Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 701. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1391  —  701. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Erlu Pálmadóttur um verð dýralyfja og dýralæknakostnað.

     1.      Hversu mikið hafa tollar á dýralyf fyrir húsdýr hækkað sl. 10 ár og hversu mikið hefur meðalkostnaður við lyfin hækkað samkvæmt búreikningum?
    Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóraembættinu eru ekki lagðir innflutningstollar á lyf.
    Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um hækkun á verði dýralyfja sérstaklega þar sem lyfjakostnaður er ekki sérgreindur í búreikningum. Í búreikningum er hins vegar að finna upplýsingar um lyfja- og dýralæknakostnað samtals fyrir sérhæfð sauðfjárbú og sérhæfð kúabú. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur meðallyfja- og dýralæknakostnaður á sérhæfðum kúabúum á 10 ára tímabilinu 1995–2004 hækkað um 83,6% á föstu verðlagi. Hafa ber til hliðsjónar að meðalkúabúið í uppgjöri búreikninga hefur stækkað úr 26 mjólkurkúm 1995 í 33,6 mjólkurkýr 2004. Reiknað á mjólkurkú var lyfja- og dýralæknakostnaður 5.916 kr./kú árið 1995 samanborið við 8.404 kr./kú árið 2004. Hækkun nemur 42,1% á verðlagi ársins 2004.
    Lyfja- og dýralæknakostnaður á sérhæfðum sauðfjárbúum á sama tímabili og samkvæmt sömu forsendum lækkaði um 1,9% á föstu verðlagi. Hafa ber til hliðsjónar að meðalsauðfjárbúið í uppgjöri búreikninga hefur stækkað úr 281,5 vetrarfóðruðum kindum árið 1995 í 319,8 vetrarfóðraðar kindur árið 2004. Reiknað á vetrarfóðraða kind var lyfja- og dýralæknakostnaður 183 kr./kind árið 1995 samanborið við 158 kr./kind árið 2004. Lækkun nemur 13,7% á verðlagi ársins 2004.

     2.      Hafa áhrif af hækkun lyfjaverðs á mjólkurverð verið greind?
    Frá febrúar 2000 til febrúar 2006 hefur hlutur lyfja í verðlagsgrundvelli kúabúa hækkað um 24,4% samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
    Hver áhrif þessa kostnaðar eru á verð mjólkur hefur ekki verið greint, sbr. svar við 1. lið.

     3.      Hvernig hefur aksturskostnaður dýralækna þróast og er þróunin í samræmi við gjaldskrár ríkisins?
    Aksturskostnaður dýralækna fylgir aksturstöxtum ferðakostnaðarnefndar en samkvæmt samkomulagi landbúnaðarráðuneytisins og Dýralæknafélags Íslands er greitt 15% álag á þá taxta.

     4.      Telur ráðherra að lög nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, þar sem eftirlitsstörf og almennar dýralækningar voru m.a. greind að, hafi orðið bændum til hagsbóta?
    Með lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, voru eftirlitsstörf og dýralækningar að fullu aðskilin í þremur umdæmum, þ.e. í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi, Gullbringu- og Kjósarumdæmi og í Suðurlandsumdæmi. Telja má að þetta hafi orðið bændum til hagsbóta í þessum umdæmum m.a. vegna þess að eftirlitsstörf urðu samræmdari í umdæmunum miðað við þá skipan sem áður gilti, þegar eftirlitið var útfært af mörgum héraðsdýralæknum, t.d. í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi og í Suðurlandsumdæmi. Breytingin hafði einnig í för með sér að komið var á svokölluðu vaktakerfi dýralækna sem tryggði bændum aðgang að dýralækni á vakt allan sólarhringinn alla daga ársins. Í þessu sambandi má einnig benda á að ekki fer saman, frá sjónarmiðum stjórnsýslu, að sömu aðilar og sinna þjónustu og ráðgjöf fyrir bændur annist jafnframt eftirlit með búum þeirra.

     5.      Hversu mikið hafa greiðslur bænda vegna lögboðins eftirlits dýralækna- og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga aukist sl. 10 ár?
    Upplýsingar liggja ekki fyrir.