Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1176  —  583. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um Reyksímann.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu lengi hefur verið boðið upp á þjónustu Reyksímans, hve lengi og hvenær er hann opinn daglega, hve margir starfsmenn sinna þjónustunni og í hverju er starfsemin fólgin?
     2.      Hve margir hafa nýtt sér þjónustuna og hversu oft er hringt að meðaltali í hverjum mánuði?
     3.      Hefur verið kannað hvaða árangri þjónustan hefur skilað?
     4.      Hversu miklu fé hefur verið varið til þjónustunnar árlega?


    Reyksíminn hefur starfað frá byrjun árs 2000, fyrst sem tilraunaverkefni en síðan var gerður formlegur samningur um starfsemina. Þjónustan er opin tvo tíma á dag, frá klukkan 17–19 alla virka daga. Auk þess er símsvari þar sem hægt er að biðja fyrir skilaboð. Reyksíminn hefur einnig heimasíðu.
    Við ráðgjöfina vinna sjö hjúkrunarfræðingar sem starfa við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga en að auki koma að þjónustunni læknir, tannlæknir og fleiri eftir þörfum. Starfsemin felst í því að veita faglega aðstoð í síma þeim sem vilja hætta að reykja eða hætta að nota annað tóbak. Fólk hringir á símatíma og byggist ráðgjöfin á 5–30 mínútna viðtölum þar sem áhersla er lögð á hvatningu og stuðning á einstaklingsbundinn hátt.
    Heildarfjöldi innhringinga hefur verið á bilinu 260–280 á ári. Að meðaltali voru 22 símtöl á mánuði árið 2005. Vitað er að innhringingar eru fleiri í heild sinni yfir sólarhringinn.
    Árið 2003 var gerð árangurskönnun meðal skjólstæðinganna í samstarfi við utanaðkomandi aðila, 73 einstaklingum var sent bréf og svarhlutfall var 68%. Niðurstöður leiddu í ljós að 30% af skjólstæðingum Reyksímans voru reyklausir ári seinna.
    Kostnaðurinn hefur verið 3–3 1/ 2 millj. kr. á ári sem innifelur launakostnað, símakostnað, prentkostnað, námskeiðskostnað og kostnað vegna faglegrar ráðgjafar og hefur þetta verið styrkt að hluta af Lýðheilsustöð og lyfjafyrirtækjum. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hefur lagt fram kostnað vegna stjórnunar og umsjónar.