Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 761. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1198  —  761. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurjóns Þórðarsonar um flutning vínbúðarinnar í Mjódd í leiguhúsnæði.

     1.      Hversu mörg stöðugildi eru í Vínbúðinni í Garðheimum, Stekkjabakka 6, og hve mörg voru þau í Vínbúðinni í Mjódd í janúar sl.?
    Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR verða stöðugildin í Vínbúðinni að Stekkjabakka 6 væntanlega þrjú og hálft, en stöðugildin í Vínbúðinni í Mjódd voru fimm í janúar 2006.

     2.      Hvað greiðir íslenska ríkið í húsaleigu fyrir húsnæðið í Garðheimum?

     Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, eru takmarkanir á upplýsingarétti vegna einka- og viðskiptahagsmuna. Þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Þá kemur fram í 2. málsl. umræddrar greinar að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er umrætt ákvæði skýrt með eftirfarandi hætti:
         „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“
         Með vísan til framangreinds telur fjármálaráðherra að óheimilt sé að veita umbeðnar upplýsingar enda ríki um þær trúnaður á milli aðila þar sem þær varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni ÁTVR og Gróðravara ehf., sem gerði leigusamninginn við ÁTVR á umræddu húsnæði.
    
     3.      Hver hefur kostnaðurinn verið við flutning og innréttingar á Vínbúðinni í Garðheimum?
    Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR er áætlaður kostnaður við flutning og innréttingar á Vínbúðinni að Stekkjarbakka 6 um 15 millj. kr.

     4.      Hvert er áætlað söluverð húsnæðis ÁTVR í Mjóddinni?
    Áætlað söluverð húsnæðis ÁTVR í Mjóddinni liggur enn ekki fyrir. Húsnæðið hefur verið auglýst til sölu og skulu tilboð í það berast Ríkiskaupum fyrir 27. apríl nk. Ríkiskaup hafa óskað eftir verðmati á húsnæðinu en niðurstaða þess liggur ekki fyrir. Gert er ráð fyrir því að umrætt verðmat húsnæðisins verði tilbúið þegar frestur til að skila inn tilboðum rennur út. Til upplýsinga skal þess getið að brunabótamat húsnæðisins er 54.600.000 kr., og fasteignamat þess er 45.910.000 kr.

     5.      Hver var árleg velta vínbúðarinnar í Mjódd árin 2000–2005?

    Árleg velta vínbúðarinnar í Mjódd á árunum 2000–2005 var eftirfarandi:

Ár Sala í þús. kr.
2000 557.511
2001 543.750
2002 525.128
2003 500.078
2004 491.838
2005 515.971