Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 502. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1169  —  502. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sjúkraflutninga til og frá Íslandi.

    Áður en fyrirspurninni er svarað er rétt að geta þess að ráðuneytið hefur einungis upplýsingar um flug sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, og um sjúkraflug frá Akureyri til Grænlands. Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um sjúkraflug með einstaklinga sem vátryggingafélög eða aðrir greiða fyrir. Tryggingastofnun skilgreinir sjúkraflug til eða frá útlöndum sem flug með sjúklinga í körfu. Vegna þessa skal tekið fram að nokkrar ferðir hafa verið farnar „akút“ með sjúkraflugvél frá Reykjavíkurflugvelli til útlanda með uppisitjandi tilvonandi líffæraþega, en þær ferðir koma ekki fram í tölunum hér á eftir þótt Tryggingastofnun hafi greitt fyrir flutningana.
    Rétt er að taka fram að á grundvelli Norðurlandasamnings annast Tryggingastofnun greiðslur vegna aukakostnaðar við flutning Norðurlandabúa sem veikjast eða slasast hér á landi og eru fluttir til síns heimalands. Körfuflutningur getur þar komið til en Tryggingastofnun heldur hins vegar ekki sérstakar skrár um þessi tilvik og getur þar af leiðandi ekki veitt upplýsingar um mögulegan fjölda slíkra sjúkraflutninga.

     1.      Hve oft á ári var flogið með sjúklinga til og frá Íslandi árin 2000–2004 og hvað voru það margir sjúklingar?
    Vísað er til svara við 2. og 3. tölulið fyrirspurnarinnar.

     2.      Hve oft var flogið frá:
              a.      Reykjavíkurflugvelli,
              b.      Keflavíkurflugvelli,
         og með hvað marga sjúklinga frá hvorum velli?

    Á árunum 2000–2004 var flogið sex sinnum með jafnmarga sjúklinga með sjúkraflugi frá Keflavíkurflugvelli. Í öllum tilfellum var flogið með áætlunarflugi. Eitt flug var frá Reykjavíkurflugvelli árið 2001.

Ár Fjöldi ferða
2000 0
2001 1
2002 2
2003 1
2004 3

    Til viðbótar fyrrgreindum sjúkraflugferðum var farið í sjúkraflug frá Akureyri til Grænlands og sjúklingar fluttir til Reykjavíkur, Akureyrar, Kaupmannahafnar, Kulusuk, Constable Point, Noregs og Svíþjóðar. Sjúkraflugferðir vegna samnings við Grænlendinga er eftirfarandi.

Ár Fjöldi ferða
2000 9
2001 8
2002 7
2003 14
2004 13

     3.      Hve oft var lent á:
              a.      Reykjavíkurflugvelli,
              b.      Keflavíkurflugvelli,
         og með hvað marga sjúklinga?

    Á árunum 2000–2004 var flogið fimm sinnum með jafnmarga sjúklinga til Keflavíkurflugvallar. Í öllum tilfellum var flogið með áætlunarflugi. Ekki var flogið til til Reykjavíkurflugvallar á þessum árum.

Ár Fjöldi ferða
2000 0
2001 0
2002 1
2003 3
2004 1

     4.      Eru til upplýsingar um hversu „akút“ sjúkraflug frá landinu var í hverju tilviki? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort flogið var frá Reykjavík eða Keflavík.
     5.      Eru til upplýsingar um hversu „akút“ sjúkraflug til landsins var í hverju tilviki? Svar óskast sundurliðað eftir því á hvorum flugvellinum var lent.
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hversu aðkallandi sjúkraflutningarnir eru. Hins vegar er ljóst að þau tilfelli þar sem flogið er með sérstöku sjúkraflugi eru meira aðkallandi en þegar sjúklingur flýgur með áætlunarflugi.

     6.      Liggur fyrir rannsókn á afdrifum sjúklinga sem flogið var með frá landinu og eftir brottfararvelli?
     7.      Liggur fyrir rannsókn á afdrifum sjúklinga sem flogið var með til landsins og eftir lendingarstað?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi atriði.

     8.      Hve stór hluti þessa sjúkraflugs var greiddur af:
              a.      Tryggingastofnun ríkisins,
              b.      tryggingafélögum (erlendum/innlendum),
              c.      innlendum sjúkrastofnunum,
              d.      öðrum?

    Einungis eru til upplýsingar um greiðslur Tryggingastofnunar en stofnunin greiðir allan kostnað við nauðsynlega sjúkraflutninga með sjúkratryggða einstaklinga til og frá útlöndum samkvæmt lögum um almannatryggingar.