Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 8  —  8. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ögmundur Jónasson, Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að fella brott heimild iðnaðarráðherra til að leyfa gerð Norðlingaölduveitu, í samræmi við skilyrði er fram koma í úrskurði setts umhverfisráðherra, dags. 30. janúar 2003. Samhljóða frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en komst ekki á dagskrá.
    Með lögum nr. 67/2003 var iðnaðarráðherra m.a. heimilað að leyfa gerð Norðlingaölduveitu. Þá höfðu um nokkurt skeið staðið yfir viðræður milli Landsvirkjunar, stjórnvalda og Norðuráls hf. um stækkun álvers fyrirtækisins á Grundartanga.
    Þann 30. janúar 2003 kvað settur umhverfisráðherra upp úrskurð vegna kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar ákvörðun um að fallast á lónhæð Norðlingaöldulóns 578 m.y.s. Að öðru leyti var fallist á úrskurð Skipulagsstofnunar með nokkrum viðbótarskilyrðum. Meðal þeirra voru veituframkvæmdir norðan friðlandsins þar sem vatni úr upptakakvíslum Þjórsár skyldi veitt í Þórisvatn fram hjá farvegi Þjórsár.
    Í lögum nr. 67/2003 er heimild iðnaðarráðherra til að veita leyfi til gerðar Norðlingaölduveitu bundin þeim skilyrðum sem fram koma í úrskurði setts umhverfisráðherra. Í umræðum á Alþingi um frumvarpið kom skýrt fram að öll útfærsla væri því háð að um málið væri samstaða milli Landsvirkjunar, Umhverfisstofnunar og sveitarstjórna sem málið snerti. Þar kom einnig fram að úrskurður ráðherra miðaðist við lónhæð 566 m.y.s. Þá var í umræðum bent á það að skynsamlegast hefði verið að fresta málinu þar til fyrir lægi rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem þá var langt komin.
    Eftir uppkvaðningu úrskurðarins vann Landsvirkjun í samráði við Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarfélög að athugun á nánari útfærslu veitunnar er tæki mið af skilyrðum í úrskurði ráðherra. Ekki hefur náðst sú sátt á milli hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar sem áskilin er í úrskurðinum og hefur hreppsnefndin fyrir sitt leyti hafnað málaleitan Landsvirkjunar um frekari framkvæmdir við Norðlingaölduveitu. Fyrir vikið eru allar slíkar áætlanir nú í öngstræti. Með úrskurði umhverfisráðherra frá því fyrir áramótin um skipulagstillögu samvinnunefndar miðhálendisins eru öll framkvæmdaráform á svæðinu aftur komin á byrjunarreit.
    Allir helstu fræðimenn og áhrifamenn um náttúrufar og umhverfisvernd telja Þjórsárver einhverja dýrmætustu náttúruperlu Íslendinga. Í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem birt var 2004, ári eftir samþykkt laganna á Alþingi, fær Þjórsárverasvæðið hæstu einkunn allra athugunarsvæða hvað náttúru og umhverfi varðar og þó að rammaáætlunin hafi ekki fengið neina þinglega meðferð eða hlotið formlega stöðu innan stjórnsýslunnar þá eru vísbendingar um verndargildi Þjórsárvera óyggjandi. Í rammaáætluninni var raunar miðað við önnur áform um Norðlingaölduveitu en úrskurður setts umhverfisráðherra gerir ráð fyrir. Þau áform hafa því miður ekki verið metin á sama hátt, og hafa ekki sætt umhverfismati.
    Flutningsmenn telja að í ljósi verndargildis svæðisins og gagna sem fram eru komin á síðustu missirum sé rétt að hætta við öll áform um orkuframkvæmdir á Þjórsárverasvæðinu.
    Frumvarpið er flutt í tengslum við tillögu til þingsályktunar sem sex þingmenn í umhverfisnefnd flytja um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Nái sú tillaga fram að ganga mun Norðlingaölduveita ekki rúmast innan hins stækkaða Þjórsárverafriðlands og því eðlilegt að hún verði felld út úr lögum um raforkuver eins og hér er gerð tillaga um.