Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 501. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1170  —  501. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um sjúkraflutninga innan lands með þyrlum.

    Í ljósi þess hve svarfrestur er stuttur liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um alla liði fyrirspurnarinnar.

     1.      Hve oft á ári voru þyrlur notaðar til sjúkraflutninga innan lands árin 2000–2004 og með hversu marga sjúklinga var flogið?
    Eftirfarandi tafla lýsir fjölda sjúkrafluga og fjölda sjúklinga á áðurnefndu tímabili:

Ár Útköll alls Þar af sjúkraflug Fjöldi sjúklinga
2000 152 103 110
2001 130 85 92
2002 113 78 80
2003 124 88 98
2004 111 80 90

     2.      Hve oft á sama tíma var lent á:
              a.      Reykjavíkurflugvelli og með hvað marga sjúklinga,
              b.      þyrlupalli í Fossvogi og með hvað marga sjúklinga?

    Ekki liggur fyrir á aðgengilegan hátt hvernig þessi skipting er, en mat áhafnarmeðlima þyrluvaktarinnar er að í 80% tilvika sé lent með sjúklinga við þyrlupallinn í Fossvogi og í um 20% tilvika á flugvelli. Þess má geta að einstaka sinnum eru sjúklingar fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þegar lent er á Reykjavíkurflugvelli er nær undantekningarlaust um að ræða sjúklinga sem ekki teljast illa haldnir.

     3.      Hvaðan var flogið?
    Í nær öllum tilvikum er flogið frá Reykjavíkurflugvelli og sjúklingar sóttir til nær allra staða á landinu þar sem þyrla getur lent vegna staðhátta og færðar. Reikna má með að fjórum til sex sinnum á ári sé þyrlan í öðrum verkefnum og stödd úti á landi eða yfir sjó þegar beiðni um sjúkraflug berst.

     4.      Hver var, þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli eða þyrlupalli í Fossvogi:
              a.      viðbragðstíminn, frá því að kallað var eftir sjúkraflugi og þar til sjúklingur var kominn um borð í þyrluna,
              b.      flugtíminn, frá því að sjúklingur kom um borð og þar til þyrlan lenti?
        Óskað er eftir upplýsingum um stysta tíma, lengsta tíma og meðaltíma.

    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um viðbragðstíma. Segja má að stysti tími frá útkalli þar til sjúklingur er kominn um borð í þyrluna sé um 30–45 mínútur þegar slysstaður er mjög nálægt Reykjavík en lengsti tími getur verið yfir fjórar klukkustundir þegar sækja þarf sjúkling um langan veg við erfiðar aðstæður og með tilheyrandi millilendingum til eldsneytistöku.

     5.      Hvert var hlutfall þeirra sjúklinga sem flogið var með til Reykjavíkur og höfðu legið á sjúkrastofnun utan borgarinnar, þ.e. voru fluttir milli sjúkrastofnana?
    Þyrla Landhelgisgæslunnar er ekki notuð til að flytja sjúklinga milli sjúkrastofnana.

     6.      Eru til upplýsingar um hversu „akút“ sjúkraflugið til Reykjavíkur var í hverju tilviki? Svarið óskast sundurliðað eftir því hvort lent var á Reykjavíkurflugvelli eða á þyrlupalli í Fossvogi.
    Í samantekt sem gerð var fyrir árin 1998–2001 reyndist ástand sjúklinga mjög alvarlegt í 30% tilvika og þörf á verulegum inngripum frá hendi læknis, svo sem barkaþræðingum með öndunaraðstoð, gjöf blóðs, vökva eða lyfja vegna staðfests eða yfirvofandi lostástands eða annarra sérhæfðra læknisaðgerða.
    Í um 40% tilvika var þörf á mikilvægri læknismeðferð sem þó taldist ekki lífsbjargandi en getur komið í veg fyrir frekari fylgikvilla og er þar átt við lyfjagjöf, vökvagjöf, spelkun og réttingu á brotum eða liðhlaupum.
    Í um þriðjungi tilvika var ekki um alvarlega áverka eða veikindi að ræða en ástæða þess að sjúklingur var sóttur í þeim tilvikum var iðulega vegna staðsetningar sjúklings fjarri mannabyggðum eða á hafi úti.
    Ekki liggur fyrir nákvæm sundurliðun á ástandi sjúklings eftir því hvort lent var á Reykjavíkurflugvelli eða á þyrlupalli í Fossvogi en eins og áður var greint frá í svari við 2. lið er reglan að lent sé á Reykjavíkurflugvelli þegar um minni háttar vandamál er að ræða hjá viðkomandi sjúklingi.

     7.      Eru til rannsóknir á afdrifum sjúklinga sem fluttir voru með þyrlu til Reykjavíkur?
        Upplýsingar óskast um eftirfarandi:
              a.      dánartíðni á sjúkrahúsi eftir flutninginn,
              b.      dvöl (legudagar) á sjúkrahúsi í Reykjavík,
              c.      útskrift: heim, á stofnun, annað sjúkrahús,
              d.      hvort flutningstími til Reykjavíkur hafi haft afdrifarík áhrif á batahorfur sjúklings.

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi atriði.

     8.      Hvort eru áhafnir þyrlna á staðarvöktum eða bakvöktum?
    Áhafnir þyrlna eru á bakvöktum.

     9.      Hver er skilgreindur viðbragðstími þessara starfsmanna í sjúkraflugi, þ.e. sá tími sem líður frá útkalli til flugtaks?
    Skilgreindur útkallstími frá hendi Landhelgisgæslunnar er ein klukkustund frá því að hjálparbeiðni berst. Þess ber þó að geta að útkallstíminn er í raun mun styttri, líklega rétt um 30 mínútur að meðaltali.