Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 660. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1292  —  660. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Fannýjar Gunnarsdóttur um nemendur í grunn- og framhaldsskólum með annað móðurmál en íslensku.

     1.      Hefur verið kannað hvernig nemendum í grunnskólum sem hafa annað móðurmál en íslensku vegnar í samræmdum prófum í 10. bekk? Hvaða samræmd próf taka þessir nemendur?
    Námsmatsstofnun hefur gert rannsókn byggða á samræmdum prófum í 10. bekk árið 2005 og PISA-rannsókninni sem lögð var fyrir árið 2003. Spurningalistar fylgdu báðum prófunum þar sem nemendur voru m.a. spurðir hvort fyrsta tungumál sem þeir lærðu hefði verið íslenska og hve oft þeir töluðu íslensku heima hjá sér. Almennt eru nemendur þó ekki flokkaðir eftir þjóðerni í könnunum sem lagðar eru fyrir í grunn- og framhaldsskólum.
    Á samræmdu prófi vorið 2005 reyndust nemendur með annað móðurmál en íslensku standa sig nokkuð lakar í íslensku en nemendur almennt miðað við landsmeðaltal. Þegar litið er á árangur þessa nemendahóps út frá niðurstöðum í PISA-rannsókninni 2003 reyndist frammistaða þeirra í íslensku einnig vera lakari en hjá öðrum nemendum, sem ekki kemur á óvart.
    Niðurstöðum úr PISA-rannsókninni 2003 og samræmdum prófum árið 2005 ber hins vegar ekki saman þegar skoðuð er frammistaða þessara nemenda í stærðfræði. Samræmt próf vorið 2005 benti til svipaðrar færni í stærðfræði í 10. bekk hjá báðum nemendahópunum. Niðurstöður í PISA 2003 bentu hins vegar til lakari frammistöðu nemenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
    Rétt er að benda á að frá því vorið 2001 hafa samræmd próf í 10. bekk verið valfrjáls fyrir nemendur og jafnframt að árið 2002 urðu prófin sex í stað fjögurra áður. Með þessu fyrirkomulagi er ekki ólíklegt að nemendur sem dvalið hafa á landinu í stuttan tíma kjósi síður að þreyta samræmd próf en jafnaldrar þeirra sem hafa íslensku að móðurmáli.
    Ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hvaða samræmd próf nemendur með annað móðurmál en íslensku þreyta.

     2.      Hversu margir af þessum nemendum fara í frekara nám þegar grunnskóla lýkur og hversu margir út á vinnumarkaðinn? Í hvers konar nám hafa nemendurnir farið?

    Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi atriði en fyrirhugað er að kanna þau.

     3.      Er nemendum með annað móðurmál en íslensku tryggður sérstakur stuðningur í framhaldsskólum landsins?

    Nemendur í framhaldsskólum með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, og reglugerð nr. 329/1997. Í reglugerðinni segir m.a. að menntamálaráðherra geti heimilað framhaldsskóla að stofna til sérstaks grunnnáms í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Miða skuli námið að því að treysta kunnáttu nemenda í íslensku og efla skilning þeirra á hugtökum í námsgreinum til undirbúnings námi í framhaldsskóla.
    Eftirfarandi framhaldsskólar bjóða nemendum með annað móðurmál en íslensku svokallaða ÍSA-áfanga (íslenska sem annað móðurmál):
    Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn í Kópavogi og Iðnskólinn í Reykjavík, en við þann skóla er starfrækt sérstök nýbúabraut. Á undanförnum árum hafa verið fjölmargir nemendur af erlendum uppruna við Iðnskólann í Reykjavík.
    Nú á vorönn 2006 eru nemendurnir 84 talsins af 35 þjóðernum. Flestir koma frá Taílandi eins og undanfarnar annir, ellefu talsins; átta nemendur eru frá Víetnam, sjö frá Litháen og Póllandi, sex frá Filippseyjum og fimm frá Rússlandi. Frá öðrum löndum er ýmist þrír, tveir eða einn nemandi. Þá má nefna að nú á vorönn 2006 er unnið að sérstöku tilraunaverkefni í Iðnskólanum í Reykjavík sem hluti af verkefninu Framtíð í nýju landi og nær til ungra Víetnama. Þrír víetnamskir nemendur fá sérstakan stuðning í fjórum bóklegum greinum, samtals þrjár kennslustundir á viku. Þarna er um að ræða nemendur sem áður höfðu gefist upp á framhaldsskólanámi vegna ónógrar íslenskukunnáttu. Ráðuneytið greiðir þessa stuðningskennslu sem ef til vill gæti orðið fyrirmynd að því hvernig hægt væri að koma til móts við nemendur af erlendum uppruna í framhaldsskólum.

     4.      Hefur verið kannað hvort marktækur munur er eftir kyni á skólasókn og árangri umræddra nemenda í grunn- og framhaldsskólum?
    Ráðuneytið hefur ekki látið kanna sérstaklega hvort marktækur munur sé eftir kyni á skólasókn og árangri nemenda með annað móðurmál en íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Ekki er sérstaklega leitað upplýsinga um stöðu þessara nemenda í reglulegri gagnasöfnun um starfsemi íslenskra skóla af Hagstofu Íslands. Ráðuneytið telur eigi að síður mikilvægt að þeir sem annast fræðslu barna og ungmenna séu vakandi fyrir stöðu þessa hóps og geri það sem í þeirra valdi stendur til að gera honum kleift að nýta sér það sem skólakefið hefur að bjóða. Til athugunar er að Hagstofa Íslands, sem safnar reglulega gögnum um skólahald, hugi sérstaklega að stöðu þessa hóps í framtíðinni. Einnig er hægt að upplýsa að staða umræddra nemenda hefur verið til umræðu á samstarfsnefndarfundum sem ráðuneytið á reglulega með skólameisturum framhaldsskólanna. Þá hefur verið lögð áhersla á þjónustu við nemendur með annað móðurmál en íslensku í samningum sem ráðuneytið gerir við alla framhaldsskólana um áherslur og markmið í skólastarfinu.

     5.      Hefur staða þessa hóps verið skoðuð sérstaklega í tengslum við fyrirhugaða styttingu náms til stúdentsprófs?

    Í tengslum við vinnu við breytta námsskipan til stúdentsprófs hefur sérstaklega verið hugað að þessum hópi. Í fyrsta lagi er verið að endurskoða námskrá fyrir nemendur með annað tungumál, Íslenska sem annað tungumál, og mun sú námskrá taka gildi bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla þegar breytt námsskipan hefst. Í öðru lagi er að hefjast vinna við endurskoðun á almennri námsbraut framhaldsskólans í samræmi við samkomulag á milli ráðuneytisins og Kennarasambands Íslands og í þeirri endurskoðun mun sérstaklega hugað að stöðu þeirra sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli. Í þriðja lagi má nefna að Námsgagnastofnun er að vinna að nýju námsefni fyrir þennan nemendahóp á grunnskólastigi.