Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 654. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1135  —  654. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Erlu Pálmadóttur um sauðfjárveikivarnir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið skoðað hvort þörf sé á að flokka landbúnaðartæki og önnur tæki sem farið er með þvert á sauðfjárveikivarnalínur með tilliti til smithættu sem gæti borist á milli varnarhólfa með tækjunum, nú þegar bændur og aðrir vinnuvélaeigendur eru í ríkari mæli farnir að sækja vinnu út af búum sínum?

    Í 11. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með áorðnum breytingum, er heimild fyrir Landbúnaðarstofnun „að takmarka eða banna flutning dýra, vöru eða tækja milli eða innan sóttvarnarsvæða telji stofnunin að það valdi eða sé líklegt til að valda útbreiðslu sjúkdóma meðal dýra“.
    Heimild þessi er síðan nánar útfærð í 9. gr. reglugerðar nr. 651/2001, ásamt síðari breytingu, sbr. reglugerð nr. 726/2004, um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna riðuniðurskurðar, en þar segir: „Aðilar sem fara milli sóttvarnarsvæða eða misjafnlega sýktra svæða með tækjabúnað til landbúnaðarstarfa skulu fá starfsleyfi héraðsdýralæknis og vottorð um að fullnægjandi sótthreinsun hafi átt sér stað. Þessi tæki og önnur sem óhreinkast af sauðfé á sýktum svæðum skulu sótthreinsuð samkvæmt fyrirmælum héraðsdýralæknis að lokinni notkun á hverjum stað/jörð.“
    Ekki hafa verið mótaðar samræmdar reglur af hálfu Landbúnaðarstofnunar um flutninga á landbúnaðartækjum milli sóttvarnarsvæða eða flokkun þeirra eftir notkun, en mörg dæmi eru um að héraðsdýralæknar hafi sett vinnuvélaeigendum í sínu umdæmi ákveðnar reglur í samræmi við ákvæði 9. gr. reglugerðar nr. 651/2001.
    Á vegum landbúnaðarráðuneytisins er starfandi nefnd sem vinnur að gerð tillagna um endurskoðun varna gegn búfjársjúkdómum. Mun ráðuneytið fela nefndinni að fjalla um þau atriði er fram koma í fyrirspurninni.