfun í einingum með það að markmiði að hámarka arð eignarinnar samkvæmt nánari reglum sem viðskiptaráðherra setur að fengnum tillögum stjórnarinnar. ...“
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins bauð stofnfé þetta út til ráðstöfunar og ávöxtunar í fernu lagi og var hver hlutur 250 millj. kr. Krafa var gerð um 125 millj. kr. mótframlag frá hverjum þeirra sem fékk þessa hluta til ráðstöfunar. Þannig varð stofnfé sjóðanna fjögurra samtals 1.500 millj. kr. Tilboði var tekið frá eftirtöldum aðilum:
          Fjárfestingafélagi Vestmannaeyja hf., með aðsetur í Vestmannaeyjum,
          Fjárfestingafélagi Austurlands hf., með aðsetur á Reyðarfirði,
          Landsbankanum – Framtakssjóði ehf., með aðsetur á Akureyri,
          Framtakssjóði EFA, með aðsetur í Reykjavík.

     2.      Í hvaða fyrirtækjum hefur sjóðurinn fjárfest og hvert er starfssvið þeirra, skipt eftir sveitarfélögum og kjördæmum?

    Sjóðirnir fjórir hafa fjárfest í eftirtöldum félögum:

Nafn Staður Starfssvið
Atferlisgreining ehf. Reykjavík Hugbúnaðarframleiðsla til atferlisgreininga
Bergspá ehf. Akranes/Reykjavík Hugbúnaður til greiningar á steinefnum
BonusOrtho ehf. Ólafsfjörður/Reykjavík Þróun og markaðssetning á nýrri aðferð til framleiðslu á bæklunarskóm
CCP hf. Reykjavík Framleiðsla og sala tölvuleikja á netinu
DomesticSoft Reykjavík Hugbúnaður til samtengingar á smágreindum tækjum
Fiskey hf. Eyjafjörður Lúðueldi
Foxhall ehf. Akranes Þróun og framleiðsla á eldvarnarfatnaði
Framtíðartækni hf. Reykjavík Þróun á aðferðum og tækjum til lækninga og rannsókna
Gagnvirk miðlun hf. Höfn, Hornafirði Þróun gagnvirks sjónvarps
Hvítserkur hf. (Interseafood) Vestmannaeyjar/Reykjavík Rekur upplýsinga- og viðskiptavef fyrir sjávarútveg á internetinu
Idega hugbúnaður hf. Reykjavík Nethugbúnaðarfyrirtæki
Landmat International ehf. Reykjavík Virðisaukandi þjónusta fyrir rekstraraðila farsímakerfa
Lífeind ehf. Reykjavík Þróun og markaðssetning nýrra aðferðafræðilegra lausna í lífvísindum
Markmar ehf. Reykjavík Hugmyndafyrirtæki um vinnslu úr sjávarfangi með líftækni
Martel ehf. Húsavík Gervihnattafarsímaþjónusta
Nikita ehf. Reykjavík Hönnun og markaðssetning á brettafatnaði fyrir konur
Norðurís hf. Höfn, Hornafirði Framleiðsla og sala á bragðefnum úr sjávarfangi
Orf líftækni hf. Reykjavík Framleiðsla hágæðapróteins úr erfðabreyttum plöntum
Prokaría hf. Reykjavík Líftæknifyrirtæki
Skrín ehf. Akureyri Tölvuþjónusta
Stofnfiskur hf. Akureyri Framleiðsla lax-, bleikju- og regnbogasilungshrogna
Sæbýli hf. Vogar, Vatnsleysuströnd Sæeyrna- og sandhverfueldi
Títan hf. Reykjavík Fjarskiptafyrirtæki
Umsýn hf. Reykjavík Framleiðsla og sala á tölvuhugbúnaði til eignaumsýslu
Veðvörur ehf. (Betware) Reykjavík Hugbúnaðarframleiðsla fyrir getraunir og lottó á netinu
Vefur – Samskiptalausnir ehf. Selfoss/Reykjavík Hugbúnaðar- og veflausnir og þjónusta tengd netinu
Þórsbrunnur hf. Reykjavík Vatnsútflutningsfyrirtæki

    Alls eru þetta 27 fyrirtæki. Flest eru í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, eða 15. Tvö eru í Norðvesturkjördæmi, fimm í Norðausturkjördæmi, þrjú í Suðurkjördæmi og eitt í Suðvesturkjördæmi.

     3.      Er hægt að sjá merkjanlegan árangur af fjárframlögum eða lánum sjóðsins, þ.e. ef litið er til heildarveltu fyrirtækjanna og starfsmannafjölda þeirra?

    Framtakssjóðunum er einungis heimilt að kaupa hlutafé, ekki veita lán. Fjárfestingar framtakssjóðanna hafa skipt miklu máli fyrir þau fyrirtæki sem þeir hafa komið að. Frá árslokum 2000 hefur verið viðvarandi skortur á áhættufé til að leggja í ný fyrirtæki. Einkum hafa fyrirtæki sem starfa við upplýsinga- og hátækni fundið fyrir þessum skorti. Ef fjármagn framtakssjóðanna hefði ekki verið til ráðstöfunar verður að draga í efa að mörg þeirra fyrirtækja sem nú eru starfandi væru til.
    Nokkur fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota, sum sameinast öðrum, nokkur hafa sjóðirnir selt en önnur eru í fullum rekstri. Ekki hefur verið haldið saman gögnum um heildarveltu allra þessara fyrirtækja né hver starfsmannafjöldi þeirra hefur verið frá því að sjóðirnir tóku til starfa. Ekki hefur farið fram sérstök rannsókn á því hver heildarvelta fyrirtækjanna hefur verið á hverjum tíma eða starfsmannafjöldi.

     4.      Telur ráðherra að markmið sjóðsins um fjárfestingar á landsbyggðinni hafi náðst?

    Þrátt fyrir almennan skort á áhættufé til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar, er ljóst er að eftirspurn úti á landi eftir því fjárfestingarfé sem til ráðstöfunar hefur verið í framtakssjóðunum reyndist minni en ráð var fyrir gert. Því urðu sjóðirnir að fjárfesta í félögum utan upphafslega skilgreindra svæða. Markmið sjóðanna um hina landfræðilegu afmörkun náðust því ekki.

     5.      Hver hefur verið árlegur rekstrarkostnaður sjóðsins frá því að hann hóf störf, á verðlagi 31. desember 2005, skipt eftir launum, húsnæðiskostnaði, sérfræðiaðstoð og öðrum kostnaði?

    Í samningunum sem gerðir voru árið 1999 um vörslu sjóðanna var samið um 3% vörsluþóknun af upphaflegu fé þeirra. Framtakssjóður Nýsköpunarsjóðs hefur því ekki greitt með beinum hætti laun, húsnæðiskostnað, sérfræðiaðstoð eða annan kostnað. Allur þessu kostnaður hefur verið innifalinn í vörsluþóknuninni og því liggja þessar upplýsingar ekki fyrir sundurliðaðar.