Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1139  —  495. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Kr. Óskarssonar um Reykdalsvirkjun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Eru uppi áform um að styðja uppbyggingu og fullnaðarfrágang á Reykdalsvirkjun í Hafnarfirði?

    Ekki eru uppi áform um að ríkið styðji með framlögum uppbyggingu og fullnaðarfrágang á Reykdalsvirkjun í Hafnarfirði. Að þessu verkefni, sem hófst á árinu 2004, hafa komið Hafnarfjarðarbær, Hitaveita Suðurnesja, Samorka og fjölmargir aðrir aðilar. Sérstakt áhugamannafélag um byggingu Reykdalsvirkjunar, Reykdalsfélagið, hefur haft veg og vanda af undirbúningi og framkvæmdum.
    Áður en haldið var upp á 100 ára afmæli rafvæðingar á Íslandi í desember 2004 var ákveðið að rafveitur landsins gæfu Hafnfirðingum minningargjöf um fyrstu virkjun landsins sem tók til starfa í Hafnfirði í desember 1904. Var ákveðið að það yrði gert með þeim hætti að Samorka gæfi hverfil og rafala af sömu stærð og Reykdalsvirkjun og var tækjabúnaðurinn afhentur 12. desember 2004 við hátíðlega athöfn í Hafnarborg.
    Á síðasta ári hófst vinna við endurgerð stíflu virkjunarinnar og fyrirhugað er að reisa aðrennslisstokk frá stíflu að stöðvarhúsi á þessu ári auk stöðvarhúss virkjunarinnar. Þegar virkjunin verður tekin í notkun er ætlunin að Iðnskólanum í Hafnarfirði verði falin umsjón hennar og hún nýtt sem kennslutæki í raforkutækni við skólann og væntanlega einnig öðrum verkmenntaskólum á höfuðborgarsvæðinu.
    Margir aðilar hafa tekið þátt í þessu verkefni. Hafnarfjarðarbær hefur unnið að og kostað undirbúning gerðar stöðvarhúss og annast hluta af endurgerð stíflunnar. Hitaveita Suðurnesja hf. hefur að stærstum hluta kostað endurgerð uppistöðulónsins og stíflunnar og tekið að sér lagningu á aðrennslispípum og svæðislýsingu. Þá hafa verktakar, byggingavöruverslanir og ráðgjafastofur veitt afslátt af vinnu sinni og þjónustu. Nemendur við iðnskólann í Hafnarfirði hafa unnið við smíðar á undirstöðum og aðrennslisstokk virkjunarinnar í námi sínu. Síðast en ekki síst ber að nefna Reykdalsfélagið sem hefur lagt fram verulega vinnu í verkefnið og vinnur nú að frekari fjáröflun til að ljúka verkefninu.