Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 768. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1308  —  768. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um störf í álverum.

    Svör við 1.–3. tölul. fyrirspurnarinnar byggjast á upplýsingum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

     1.      Hve mörgum störfum er gert ráð fyrir við álver við Húsavík og hve mörgum störfum við stækkun álversins í Straumsvík, ef af verður?
    Samkvæmt áætlun Alcoa er gert ráð fyrir að í nýju álveri við Húsavík með um 250.000 tonna ársframleiðslugetu muni starfa um 300 manns: 17% háskólamenntaðir, 21% iðnmenntaðir og 62% með almenna menntun með sérhæfða fagþjálfun í rekstri álvers.
    Samkvæmt upplýsingum frá Alcan á Íslandi er gert ráð fyrir að við framleiðsluaukningu álversins í Straumsvík um 280.000 tonn á ári þurfi að fjölga starfsmönnum um 300 manns.

     2.      Hve mörg störf má ætla að tapist vegna ruðningsáhrifa og verri skilyrða í öðrum greinum?
    Engar rannsóknir liggja fyrir um störf sem kynnu að færast frá öðrum atvinnugreinum vegna umræddra álvera. Störf í nýjum álverum eru viðbót við þau störf sem fyrir eru á vinnumarkaði. Ef atvinnuleysi er lítið í þjóðfélaginu á þeirri stundu sem ráðningar í ný álver eiga sér stað má gera ráð fyrir að margir þeirra sem ráðnir verða komi úr öðrum störfum. Fræðilega séð mundu því jafn mörg störf losna annars staðar. Hins vegar verður endurnýjun og fjölgun á vinnumarkaði, sem árlega nemur um 1.500 störfum á landsvísu (meðaltal áranna 1991–2004). Árleg fjölgun fólks á vinnumarkaði er því miklu meiri en nemur áætluðum störfum í umræddum álverum, sbr. svar við 1. tölulið.

     3.      Er gert ráð fyrir að afleidd störf séu fleiri í tengslum við álframleiðslu en í öðrum greinum, svo sem sjávarútvegi, heilsutengdri ferðaþjónustu, rannsóknum og hátæknistarfsemi?
    Í skýrslu Nýsis hf. um samfélagsleg áhrif af álveri á Norðurlandi eru áætlanir um afleidd störf byggðar á reynslu og rannsóknum erlendis frá. Þannig er áætlað að afleidd störf af álveri við Húsavík með 300 starfsmönnum verði 600–750. Þar af verði 150–200 störf til á og í nánd við Húsavík, 150–200 störf annars staðar á Norðurlandi og 300–350 störf utan Norðurlands. Alls muni því álverið skapa umsvif sem samsvara 900–1.050 störfum. Þetta jafngildir margfeldisáhrifum sem nemur 2,0–2,5.
    Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif álverksmiðju Fjarðaáls í Reyðarfirði er beitt svonefndri aðfanga-afurðagreiningu til að kanna langtímaáhrif álversins. Niðurstaðan gerir ráð fyrir 383 föstum langtímastörfum og 548 óbeinum og afleiddum störfum, samtals 931 starfi. Margfeldisáhrifin nema þannig 1,43.
    Eins og þessar tölur bera með sér er nokkur óvissa um margfeldisáhrif af starfsemi álvera og má gera ráð fyrir að svipaða sögu sé að segja um aðra atvinnustarfsemi. Engin greining hefur átt sér stað á raunverulegum margfeldisáhrifum af rekstri þeirra álvera sem nú starfa á Íslandi, svo kunnugt sé, né heldur í öðrum atvinnugreinum, og því ekki hægt að segja til um hvort afleidd störf eru fleiri í tengslum við álframleiðslu en í öðrum atvinnugreinum.

     4.      Á hvaða forsendum hvíla fullyrðingar ráðherra um að hagvöxtur verði 5–6% meiri en ella og tekjur ríkissjóðs 10–15 milljörðum kr. meiri ef af fyrrnefndum álversframkvæmdum verður?

    Byggt er á upplýsingum frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.