Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 530. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1173  —  530. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um AVS-sjóðinn.

     1.      Hefur árangurinn af starfsemi AVS-sjóðsins verið metinn, nú þegar starfstímabil hans er nær hálfnað?
    Heildstætt mat á árangri af starfsemi AVS-sjóðsins hefur ekki farið fram. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sjóðurinn hefur aðeins starfað í þrjú ár og verkefnin taka oft lengri tíma en eitt til tvö ár, þannig að niðurstöður liggja ekki fyrir. Einnig eru í nokkrum tilfellum veittir styrki til rannsókna þar sem þannig háttar til að fyrirtæki eru í samstarfi um tiltekin verkefni og hefur þá orðið að samkomulagi að þau geti ein notfært sér niðurstöðurnar um tiltekinn tíma. Engu að síður er ljóst að ýmis dæmi eru um verkefni sem litið hafa dagsins ljós fyrir tilstuðlan AVS-sjóðsins og ljóst að þau hefðu varla orðið að veruleika nema fyrir fjárhagslegan atbeina sjóðsins. Þegar lengra verður um liðið frá stofnun sjóðsins mun heildarmat á honum fara fram.
    Enn er því eingöngu hægt að horfa til þess mikla áhuga sem sjóðurinn hefur vakið sem endurspeglast í miklum fjölda umsókna sem honum hafa borist og verkefnum sem hann hefur styrkt frá árinu 2003, sbr. eftirfarandi töflu:

Ár

Fjöldi umsókna

Umsóknir sem hlutu styrk Styrkir AVS- rannsóknasjóðs,
millj. kr.
Styrkir 05-190-12
Eldi sjávardýra, millj. kr.
Samtals veittir styrkir,
millj. kr.
2003 101 34 53,6 20,3 73,9
2004 92 47 96,1 18,8 114,9
2005 112 64 197,8 19,1 216,9
2006 102 Úthlutun ekki lokið

    Á árunum 2003 til 2005 bárust sjóðnum 305 umsóknir um styrki til verkefna og hlutu 145 verkefni styrki, samtals tæplega 406 millj. kr. Öll verkefnin höfðu að markmiði að stuðla að auknu verðmæti sjávarfangs. Styrkir AVS-sjóðsins geta mest numið 50% af áætluðum heildarkostnaði samkvæmt verkáætlun umsækjenda, en oft er styrkhlutfall lægra. Að teknu tilliti til mótframlaga má því ráða af þessum tölum að styrkir AVS-sjóðsins hafi leitt til þess að um 1.000 millj. kr. hafi verið varið til rannsókna og þróunarverkefna í sviði sjávarútvegs á síðastliðnum þremur árum. Fyrirtæki alls staðar á landinu eru þátttakendur í verkefnum. Úthlutanir sjóðsins hafa einnig stuðlað að auknu samstarfi fyrirtækja, háskóla og stofnana. Allar umsóknir sem berast sjóðnum eru metnar af faghópum sjóðsins og er þá lögð áhersla á að verkefnin stuðli að auknu verðmæti sjávarfangs.

     2.      Hversu mikið fé hefur verið sett í AVS-sjóðinn frá stofnun hans og hefur það fjármagn verið í samræmi við tillögur AVS-nefndarinnar?
    Árið 2002 skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp sem vinna átti tillögur um það hvernig mætti á skipulegan hátt auka verðmæti sjávarfangs samhliða nýsköpun í greininni. Hópurinn gerði tillögu um stofnun rannsóknasjóðs og að á fimm ára átakstímabili myndu árleg framlög sjóðsins vaxa úr 150 millj. kr. árið 2003 í 300 millj. kr. á árinu 2007.
    Í tillögu til þingsályktunar á 128. löggjafarþingi (688. mál) var lagt til að AVS-sjóðurinn fengi 200 millj. kr. árið 2004 og að framlagið hækkaði um 50 millj. kr. á ári fram til 2008 og yrði þá 400 millj. kr.
    Frá 2003 hafa framlög til verkefna samkvæmt tillögum stjórnar AVS-sjóðsins verið sem hér segir (áætlun fyrir árið 2006):

Ár Millj. kr.
2003 73,9
2004 119,1
2005 219,1
2006 229,1


     3.      Er umræða hafin um að framlengja starfstímabil sjóðsins en nú er ætlunin að hann starfi til 2008?
    Starfstímabil sjóðsins er ekki fastbundið þótt starfshópur hafi gert tillögur um fimm ára átaksverkefni. Ef marka má áhuga framleiðenda sjávarafurða á sjóðnum og góða samstöðu um mikilvægi hans er líklegt að óskir um að framtíð hans verði tryggð verði háværar. Ekki er vafi á að því að atvinnugreinin er mjög vel í stakk búin til að taka þátt í fleiri rannsókna- og þróunarverkefnum verði fjármögnun sjóðsins tryggð til lengri tíma.