Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 744. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1322  —  744. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti.
    Umsagnir um málið bárust frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Orkustofnun, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssambandi Vestfjarða, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Alþýðusambandi Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að verksvið núverandi Vísinda- og tækniráðs samkvæmt lögum nr. 2/2003 verði víkkað svo að það nái einnig til nýsköpunar og atvinnuþróunar. Jafnframt er lagt til að nafni ráðsins verði breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð og að tækninefnd þess verði kölluð nýsköpunarnefnd í samræmi við víkkað svið auk þess sem lagt er til að fjölgað verði í ráðinu um tvo fulltrúa.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að af frumkvæði Vísinda- og tækniráðs hefði verið unnið að sameiningu rannsóknastofnana og að afrakstur þess væri tvö frumvörp sem lægju fyrir þinginu. Hið fyrra um stofnun Matvælarannsókna hf. og hið síðara um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Kom fram að með sameiningu rannsóknastofnananna væri verið að stíga skref til að sameina og samþætta tæknirannsóknir og stuðningsumhverfi atvinnulífsins. Þá kom einnig fram að í ljósi reynslunnar af starfi Vísinda- og tækniráðs væri talið rétt að útvíkka starfsemi ráðsins og fela því einnig að fjalla um atvinnuþróunarmál, þ.e. málefni er tengjast vexti og viðgangi atvinnulífs og þá þætti sem hafa áhrif á þróun þess. Telur meiri hlutinn að með því skapist heildarsýn sem er mikilvæg við stefnumörkun stjórnvalda í þessum málefnum.
    Meiri hlutinn fellst á markmið frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt.

Alþingi, 30. maí 2006.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Birgir Ármannsson.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.