Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 698. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1412  —  698. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðjóns Hjörleifssonar um framkvæmdir á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær er áætlað að ljúka framkvæmdum á 3. hæð í suðurálmu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, en framkvæmdum í austurálmunni lauk 2004?
     2.      Hver er áætlaður kostnaður við verkið?
     3.      Hver var kostnaður við þær framkvæmdir sem þegar er lokið, en í upphafi voru áætlaðar 150 millj. kr. í framkvæmdir á hæðinni?


    Samið var um endurbætur á Sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum í mars 2001. Tók sá samningur til endurbóta á 2. og 3. hæð hússins en framkvæmdum í kjallara var frestað. Umsamið verk skyldi unnið á árunum 2001 til og með 2003. Á verktímanum varð ljóst að gera þurfti endurbætur í kjallara til að koma þar fyrir nýju loftræstikerfi. Vegna þeirra framkvæmda var dregið úr framkvæmdum á 3. hæð hússins. Verkið var unnið í tveimur áföngum og var lokaúttekt seinni áfanga í júlí 2004.
    Þar sem ekki liggja fyrir ákvarðanir um fjárveitingar til framhalds verksins er ekki unnt að svara því hvenær lokið verður við framkvæmdir.
    Áætlaður kostnaður við að ljúka framkvæmdum á 3. hæð er um 45 millj. kr. en lokaframkvæmdir í kjallara eru taldar kosta um 15 millj. kr. eða samtals um 60 millj. kr.
    Heildarkostnaður við þær endurbætur sem þegar hafa verið gerðar er 152 millj. kr.