Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 702. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1206  —  702. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðjóns Hjörleifssonar um skattskil í veitingahúsarekstri.

     1.      Hvernig er skattskilum veitingahúsa háttað í samanburði við ýmsar aðrar þjónustugreinar?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra var áætlað á um 42% lögaðila í hótel- og veitingahúsarekstri við álagningu opinberra gjalda árið 2004 og tæplega 46% gjaldárið 2005. Til samanburðar var áætlað á rúm 23% lögaðila í öðrum viðskiptum og sérhæfðri þjónustu við álagningu opinberra gjalda árið 2004 og tæplega 26% gjaldárið 2005. Jafnframt var áætlaður virðisaukaskattur á tæplega 26% lögaðila í hótel- og veitingahúsarekstri á síðasta tímabili ársins 2003 (nóvember–desember) og um 23,5% á síðasta tímabili ársins 2004. Til samanburðar var áætlaður virðisaukaskattur á tæplega 22% lögaðila í öðrum viðskiptum og sérhæfðri þjónustu á síðasta tímabili áranna 2003 og 2004 (nóvember–desember).
    Það hefur lengi legið fyrir að skattskilum ýmissa aðila sem starfa í veitingarekstri væri ábótavant. Fyrir þessu geta verið nokkrar ástæður og skulu hér nokkrar nefndar.
     a.      Atvinnugreinin er í eðli sínu mjög fjölbreytt. Til hennar eru taldir matsölustaðir, viðurkenndir og í fullum rekstri, skemmtistaðir, vínveitingastaðir, kaffihús, krár og skyndibitastaðir. Til þessa hóps telst einnig ýmis konar óreglubundin veitingastarfsemi sem stunduð er í íþróttaheimilum, félagsheimilum, safnaðarsölum, skólum o.fl., ýmist tímabundið eða varanlega.
     b.      Veitingasala er oft með þeim hætti að viðskiptavinurinn á þess engan kost að fylgjast með hvort sala sé skráð í sjóðvél. Afhending vöru eða þjónustu fer oft og tíðum þannig fram að sjóðvél er ekki í námunda og því á ekki við það venjulega eftirlit sem viðskiptamaðurinn hefur með seljandanum.
     c.      Það hefur einkennt þessa atvinnugrein að mjög er breytilegt hversu stöðug hún er. Iðulega skiptir atvinnurekstur um einkenni, þ.e. að reksturinn kemst í þrot en er endurvakinn undir annarri kennitölu. Atvinnurekstur er einnig nokkuð sveiflubundinn og sumar tegundir veitingahúsa komast í tísku tiltölulega stuttan tíma og reksturinn varir því óeðlilega skamman tíma. Inn í þessa atvinnugrein koma einnig margir nýir aðilar sem staldra stutt við og snúa sér að öðru. Allt þetta er einkenni óstöðugs eða breytilegs rekstrar. Í slíku umhverfi verða skattskilin oft og tíðum verri.
     d.      Starfsfólk í þessari atvinnugrein kemur og fer talsvert örar en í öðrum atvinnugreinum, fjöldi aðstoðarfólks er venjulega mikill og er oftar en ekki í hlutastarfi. Talið er að margir þeirra reyni að fá laun sín dulin og slíkt hefur viljað loða við þessa atvinnugrein meira en margar aðrar.

     2.      Hvernig er staðið að eftirliti með skattskilum aðila í veitingarekstri?
    Í athugunum sem fram hafa farið á undanförnum árum hefur þessi atvinnugrein, veitingasala, komið fram sem eins konar „áhættuatvinnugrein“. Í kjölfar þess hafa skattyfirvöld haft margs konar eftirlit með greininni. Nýir aðilar á skrá hafa verið skoðaðir sérstaklega vel og endurgreiðslubeiðnir veitingahúsa hvað matvæli varðar hafa sætt ítarlegri skoðun. Veitingahús, staðir þar sem framreiðsla fer fram og matsölustaðir hafa verið heimsóttir og leiðbeiningar gefnar.
    Í eftirlitsáætlunum þeim, sem skattstjórar og ríkisskattstjóri gera sameiginlega á hverju ári, var á árunum 1993–2005 ákveðið að taka samtals rúmlega 300 aðila í hótel- og veitingahúsarekstri til skatteftirlits. Þar af var á árinu 2005 ákveðið að taka til eftirlits tæplega 80 aðila sem stunda rekstur hótela, veitingahúsa, veislusala, matsölu o.fl.

     3.      Hversu margir aðilar í veitingarekstri hafa verið teknir til skattrannsóknar á árunum 2005 og 2006?
    Til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra hafa á undanförnum árum komið fjölmargir aðilar sem tilheyra þessari atvinnugrein. Á liðnum áratug og rúmlega það hafa hartnær 100 aðilar sætt rannsókn eða annarri athugun skattrannsóknarstjóra. Helgast það fyrst og fremst af þeirri áhættu sem þessi atvinnugrein er talin hafa frá sjónarhóli skattyfirvalda. Þá hafa nokkrir aðilar í veitingarekstri sætt skattrannsókn oftar en einu sinni á tímabilinu. Skattrannsóknarstjóri hefur haft á þriðja tug aðila til meðferðar árið 2005 og það sem af er 2006.

     4.      Hvernig hefur samstarfi skattstofa og skattrannsóknarstjóra við Samtök ferðaþjónustunnar verið háttað?
    Í gegnum árin hafa skattyfirvöld átt gott og árangursríkt samstarf við Samtök ferðaþjónustunnar og áður Samtök veitinga- og gistihúsa. Samráðsfundir hafa verið haldnir, gagnkvæm ráðgjöf hefur verið veitt og samtökin hafa liðsinnt skattyfirvöldum á margan hátt með upplýsingum og ábendingum. Starfsmenn skattyfirvalda hafa einnig sótt fundi og ráðstefnur veitingamanna og verið þar með fræðsluerindi og upplýsingagjöf. Verkefni þessu lýkur aldrei og samstarf af þessum toga þarf að vera viðvarandi og reglubundið. Frá sjónarhóli skattyfirvalda hefur samvinna við Samtök ferðaþjónustunnar og forvera þess verið með miklum ágætum og innan raða samtakanna hefur verið ríkur vilji til að reka af atvinnugreininni það slyðruorð sem farið hefur af skattskilum hennar. Vilji samtakanna hefur einnig verið skýr til að skerpa á öllum lagaákvæðum og gera þau þannig úr garði að möguleikar til undanskots minnki.