Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 751. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1188  —  751. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um þyrlur Landhelgisgæslunnar.

    Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir því að Landhelgisgæslan tæki saman svör við fyrirspurninni. Svör Landhelgisgæslunnar eru eftirfarandi.

     1.      Hve oft voru þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út til aðstoðar fólki árin 2003, 2004 og 2005?
    Útköll voru 124 talsins árið 2003, 117 árið eftir og 130 árið 2005.

     2.      Hvernig skiptast útköll eftir
              a.      sjómönnum,
              b.      slysum eða öðru á landi,
              c.      erlendum ferðamönnum?
        Hve margar flugstundir voru að baki hverjum lið?

    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda útkalla skipt eftir loftförum. TF –LIF er stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF er minni þyrlan og SYN er flugvél Landhelgisgæslunnar. Sjá má fjölda flugtíma í leit og björgun annars vegar og sjúkraflug hins vegar skipt eftir loftförum.



Útköll 2003–2005, skipt eftir loftförum.


Leit og björgun Sjúkraflug

Sjúklingar

Flugtími

Fjöldi útkalla Land Óbyggðir Sjór Land Óbyggðir Sjór Íslenskir Erlendir Leit/björgun Sjúkraflug
2003
TF-LIF 66 46,4 58,5
TF-SIF 53 23,8 36,4
TF-SYN 5 6 7
Samtals 124 14 19 23 42 3 22 65 34 76,2 101,9
Sjór: 45     Land: 78
2004
TF-LI 66 42,5 69,1
TF-SIF 43 28,6 34,9
TF-SYN 8 17,1 5
Samtals 117 7 3 36 41 9 21 76 17 88,2 109
Sjór: 57     Land:      60
2005
TF-LIF 72 81,5 35,6
TF-SIF 51 49,6 8,6
TF-SYN 7 18,6 0
Samtals 130 21 22 32 37 2 16 45 25 149,7 44,2
Sjór: 48     Land:      82
     3.      Hver er kostnaður á flugtíma fyrir hvora þyrlu?
    Kostnað við flugtíma er hægt að reikna út frá mismunandi forsendum. Annars vegar er hægt að reikna út hvað einstakur flugtími kostar og reikna þá fyrst og fremst eldsneytiskostnað (reikna breytilegan kostnað). Einnig þarf að reikna viðbótarrekstrar- og viðhaldskostnað. Þessa aðferð er rétt að nota ef reikna á út kostnað við hvern viðbótarflugtíma sem floginn er. Hins vegar er hægt að reikna út heildarkostnað við flugtíma (reikna út fastan kostnað) og taka þá inn launakostnað vegna áhafna, tæknideildar, þjálfunarkostnað og allan viðhalds- og skoðunarkostnað, auk kostnaðar vegna afskrifta og fjármagnskostnað. Slíka aðferð er rétt að nota ef meta á t.d. kostnað við að stofna þyrlusveit. Þó er hún þeim takmörkunum háð að kostnaður við að vera til staðar með þjálfaðan mannskap og dýr tæki reiknast inn í flugtímakostnaðinn. Þannig reiknað yrði flugtími mjög dýr séu slys og útköll fá en flugtíminn yrði hins vegar ódýr ef slys og útköll eru mörg. Annars vegar er reiknaður út breytilegur rekstrarkostnaður á flugstund og hins vegar heildarrekstrarkostnaður á flugstund. Útreikningarnir eru meira til að gefa mynd af kostnaðinum en eru ekki nákvæmir útreikningar, sérstaklega þar sem viðhald og viðgerðir er mjög breytilegt milli ára. Rekstrarkostnaður er reiknaður fyrir árin 2004 og 2003 þar sem ársreikningar þessara ára hafa verið samþykktir en ekki fyrir árið 2005.

Breytilegur kostnaður við flugtíma TF LIF.


– Eldsneytisnotkun er um 625 lítrar / klst. sem miðað við 40 kr. lítraverð gerir 25.000 kr.
– Rekstrarkostnaður (án trygginga og launa) og flugtímar (námundað við tug þúsunda).
Ár Rekstrarkostnaður Flugtímar alls Kostnaður/flugtími
2004 49,4 millj. kr. 285 170 þús. kr.
2003 41,5 millj. kr. 254 160 þús. kr.
Ath. Flugtímar alls eru flugtímar vegna leitar, björgunar, sjúkraflugs og æfingaflugs.

Breytilegur kostnaður við flugtíma TF SIF.


– Eldsneytisnotkun er um 330 lítrar / klst. sem miðað við 40 kr. lítraverð gerir 13.200 kr.
– Rekstrarkostnaður ( án trygginga og launa) og flugtímar ( námundað við tug þúsunda).
Ár Rekstrarkostnaður Flugtímar alls Kostnaður/flugtími
2004 34,4 millj. kr. 242 140 þús.kr.
2003 23,0 millj. kr. 216 110 þús.kr.
Ath. Flugtímar alls eru flugtímar vegna leitar, björgunar, sjúkraflugs og æfingaflugs.

Niðurstaða varðandi mat á breytilegum kostnaði við flugtíma.
    TF LIF – flugtími með eldsneyti og rekstrarkostnaði er um 200 þús. kr.
    TF SIF – flugtími með eldsneyti og rekstrarkostnaði er um 100 þús. kr.

Meðalkostnaður á flugtíma (fastur og breytilegur kostnaður).
    Fyrir nokkrum árum var reiknaður út meðalkostnaður við flugtíma út frá heildarkostnaði við rekstur hvers loftfars. Kostnaður þannig reiknaður var sem hér segir:
    TF LIF 380.000 kr.
    TF SIF 150.000 kr.

     4.      Hafa tryggingafélög eða aðrir greitt Landhelgisgæslunni fyrir flugstundir eða aðra aðstoð vegna þyrluflugs? Ef svo er, í hvaða tilfellum?

    Hvorki tryggingarfélög né aðrir greiða Landhelgisgæslunni almennt fyrir leitir, björgun mannslífa eða sjúkraflug. Hins vegar er stundum leitað til Landhelgisgæslunnar um að sinna ákveðnum verkefnum eða veita aðstoð. Fyrst er gengið úr skugga um að einkaaðilar geti ekki sinnt verkefninu. Ef svo er tekur Landhelgisgæslan það að sér samkvæmt samningi við viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Tryggt er að slík verkefni takmarki ekki getu Landhelgisgæslunnar til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Slík verkefni heyra til undantekninga í rekstri Landhelgisgæslunnar. Æfingar með Slysavarnaskóla sjómanna eru þó reglubundnar og greiðir Slysavarnafélagið Landsbjörg 85.000 kr. fyrir hverja æfingu, sem tekur um klukkustund á þyrlunni Sif.
    Varðandi verkefni sem kalla mættu aðstoð við björgun verðmæta og greitt var fyrir þá var eftirfarandi verkefnum sinnt árin 2003–2005.
          Flutningur á laskaðri flugvél frá Fljótavík á Ströndum 15. júlí 2005. Tryggingarfélag greiddi kostnað við þyrluflug og vinnu áhafnar varðskips.
          Aðstoð við björgun Baldvins Þorsteinssonar EA 9.–17. mars 2004. Báðar þyrlurnar aðstoðuðu við björgun skipsins og samdist um greiðslur. Auk þess var greitt fyrir aðstoð varðskipa.
          Flutningur á dælum vegna leka að Þorsteini EA 31. október 2003. Dælur teknar um borð í þyrlu og flogið með þær austur fyrir land um borð í Þorstein. Dælum komið fyrir, þær gangsettar og stjórnað.