Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 597. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1175  —  597. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jóns Kr. Óskarssonar um pláss á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Er ráðherra tilbúinn að beita sér nú þegar fyrir fjölgun plássa á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða?

    Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um málefni aldraðra á síðustu missirum og á Alþingi hefur verið fjallað um þennan málaflokk frá ýmsum hliðum. Rík ástæða er til að skoða fyrirkomulag þjónustu við aldraða til framtíðar, ekki síst þá sem eru sjúkir og þurfa á miklum stuðningi félags- og heilbrigðiskerfis að halda.
    Í ljósi biðlista og hækkandi hlutfalls aldraðra þurfum við að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á ákveðnum landsvæðum. Þörfin er mest á Suðurlandi og á Suðvesturhorninu, en sé miðað við kjördæmaskipan eru fæst hjúkrunarrými á hverja 1.000 íbúa í Suðvesturkjördæmi, eða 5,7, í Suðurkjördæmi eru þau 7,4 á hverja 1.000 íbúa, og í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður eru þau 9,4.
    Í ráðuneytinu er hafin vinna við að meta hvar brýnast er að byggja upp hjúkrunarrými miðað við það sem fyrir er, aldurssamsetningu íbúa á viðkomandi svæðum og aðra þjónustu, svo sem fjölda dvalarrýma, dagvistarrýma og rýma til hvíldarinnlagnar. Ráðuneytið gerði áætlun af þessum toga fyrir árin 2002–2007 sem tímabært er að endurskoða.
    Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 er miðað við að yfir 75% fólks 80 ára og eldra geti búið heima með viðeigandi stuðningi. Þetta markmið hefur ekki náðst að fullu. Möguleikar aldraðra til að búa heima ráðast mjög af þeim stuðningi og þjónustu sem þeim stendur til boða. Þar þarf að gera betur og verður stefnt að því að efla heimahjúkrun og önnur úrræði til að styðja aldraða til að búa sem lengst heima.
    Lengi hefur verið litið á stofnanir sem helstu og nánast einu lausnina fyrir aldraða sem þurfa umönnun. Þetta er úrelt sjónarmið og verður horfið frá þessari þunglamalegu stofnanamenningu til að skapa farveg fyrir nýja hugsun og nýja hugmyndafræði sem felur í sér stóraukinn stuðning við aldraða í heimahúsum með áherslu á fjölbreyttari úrræði og einstaklingsmiðaða þjónustu sem er skipulögð og veitt í nánu samstarfi heimahjúkrunar og félagsþjónustu.
    Fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hæstvirtur félagsmálaráðherra, hefur á síðustu missirum talað fyrir hugmyndum í þeim anda sem boðaðar eru hér. Þeim verður fylgt eftir og má vonast til þess að samþætting heimahjúkrunar og félagsþjónustu í verði í góðri samvinnu við félagsmálaráðuneytið.
    Skýrsla um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði, sem nefnd skipuð af fyrrverandi heilbrigðisráðherra vann og kynnt var nýlega, getur nýst sem fyrirmynd við uppbyggingu öldrunarþjónustu í framtíðinni. Meðal athyglisverðra upplýsinga sem þar koma fram eru niðurstöður könnunar meðal aldraðra Hafnfirðinga sem sótt hafa um vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými, en telja margir hverjir að með aukinni þjónustu gætu þeir með góðu móti búið lengur heima. Þetta styður einnig athugun sem gerð var af heilbrigðisráðuneytinu og kynnt var í svari við fyrirspurn hér á Alþingi fyrir nokkru (þskj. 566 í 315. máli), en þar kom fram það mat þjónustuhópa aldraðra að af 768 öldruðum í bið eftir dvalar- eða hjúkrunarrými gætu um 400 þeirra búið heima með fullnægjandi heimahjúkrun eða heimilisþjónustu. Skylt er að taka mark og mið af þessum niðurstöðum.
    Hafa verður í huga að ráðuneytið er bundið af fjárlögum og getur því ekki beitt sér fyrir fjölgun plássa á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða umfram þær framkvæmdir sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í á næstu missirum. Þar má nefna 110 rými í Sogamýri í Reykjavík, 90 rými á Lýsislóðinni, 60 rými á Akureyri, 12 á Neskaupstað, 26 á Eskifirði og 27 á Selfossi, og er þá ekki allt talið.
    Mikilvægt er að nýta á sem skynsamlegastan hátt það fé sem varið er til öldrunarþjónustu, sjá til þess að uppbygging fari fram þar sem þörfin er mest og að skynsamlegustu og hagkvæmustu úrræðin séu valin. Einnig þarf að ryðja braut fyrir nýjar hugmyndir og nýjar áherslur í öldrunarþjónustu með skipulagsbreytingum ef þess gerist þörf. Að þessu verður unnið í ráðuneytinu á næstu mánuðum.