Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1301  —  700. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Erlu Pálmadóttur um endurhæfingu á Reykjalundi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að endurhæfingu sem fólk hefur fengið á Reykjalundi verði fylgt eftir í heimahéraði með sérstöku samkomulagi þar um, þar sem fjármagn fylgir?
     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að stækka og efla Reykjalund með það fyrir augum að biðlistar þar, sem m.a. er talið að séu allt upp í 5–7 ár á gigtar- og verkjasviði, styttist eða leggist af?


    Á Reykjalundi fer fram mikilvægt endurhæfingarstarf. Innan ráðuneytisins er verið að skoða málefni endurhæfingar sérstaklega; hver þörfin er fyrir endurhæfingu og hvernig best sé að mæta þeirri þörf. Meðal annars er í athugun hvort er hvort nýta megi betur almennar heilbrigðisstofnanir í þessu skyni. Með bættum samgöngum hefur bráðahlutverk ýmissa heilbrigðisstofnana minnkað verulega og víða má finna ágætis aðstöðu til þjálfunar. Fyrirhugað er að kanna hvort heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins geti axlað stærra hlutverk í endurhæfingarmálum almennt og í því skyni hefur m.a. verið veitt heimild til þess að ráða endurhæfingarlækni í hlutastöðu við heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki.
    Hvað varðar síðari hluta fyrirspurnarinnar þá var í lok síðasta árs, við gerð þjónustusamnings til ársloka 2008 milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjalundar, ákveðið að auka fjárframlög til stofnunarinnar og bæta við þjónustu. Um er að ræða aukningu sem nemur 15 millj. kr. til göngudeildarstarfsemi og 45 millj. kr. til næringarsviðs á samningstímanum. Auk þess voru greiddar 20 millj. kr. á síðasta ári vegna aukinnar starfsemi á næringarsviði. Samtals mun rekstrargrunnur hækka um 60 millj. kr. á tímabilinu og kemur til framkvæmda á eftirfarandi hátt:
          Vegna næringarsviðs verður rekstrargrunnur hækkaður um 15 millj. kr. árið 2006 og um 30 millj. kr. árið 2007. Um er að ræða verulega aukningu á þjónustu því hægt verður að veita 90–110 sjúklingum þjónustu á ári hverju frá 2007 í stað 25 árið 2004. Gert er ráð fyrir að með þessu verði hægt að stytta biðlista verulega.
          Vegna göngudeildar verður rekstrargrunnur hækkaður um 5 millj. kr. árið 2006 og um 10 millj. kr. árið 2007, samtals 15 millj. kr. Gert er ráð fyrir að komur á göngudeild verði allt að 4.500 á ári en þær voru árið 2004 rúmlega 2.100. Vonast er til að þessi aukning muni létta á þeim biðlistum sem eru nú eftir innlögn á Reykjalund.
    Í fyrirspurninni er sérstaklega vísað til biðlista á gigtar- og verkjasviði, sem fyrirspyrjandi hefur fengið upplýsingar um að geti orðið allt að 5–7 ár. Bið eftir innlögn á gigtarsvið Reykjalundar hefur verið talin nema um tveimur árum samkvæmt biðlista stofnunarinnar og meðalbiðtími á verkjasviði er rúmlega hálft ár. Nú stendur yfir endurskoðun á skráningu biðlista á gigtarsviði þar sem sjórnendur Reykjalundar telja að bilistinn gefi ekki rétta mynd af stöðunni og búast þeir við að niðurstaða þeirrar endurskoðunar muni sýna fram á talsvert styttri biðtíma og talsverða fækkun þeirra sem bíða.