Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 23  —  23. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að lækka matvælaverð.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir,
Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Valdimar L. Friðriksson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að lækkun matvælaverðs. Eftirfarandi meginmarkmið verði lögð til grundvallar:
     1.      Vörugjöld á matvæli verði felld niður.
     2.      Tollar á matvæli verði felldir niður í áföngum og við það miðað að 1. júlí nk. verði helmingur þeirra afnuminn. Niðurfelling eftirstandandi tolla verði ákveðin að höfðu samráði við hagsmunasamtök bænda og neytenda.
     3.      Virðisaukaskattur á matvæli verði samræmdur þannig að 7% virðisaukaskattur verði lagður á öll matvæli.
     4.      Í samráði við bændur verði fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað breytt m.a. til að gera bændum kleift að aðlagast aukinni samkeppni vegna innflutnings. Auk þess verði gerður sérstakur tímabundinn aðlögunarsamningur við bændur fyrir 1. júlí nk. vegna niðurfellingar tollverndar.
     5.      Samkeppnis- og verðlagseftirlit á matvælamarkaðinum verði stóraukið.

Greinargerð.


    Með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram er hægt að lækka matarreikning heimilanna um 200 þús. kr. á ári þegar hún er að fullu komin til framkvæmda. Matvælakostnaður hvers heimilis er að meðaltali 750 þús. kr. á ári og tillögur Samfylkingarinnar mundu því lækka matarreikninginn um rúmlega fjórðung sem væri gríðarleg lífskjarabót fyrir almenning. Til viðbótar kemur til verulegur sparnaður fyrir þjóðarbúið þegar framleiðsla bænda breytist frá því að vera í takt við opinbert styrkjakerfi og til þess að mæta þörfum og eftirspurn neytenda.
    Þær aðgerðir sem hér eru lagðar til koma í beinu framhaldi af tillögum, fyrirspurnum og umræðum sem Samfylkingin hefur staðið fyrir á Alþingi vegna hás matvælaverðs. Um árabil hefur Samfylkingin haft forystu á Alþingi um margvíslegar aðgerðir sem miða að því að lækka matvælakostnað. Í því sambandi má nefna þingsályktun um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi sem Samfylkingin flutti og samþykkt var á 128. löggjafarþingi. Forsætisráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna skýrslu um málið sem út kom á vordögum 2004. Þá flutti Samfylkingin frumvarp bæði á 130. og 131. löggjafarþingi um að lækka lægra þrep virðisaukaskatts úr 14% í 7% en í því eru flest mikilvægustu matvæli landsmanna.
    Matarverð á Íslandi er með því hæsta í heiminum og það er 50% hærra en að meðaltali hjá nágrannaþjóðunum innan ESB. Hátt verð á matvælum á Íslandi er að miklu leyti heimatilbúinn vandi sem er ekki hægt að útskýra með legu landsins eða fámenni. Vissulega hefur lega landsins, loftslag og fjarlægð frá alþjóðlegum mörkuðum áhrif en við þessum íþyngjandi ytri skilyrðum verða stjórnvöld að bregðast með því að skapa sem best skilyrði í stað þess að íþyngja neytendum enn frekar með tollum, gjöldum og innflutningstarkmörkunum.
    Þrjár skýrslur á jafn mörgum árum, unnar af þremur mismunandi stofnunum, leiða í ljós að helstu áhrifavaldar hás matvælaverðs eru viðskiptahindranir í formi vörugjalda og tolla, virðisaukaskattur og fákeppni í heildsölu og smásölu. Þess vegna leggur Samfylkingin til að stefnt verði að því að fella niður vörugjöld og tolla á matvælum, virðisaukaskattur verði lækkaður og samkeppnis- og verðlagseftirlit verði styrkt verulega.
    Núverandi landbúnaðarstefna er gölluð í veigamiklum atriðum sem sést best á því að skattgreiðendur greiða fyrir eitt dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi samkvæmt úttektum OECD, neytendur greiða eitthvert hæsta matarverð í heimi samkvæmt fjölmörgum könnunum og á sama tíma búa bændur við þrengri kost en þeir þyrftu og stöðugt fækkar í sveitum landsins. Ein sterkasta röksemdin fyrir nýju kerfi í landbúnaðarmálum er sú staðreynd að í vissum tilvikum fær bóndinn einungis um 20–40% af útsöluverði vörunnar í sinn hlut.
    Þessu kerfi vill Samfylkingin breyta og innleiða atvinnufrelsi og samkeppni í landbúnaði eins og öðrum atvinnugreinum sem yrði öllum aðilum til hagsbóta þegar fram líða stundi. Afnám innflutningsverndar fyrir innlendar búvörur hefur hins vegar í för með sér miklar breytingar á starfsumhverfi bænda. Það kallar bæði á tímabundar aðgerðir og varanlegar breytingar á fyrirkomulagi stuðnings við bændur. Þess vegna leggur Samfylkingin áherslu á að slíkar breytingar verði unnar í fullu samráði við bændur. Auk þess leggur Samfylkingin til að gerður verði tímabundinn aðlögunarsamningur við bændur fyrir 1. júlí á næsta ári þegar tollar á matvælum verða lækkaðir um helming. Hefur Samfylkingin fulla trú á að innlend landbúnaðarvara standist ágætlega samkeppnina við innflutta vöru, ef rétt er á málum haldið, og minnir í því sambandi á að við niðurfellingu tollverndar á gúrkum, tómötum og paprikum lækkaði ekki einungis verðið til neytenda heldur jókst salan á innlendu grænmeti umtalsvert þegar bændur löguðu sig að frjálsri samkeppni. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu um framkvæmd búvörusamninga frá árinu 2005. Jafnframt kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2004 að annað grænmeti hafi lækkað í verði í kjölfarið.
    Aðgerðir Samfylkingarinnar til lækkunar matvælaverðs munu ekki aðeins hafa áhrif á verð landbúnaðarvara sem eru í beinni samkeppni heldur munu þær einnig lækka verð á svokallaðri staðkvæmdarvöru en það eru vörutegundir sem geta komið í staðinn fyrir landbúnaðarafurðir, svo sem safar í stað mjólkur, pasta í stað kjöts, hrísgrjón í stað kartaflna o.s.frv. Færa má rök fyrir því að verð á þessari vöru sé hærra en tilefni er til þar sem hún nýtur skjóls af háu vöruverði á landbúnaðarafurðum. Þessar tillögur hefðu því mjög víðtæk og jákvæð áhrif á verðlag í landinu og verulegan þjóðhagslegan sparnað.

Margar úttektir á leiðum til að lækka matvælaverðið.
    Úttektir og skýrslur sem gerðar hafa verið á síðustu árum um matvælaverð á Íslandi sýna allar að verðlag á matvælum er mun hærra hér á landi en meðalverðið í nágrannalöndunum innan ESB. Má þar nefna skýrslur OECD, skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kom út 2004, skýrslu norrænna samkeppnisyfirvalda frá 2005 og nú síðast skýrslu formanns nefndar sem forsætisráðherra skipaði 16. janúar 2006 til þess að fjalla um helstu orsakir hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur sem miðuðu að því að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í nágrannaríkjunum (hér eftir nefnd skýrsla formanns matvælaverðsnefndar).     Í könnun sem Eurostat, tölfræðistofnun Evrópusambandsins, gerði vorið 2001 kom í ljós að verð matvara á Íslandi var um 50% hærra en að meðaltali í Evrópusambandinu. Matvörukarfa sem fékk meðaltalsgildið 100 í ESB fékk gildið 154 á Íslandi. Í skýrslu frá Samkeppniseftirlitinu frá 2005 kemur fram að þá hafi matvælaverð verið 42% hærra hér á landi en annars staðar í Evrópu. Verðlagseftirlit ASÍ gerði könnun á matvöruverði í verslunum í höfuðborgum Norðurlandanna í maí 2006. Þar kemur fram að verðið á matarkörfu með algengum undirstöðumatvælum sker sig úr í Reykjavík og Ósló, er 48–54% hærra en í Kaupmannahöfn og Helsinki og 85–90% hærra en í Stokkhólmi. Einnig má benda á gagnlega skýrslu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar og á skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál um orsakir fyrir háu matvælaverði hér á landi ásamt fjölmörgum könnunum Neytendasamtakanna sem sýna allt að 69% verðmun.
    Niðurstaða þessara úttekta allra hefur verið að aðalorsök hins geypiháa matvælaverðs á Íslandi séu innflutningstollar. Þar kemur einnig fram að mismunandi ríkidæmi þjóða útskýri ekki þennan mikla verðmun enda margar af samanburðarþjóðunum ríkari en Íslendingar og með meiri kaupmátt en mun lægra matvælaverð.
    Samkvæmt svari forsætisráðherra við fyrirspurn þingmanna Samfylkingarinnar frá árinu 2001 hafði matvælaverð á Íslandi hækkað mest á Norðurlöndunum frá árinu 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

Margvíslegar aðgerðir nauðsynlegar.
    Í skýrslu formanns matvælaverðsnefndar segir: „Þrenns konar tollar og skattar eru nú lagðir á matvæli, tollur af innfluttum matvælum, vörugjöld af innfluttum og innlendum matvörum og virðisaukaskattur. Þessi skattheimta er ómarkviss og ræðst af sjónarmiðum um innflutningsvernd fyrir innlenda framleiðslu, einkum landbúnaðarframleiðslu, neyslustýringu og tekjuöflun ríkissjóðs. Virðisaukaskattur leggst á síðasta stig en tollar og vörugjöld á millistig í viðskiptum og leggst verslunarálagning og virðisaukaskattur því ofan á þessa skatta. Vörugjöld og tollar hafa þannig uppsöfnunaráhrif, brengla verðhlutföll og gefa ranga mynd af undirliggjandi verði. Þá mynda þessi gjöld skjól fyrir óeðlilega hátt verð á samkeppnis- og staðkvæmdarvörum og hið sama gildir um hærra þrep virðisaukaskatts. Tollum, vörugjaldi og tvískiptum virðisaukaskatti af matvælum fylgir kerfi undanþága sem er flókið, tímafrekt og veldur óhagkvæmni í rekstri.“
    Í skýrslunni eru reifaðar leiðir til að lækka matvælakostnað. Þar má nefna niðurfellingu vörugjalda, lækkun tolla o.fl. en hvergi er fjallað um hvaða lagabreytingar þurfi til að framkvæma þær aðgerðir. Lagaumhverfi tolla og vörugjalda er viðamikið og flókið og með þingsályktunartillögu þessari er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa þær breytingar sem gera þarf á lögum.

Niðurfelling vörugjalda.
    Flutningsmenn telja að eitt af því sem þarf að gera til að lækka matvælaverð sé að fella niður vörugjald á matvæli. Vörugjald er lagt á einstakar vörutegundir og er mishátt. Samtök á vinnumarkaði, svo sem Samtök atvinnulífsins, ASÍ, Samtök um verslun og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunarinnar (FÍS) og Samtök ferðaþjónustunnar, hafa lagt mikla áherslu á að breyta þurfi kerfi vörugjalda hvað varðar matvæli.
    Í skýrslu formanns matvælaverðsnefndar kemur fram að tvenns konar viðhorfa gæti nú við beitingu gjaldsins. Annars vegar sé gjaldið notað til neyslustýringar og hins vegar til að vernda innlenda búvöruframleiðslu með því að leggja það á samkeppnis- eða staðkvæmdarvörur mjólkurafurða. Í skýrslunni kemur fram að flest rök hnígi að því að leggja vörugjaldið niður. Margvíslegar ástæður eru taldar upp fyrir þessu. Í fyrsta lagi má nefna að vörugjald hefur uppsöfnunaráhrif þar sem um er að ræða millistig í viðskiptum og ofan á það leggst verslunarálagning og virðisaukaskattur, eins og áður er rakið. Vörugjaldið brenglar því verðhlutföll og gefur ekki rétta mynd af undirliggjandi verði. Í öðru lagi hefur vörugjald áhrif á samkeppnisstöðu þar sem það getur myndað skjól fyrir óeðlilega hátt verð á samkeppnisvörum. Í þriðja lagi má nefna að vörugjald hefur í för með sér óhagræði og kostnað þar sem um er að ræða flókið kerfi við álagningu og vegna undanþága. Með niðurfellingu vörugjalds mundi matvælaverð lækka ásamt því að sú stjórnsýsla sem nú fylgir gjaldinu yrði úr sögunni.
    Samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar námu tekjur ríkissjóðs af vörugjaldi matvæla 1.550 millj. kr. á síðasta ári og þar af voru 734 millj. kr. vegna innlendrar framleiðslu. Lægra matvælaverð í kjölfar niðurfellingar vörugjalda mundi hins vegar leiða til aukinnar veltu samkvæmt skýrslunni. Að teknu tilliti til veltuáhrifanna yrði kostnaður ríkissjóðs vegna hennar 1.170 millj. kr. en í skýrslunni kemur fram að við niðurfellinguna mundu ársútgjöld meðalheimilis hins vegar lækka um 22 þús. kr.

Niðurfelling tolla.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að tollar af matvælum verði afnumdir í áföngum. Helmingur tollanna verði afnuminn 1. júlí nk. en haft verði víðtækt samráð við hagsmunasamtök bænda og neytenda um hvenær eftirstandandi tollar verði felldir niður.
    Helmingslækkun á tollum mundi minnka tekjur ríkissjóðs um 145 millj. kr. samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar en vegna veltuáhrifa kæmu um 900 millj. kr. aftur inn í ríkiskassann. Við endanlega niðurfellingu á tollunum yrðu áhrifin þau að tekjur ríkissjóðs drægjust saman um 290 millj. kr. en á móti kæmu auknar tekjur vegna aukinnar veltu innan lands upp á um 1.800 millj. kr. Slík breyting mundi ekki eingöngu auka tekjur ríkissjóðs heldur einnig færa íslenskum heimilum verulega kjarabót eða sem nemur um 90.000 kr. samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar.
    Lagaumhverfi tolla er hins vegar viðamikið og flókið og í skýrslu formanns nefndarinnar er ekki tilgreint hverju þurfi að breyta í tollalögum og fleiri lögum í kjölfarið. Nauðsynlegt er að sú skoðun hefjist hið fyrsta. Álagning tolla byggist ekki eingöngu á lögum heldur einnig reglugerðum, tollskrárviðaukum og alþjóðlegum viðskiptasamningum sem Ísland hefur gert eða á aðild að. Rétt er að nefna að tollamál heyra ekki eingöngu undir fjármálaráðuneytið heldur er landbúnaðarráðuneytinu einnig falin álagning tolla á ákveðnar vörur. Samfylkingin er alfarið þeirrar skoðunar að tollamál eigi eingöngu að vera málefni fjármálaráðuneytisins og landbúnaðarvörur beri ekki að undanskilja með því að láta tollákvarðanir sem þær varða heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Samfylkingin mun því beita sér fyrir því á Alþingi að breyta núverandi fyrirkomulagi með ofangreindum hætti.

Samræming virðisaukaskatts á matvæli.
    Samfylkingin hefur eins og áður er rakið ítrekað lagt fram tillögur þess efnis að lækka virðisaukaskatt á matvæli. Slík skattalækkun kæmi öllum þegnum landsins vel. Hún mundi styrkja kaupmátt almennings án þess að ýta undir ofþenslu og draga úr verðbólgu.
    Ýmis efnahagsleg og skattaleg rök eru fyrir því að hafa sem fæstar undanþágur frá virðisaukaskatti og að best sé að allar matvörur beri sama hlutfall virðisaukaskatts. Atvinnuvegasamtökin, svo sem Samtök atvinnulífsins, Samtök um verslun og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunarinnar (FÍS) og Samtök ferðaþjónustunnar, hafa lagt mikla áherslu á samræmingu skattsins.
    Matvælaverðsnefndin fjallaði ekki ítarlega um þetta efni en þar kom fram að um 20% matvæla bera 24,5% virðisaukaskatt en um 80% bera 14% virðisaukaskatt. Tekjumissir af samræmingu skattsins í 14% yrði um 950 millj. kr. en vegna aukinna veltuáhrifa kæmu um 150 millj. kr. aftur inn í ríkissjóð. Eftir samræminguna yrðu tekjur af skattinum samtals 7.300 millj. kr. Hvert prósent sem virðisaukaskattur væri lækkaður um, niður fyrir 14%,hefði í för með sér 523 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar.
    Samfylkingin leggur til með þessari þingsályktunartillögu að öll matvæli fari í 7% skattþrep. Heildarkostnaður ríkissjóðs af þeirri breytingu yrði um 4,0 milljarðar kr. að teknu tilliti til veltuáhrifa. Ætla má að slík skattalækkun gæti fært íslenskum fjölskyldum um 70.000 kr. í kjarabót.
    Flutningsmenn minna einnig á tillögur matvælaverðsnefndarinnar um lækkun virðisaukaskatts á veitingaþjónustu en í skýrslu frá Hagstofu Evrópusambandsins kemur fram að verðlag á gisti- og veitingaþjónustu hér á landi sé um 91% hærra en meðalverð í Evrópusambandinu.

Nýtt fyrirkomulag í stað tolla.
    Stuðningur Íslands við landbúnað skiptist aðallega í tvennt, annars vegar beina framleiðslustyrki og hins vegar innflutningstolla sem veita innlendri framleiðslu vernd fyrir innflutningi. Sem dæmi má nefna að greiðslur vegna mjólkurframleiðslu nema í ár 4.841 millj. kr., greiðslur vegna sauðfjárræktar, 2.983 millj. kr., greiðslur vegna grænmetisframleiðslu um 355,3 millj. kr. og framlög og sjóðir í þágu landbúnaðar fá í ár 1.844 millj. kr.
    Stuðningur íslenskra stjórnvalda við landbúnaðinn er einn sá hæsti í heimi. Opinber stuðningur við landbúnað er oftast mældur með PSE (e. producer subsidy equivalent) sem mælir stuðninginn sem hlutfall af verðmæti framleiðslunnar. Á árunum 1986–1988 nam stuðningur við íslenskan landbúnað mældur í PSE 77%. Meðaltal síðustu þriggja ára, 2003–2005, er 66%. Á meðal OECD-ríkja mælist stuðningurinn einungis meiri í Noregi, 67%, og í Sviss, 69%. Þar á eftir koma Suður-Kórea með um 62% stuðning og Japan með um 58%. Öll þessi ríki starfa saman í svokölluðum G-10 hóp á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. PSE-stuðningur í Evrópusambandinu er hins vegar miklu minni eða 34% og aðeins 16% í Bandaríkjunum.
    Athygli vekur að sú leið sem farin hefur verið til stuðnings landbúnaðargreinum hefur ekki afstýrt þeirri búsetuþróun að fólki fækkar stöðugt til sveita en fjölgar á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins um 3% mannaflans starfa nú í landbúnaði en þetta hlutfall var 5,6% árið 1991. Þá hafa atvinnutekjur í landbúnaði dregist aftur úr atvinnutekjum í öðrum atvinnugreinum. Mikilvægt er að skapa tækifæri til atvinnuþróunar í sveitum landsins, stuðla að breytingum í landbúnaði og gera bændum kleift að fara út úr greininni með reisn. Ef ekki verður brugðist skjótt við er hætt við að tækifærin og bestu bújarðirnar gangi mönnum úr greipum. Ásókn er mikil í jarðir til frístundanotkunar og hætta er á að það hafi áhrif á möguleika til þróunar og breytinga í landbúnaði.
    Á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur lengi verið stefnt að umbótum í landbúnaðarviðskiptum. Hins vegar hafa þær viðræður ekki staðið undir væntingum og er ómögulegt að spá um hvort og hvenær þær munu skila einhverjum árangri fyrir neytendur í þessum löndum. Athyglisvert er að í þeim viðræðum hefur Ísland skipað sér í flokk þeirra landa sem beita sér fyrir hvað víðtækastri verndarstefnu í landbúnaðarmálum.
    Samfylkingin telur tímabært að hefja breytingar sem gætu til frambúðar orðið bæði neytendum og bændum í hag. Ágallar núverandi kerfis birtast til dæmis í því að bóndinn fær skammarlega lágan hluta af útsöluverði vöru sinnar, í vissum tilvikum einungis 20–40%, á sama tíma og neytendur borga alltof hátt verð fyrir vöruna. Öllum ætti að vera ljóst að í slíku kerfi er alvarlegur brestur. Samfylkingin telur því nauðsynlegt að breyta formi stuðnings við landbúnaðinn. Í því sambandi er bent á leiðir eins og auknar óframleiðslutengdar greiðslur, styrki til ýmiss konar annarrar atvinnuuppbyggingar, umhverfisstyrki og styrki sem snúa að verndun og miðlun menningarverðmæta svo dæmi séu tekin. Slíkt er heimilt samkvæmt alþjóðaskuldbindingum. Samfylkingin er þeirrar skoðunar að breytt kerfi eigi að útfæra í samráði við bændur, og í tengslum við aðlögunarsamninga eins og teknir voru upp þegar umhverfi grænmetisframleiðslu var breytt.
    Kerfið þarf, að mati Samfylkingarinnar, að tryggja að bóndinn fái mun hærra hlutfall af útsöluverðinu en hann gerir nú, og jafnframt að hann geti keppt á markaði í krafti þeirra yfirburða sem gæði íslenskrar framleiðslu veita. Má í því sambandi benda á velheppnaðar breytingar á umhverfi grænmetisframleiðslu sem leiddu til aukinnar framleiðslu og sölu sem byggðist ekki síst á gæðasamkeppni innlendrar framleiðslu við innfluttar vörur.
    Árið 2002 voru tollar á grænmeti og kartöflur lækkaðir. 30% verðtollar voru þá felldir niður en komið á magntolli í staðinn. Einnig voru tollar á tómata, agúrkur og papriku afnumdir og í stað þeirra voru teknir upp beinir styrkir.
    Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá 2005 kemur fram að verð til neytenda á grænmetistegundum þar sem bæði verð- og magntollar voru aflagðir hefur lækkað um 25–30% frá árinu 2002. Framangreind breyting leiddi einnig til lækkunar á öðrum grænmetistegundum og ávöxtum um 15–20% á sama tímabili. Jafnframt var gerður aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða milli ríkisstjórnar Íslands, Bændasamtaka Íslands og Sambands garðyrkjubænda og teknar upp beingreiðslur til þeirra sem rækta gúrkur, tómata og papriku til að jafna samkeppnisskilyrði innlendra framleiðenda gagnvart innflutningi. Heildarfjárhæð beingreiðslna árið 2002 var 195 millj. kr. sem skiptist á milli tegunda en er nú hærri þar sem fjárhæðin fylgir þróun verðlags miðað við vísitölu neysluverðs. Af skýrslu um framkvæmd búvörusamninga árið 2005 má sjá að sala á framangreindu grænmeti hefur aukist frá árinu 2003 til 2005. Má þar nefna sem dæmi að af innlendri gúrku seldust 895.883,3 kg árið 2003 en 1.147.099,5 kg árið 2005.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að fundnar verði nýjar leiðir til stuðnings við innlendan landbúnað eða byggð í landbúnaðarhéruðum samhliða því að tollar á matvöru verði felldir niður í áföngum. Þó þarf að hafa í huga að alþjóðlegar takmarkanir eru á auknum styrkjum sem tengjast framleiðslu og því þarf stuðningurinn að vera með öðrum hætti. Niðurfelling vörugjalds og tolla á matvæli samfara því að íslenskur landbúnaður væri styrktur með beinum greiðslum sem eru ótengdar framleiðslu hefði meira gagnsæi í verðmyndun í för með sér.
    Bent hefur verið á að í nýju fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn gætu stuðningsgreiðslur t.d. beinst frekar að markmiðum umhverfisverndar og byggðamála. Má þar nefna stuðning við landgræðslu, endurheimt votlendis og skóga, að hætta beit á auðnum og rofsvæðum, uppbyggingu ferðamannaiðnaðar og útivistar, varðveislu menningarminja og búsetulandslags, fjölbreytileika í atvinnuháttum í dreifbýli, miðlun upplýsinga um búsetuhætti til barna og ungmenna eða varðveislu mikilvægra búfjártegunda svo nokkur dæmi séu tekin. Rétt er að leggja áherslu á að um þessar mundir hníga breytingar á landbúnaði mjög í átt að svokölluðum grænum greiðslum.
    Flutningsmenn leggja ríka áherslu á að allar breytingar á fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn verði gerðar í samráði við bændur, einkum hvað varðar færslu fjármagns úr framleiðslutengdum styrkjum yfir í græna styrki. Samfylkingin er jafnframt þeirrar skoðunar að það sé í anda stjórnfestu og gagnsærrar stjórnsýslu að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um hvernig stuðningi við landbúnað, eins og aðrar atvinnugreinar, sé háttað hverju sinni, og mun því beita sér fyrir því á Alþingi að í fjárlögum komi stuðningur við greinina fram með einföldum og skýrum hætti.

Samkeppnislög gildi um landbúnað.
    Um landbúnað eru í gildi margvíslegar undanþágur frá almennum samkeppnislögum, nr. 44/2005. Samkeppni knýr á um hagkvæmni jafnt í landbúnaði sem öðrum greinum. Lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, (búvörulög) eru hins vegar sérlög sem ganga framar almennum samkeppnislögum og kveða á um undantekningar frá samkeppnislögum, m.a. um löghelgað samráð á milli aðila á sama sölustigi sem ella væri ólögmætt. Flutningsmenn leggja því áherslu á að búvörulögin verði endurskoðuð sérstaklega með tilliti til þess að nema burt ákvæði sem skilja landbúnað undan almennum samkeppnislögum.
    Samfylkingin leggur enn fremur þunga áherslu á öflugt verðlags- og samkeppniseftirlit, m.a. til að koma í veg fyrir að fákeppni á birgjastigi leiði í senn til of hás verðs gagnvart neytendum og of lítils skerfs bænda af útsöluverði innlendrar framleiðslu. Koma þarf upp nánu samstarfi aðila vinnumarkaðarins, bænda og stjórnvalda til að fylgjast með því að hertar aðgerðir skili sér til neytenda. Minna má á að í aðlögunarsamningi sem gerður var við garðyrkjubændur var sett inn ákvæði sem fjallar sérstaklega um slíkt verðlagseftirlit. Gríðarlega mikilvægt er að fylgjast vel með verðmyndun landbúnaðarvara og að hægt sé að greina hvernig verðið á landbúnaðarvörum myndast á leiðinni frá bóndanum og þar til neytandinn kaupir vöruna. Hér er ekki síst átt við aukið eftirlit með heildsölumarkaðinum svo sem milli bænda og afurðarstöðva. Mikilvægt er að fylgjast með verðmyndun á allri matvöru og ekki einungis þeirri sem framleidd er á Íslandi.
    Í tengslum við tillögur Samfylkingarinnar um lækkun matarverðs munu þingmenn flokksins því einnig leggja fram á Alþingi beiðni um ítarlega skýrslu frá viðskiptaráðherra um alla þætti í verðmyndun innlendra landbúnaðarvara.

Mikill ávinningur fyrir almenning.
    Tillögur Samfylkingarinnar til lækkunar matvælaverðs fela í sér mikla kjarabót fyrir almenning. Þegar allar tillögur Samfylkingarinnar verða komnar til framkvæmda má gera ráð fyrir að matarreikningur fjögurra manna fjölskyldu lækki um 200.000 kr. á ári eða um ríflega fjórðung. Niðurfelling á vörugjöldum færir meðalfjölskyldunni um 22.000 kr. á ári og fullt afnám tollverndar um 90.000 kr. á ári samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar. Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum lækkar matarreikning íslensku fjölskyldunnar um 70.000 kr.
    Samanlagt gerir þetta um 182.000 kr. en til viðbótar má þar að auki gera ráð fyrir að þessar aðgerðir og aukið samkeppniseftirlit muni hafa jákvæð áhrif á annað verðlag í landinu. Þá eru ótalin hin ríku áhrif tollalækkana á verð ýmissa staðkvæmdarvara sem miklu skipta fyrir matarútgjöld fjölskyldunnar. Má í því sambandi vitna til orða formanns matvælaverðsnefndar en í skýrslu hans segir: „...jafnframt skiptir miklu að það hærra verð sem skattlögð vara ber umfram óskattlagða eða þungsköttuð vara ber umfram léttskattaða myndar skjól fyrir óeðlilega hátt verð á samkeppnis- og staðkvæmdarvörum.“
    Því er líklegt að matarkostnaður heimilanna muni í reynd lækka um meira en 200.000 kr. á ári. Kostnaður ríkissjóðs vegna tillagna Samfylkingarinnar að teknu tilliti til veltuáhrifa er metinn á um 3.700 millj. kr.
    Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að tillögur hennar leiða til lækkunar á vísitölu neysluverðs sem hefur umtalsverðan ávinning í för með sér fyrir skuldsett heimili. Ef öllum tillögum úr skýrslu formanns matvælaverðsnefndar yrði hrundið í framkvæmd mundi neysluverðsvísitalan lækka um 3,5%. Ef virðisaukaskattur af matvælum yrði einnig lækkaður niður í 7% leiddi það til enn frekari lækkunar vísitölunnar og því enn meiri kjarabóta fyrir almenning.

Mat á áhrifum af tillögum sem matvælaverðsnefnd hefur fjallað um.


Verðáhrif, bein og afleidd Matvöruverð, % Vísitala,%
Afnám vörugjalds 4,2 0,6
Niðurfelling tolla í 7.–15. og 17.–22. kafla tollskrár. 1,7 0,2
Samræming virðisaukaskatts í 14% 1,6 0,2
Lækkun virðisaukaskatts af veitingaþjónustu (8,4)1) 0,3
Alls 7,5 1,3
Dæmi um lækkun tollverndar af búvöru (2., 4, og 16. kafli tollskrár)
    Helmingslækkun 7 ,8 1,1
    Fullt afnám 15 ,6 2,2
Lækkun ársútgjalda heimila

Þús. kr.

Afnám vörugjalds
21,9
Niðurfelling tolla í 7.–15. og 17.–22. kafla tollskrár 8,7
Samræming virðisaukaskatts í 14% 8,1
Lækkun virðisaukaskatts af veitingaþjónustu 10,9
Alls 49,6
Dæmi um lækkun tollverndar
af búvöru (2., 4, og 16. kafli tollskrár)
    Helmingslækkun 40,9
    Fullt afnám 81,8
Áhrif á tekjur ríkissjóðs,2) á ári Millj. kr. Millj. kr.
Afnám vörugjalds -1.550 +380
Niðurfelling tolla í 7.–15. og 17.–22. kafla tollskrár -650 +160
Samræming virðisaukaskatts í 14% -950 +150
Lækkun virðisaukaskatts af veitingaþjónustu -960 +150
Alls -4.110 +840
Dæmi um lækkun tollverndar af búvöru (2., 4., og 16. kafli tollskrár)
    Helmingslækkun -145 +900
    Fullt afnám -290 +1.800
1)     Áhrif á veitingalið í vísitölu neysluverðs.
2)     Neikvæðar tölur (-) sýna tekjutap ríkissjóðs vegna skattalækkana. Jákvæðar tölur (+) sýna tekjuaukningu ríkissjóðs af þeirri veltuaukningu innan lands sem fyrrgreindar skattalækkanir hafa í för með sér.