Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 704. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1189  —  704. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um heimildir til símhlerunar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve oft hefur verið veitt heimild til símhlerunar við héraðsdómstóla sl. 10 ár, sundurliðað eftir árum og dómstólum?
     2.      Liggja fyrir í dómsmálaráðuneytinu upplýsingar um notkun veittra heimilda til símhlerunar? Ef svo er, símtöl hve margra einstaklinga voru hleruð á umræddu tímabili?
     3.      Hverjar eru uppgefnar ástæður fyrir hlerunarheimildunum, sundurliðað eftir veittum heimildum?


    Upplýsingar um fjölda heilmilda til símhlerunar sl. 10 ár koma fram í töflunni hér á eftir.

Úrskurðir héraðsdómstóla um símhleranir.

1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Alls
Reykjavík - - - - 98 96 75 57 132 125 583
Aðrir dómstólar 0 0 3 10 19 24 24 39 45 32 196
Samtals 0 0 3 10 117 120 99 96 177 157 779
Þar sem skráning hófst ekki með skipulegum hætti hjá Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr en árið 2000 liggja ekki fyrir tölur um fjölda úrskurða fyrri ára. Tölur frá öðrum héraðsdómstólum en Héraðsdómi Reykjavíkur eru ekki sundurliðaðar sérstaklega með hliðsjón af almannahagsmunum.

    Ráðuneytið heldur ekki skrá yfir fjölda hleraðra símtala og raunar er ekki unnt að draga neina ályktun af fjölda hleraðra símtala um það hve margir einstaklingar eiga þar hlut að máli, þar sem sami einstaklingur getur oft komið við sögu. Ráðuneytið leitaði til einstakra lögregluembætta og dró saman eftirfarandi upplýsingar: Frá árinu 2000, þegar skráning upplýsinga af þessu tagi hófst hjá lögreglunni í Reykjavík, og til ársloka 2005 hafa 230 einstaklingar verið hleraðir, með fyrrgreindum fyrirvara, og frá 1996 til ársloka 2005 samtals 120 á landsbyggðinni.
    Ekki reyndist unnt að sundurgreina ástæður sem lágu að baki þeim 583 heimildum sem veittar voru til símhlerunar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Til þess að það hefði verið mögulegt hefði þurft að lesa hvern einasta úrskurð. Hins vegar fengust þær upplýsingar frá dóminum að í yfirgnæfandi fjölda tilfella væri um að ræða grun um sölu eða dreifingu fíkniefna.
    Hins vegar reyndist auðveldara að fá umbeðnar upplýsingar hjá embættunum úti á landi þar sem um mun færri úrskurði var að ræða. Í þeim 196 úrskurðum þar sem heimild var veitt til hlerunar voru ástæðurnar þær sem fram koma í eftirfarandi töflu.

Ástæður símhlerana á landsbyggðinni.


Fjöldi úrskurða*
Grunur um sölu eða dreifingu fíkniefna 173
Rannsókn vegna ætlaðs símaónæðis 3
Rannsókn vegna ætlaðra kynferðisbrota 4
Rannsókn vegna ætlaðrar tilraunar til fjársvika 4
Rannsókn vegna innbrots eða skemmdaverka 4
Rannsókn vegna ætlaðrar íkveikju 3
Rannsókn vegna vopnalagabrots og þjófnaðar 1
Líflátshótun 1
Smygl 2
Brot í trúnaðarstörfum 1
* Ath. Hér er átt við fjölda uppkveðinna úrskurða en ekki fjölda einstaklinga. Í mörgum tilvikum var um að ræða framlengingu á fyrirliggjandi heimild til hlerunar þannig að úrskurðirnir eru fleiri en einstaklingarnir sem voru hleraðir.