Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1400  —  180. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum.


Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Thors frá Skipulagsstofnun og Ingibjörgu Halldórsdóttur og Sigurð Ármann Þráinsson frá umhverfisráðuneyti. Samhljóða frumvarp var lagt fram á 131. löggjafarþingi og barst þá fjöldi umsagna sem nefndin hefur haft til hliðsjónar við umfjöllun sína.
    Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem umhverfisráðherra skipaði til að gera tillögur um það með hvaða hætti unnt væri að binda leyfum töku efna úr eldri námum. Með eldri námum er átt við námur sem starfræktar voru fyrir 1. maí 1994 þegar ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi, og fyrir 1. janúar 1998 þegar skipulags- og byggingarlög tóku gildi.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Ný ákvæði um efnistöku voru tekin upp við setningu þeirra. Fjallar VI. kafli laganna um nám jarðefna og er í 2. mgr. 47. gr. þeirra kveðið á um að öll efnistaka sé háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Verði frumvarp þetta að lögum verður efnistaka á eldri efnistökusvæðum gerð framkvæmdaleyfisskyld í tveimur áföngum.
    Er í fyrri áfanga gert ráð fyrir að eftir 1. júlí 2008 þurfi framkvæmdaleyfi frá sveitarstjórn fyrir efnistöku úr eldri námum þegar þau skilyrði eru uppfyllt sem talin eru upp í a–d-lið í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Í þessum áfanga er sjónum beint að þeim námum sem væru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar ef um nýja efnistöku væri að ræða.
    Í seinni áfanga er gert ráð fyrir að eftir 1. september 2012 hafi allar starfandi námur fengið framkvæmdaleyfi frá sveitarstjórn. Eftir framangreint tímamark skulu sömu reglur gilda um allar námur í landinu og verður efnistaka þá samræmd með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum og öll efnistaka framkvæmdaleyfisskyld.
    Megintilgangur frumvarpsins er að koma á eftirliti með efnistöku í landinu þannig að hún fari fram í sátt við umhverfið. Auk þess liggja samkeppnissjónarmið að baki því að þeir sem vinni efni úr námum lúti sömu reglum. Hins vegar eru tímamörkin höfð rúm af tillitssemi við þá sem lögin gilda um, verði frumvarpið að lögum. Þeim sem stunda efnistöku er með þessum hætti veittur sanngjarn frestur til að sækja um framkvæmdaleyfi og laga sig að breyttu lagaumhverfi.
    Í c-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um að framkvæmdaleyfi þurfi fyrir framkvæmd ef áætluð er stækkun tveggja eða fleiri efnistökustaða vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði um 25.000 m 2 eða meira. Um það var rætt í nefndinni hvort hugtakið „sama svæði“ í þessu ákvæði væri of óljóst og gæti valdið túlkunarvandkvæðum. Erfitt getur verið að skilgreina þetta nákvæmar og hægt að halda því fram að þetta hugtak kalli á túlkun. Hins vegar samræmist hugtakið lögum um mat á umhverfisáhrifum og ekki kæmu síður upp túlkunarvandkvæði ef mismunandi hugtök yrðu notuð í lögunum. Þá var einnig um það rætt í nefndinni hvort ákvæði frumvarpsins ættu fremur heima í skipulags- og byggingarlöggjöf. Má í því sambandi benda á það sem nefnt er hér að framan að ný ákvæði um efnistöku voru tekin upp við setningu gildandi laga um náttúruvernd. Telja verður að það sé eðlilegt framhald að ákvæði þessa frumvarps verði lögfest í sama lagabálki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júní 2006.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.



Gunnar Örlygsson.


Mörður Árnason.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.