Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 28  —  28. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskipulagningu á skattkerfinu.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson,


Jón Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Helgi Hjörvar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Einar Már Sigurðarson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Björgvin G. Sigurðsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskipuleggja skattkerfið með tilliti til skattlagningar einstaklinga, með það að markmiði að koma á meira jafnræði í skattlagningu, auka sanngirni í dreifingu skattbyrði og draga úr jaðarsköttum. Sérstaklega verði útfærðar leiðir til lækkunar á skattbyrði fólks með lágar lágar og meðaltekjur og að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum beri fjármagnstekjuskatt í stað tekjuskatts.
    Nefndin verði skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka, heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka lífeyrisþega.
    Nefndin skili skýrslu um endurskipan á skattlagningu einstaklinga sem kynnt verði Alþingi á haustþingi 2007, ásamt tillögum að lagabreytingum og kostnaðar- og áfangaskiptri framkvæmdaáætlun. Stefnt verði að því að fyrsti áfangi í nýskipan í skattamálum einstaklinga taki gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Tilgangur þessarar tillögu er að ná breiðri samstöðu milli stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka lífeyrisþega um endurskipulagningu á skatta- og bótakerfi með það að markmiði að ná fram meira jafnræði og sanngirni í skattlagningu. Sérstaklega er brýnt að útfæra leiðir til að lækka skattbyrði fólks með lágar tekjur og meðaltekjur.
    Samkvæmt álagningu ársins 2006 vegna launatekna 2005 er helmingur hjóna og sambúðarfólks sem telja fram launatekjur með tekjur undir 500 þús. kr. á mánuði. Erfitt er að greina launatekjur einstaklinga út frá skattframtölum, þar sem hluti framteljenda er í námi eða hlutastarfi.
    Sama gildir þegar litið er til tekna árið 2004 vegna álagningar árið 2005 en nýrri upplýsingar liggja ekki fyrir hjá Hagstofu. Í upplýsingum Hagstofu um meðaltekjur eftir aldri og hjúskaparstöðu, sem unnar eru upp úr framtöldum tekjum einstaklinga, kemur fram að á árinu 2004 voru heildaratvinnutekjur hjóna og sambúðarfólks tæpar 5,9 millj. kr. og árstekjur einstaklinga tæpar 1,9 millj. kr. Uppfært miðað við meðaltal launvísitölu milli áranna 2004 og 2005 má áætla að meðaltekjur hjóna og sambúðarfólks séu tæpar 6,3 millj. kr. eða um 524 þús. kr. á mánuði og einstaklingar hafi miðað við sömu uppfærslu tæpar 2 millj. kr. árstekjur. Þar verður þó að hafa í huga að um getur verið að ræða að framteljandi sé í námi eða hlutastarfi. Tekjulausum framteljendum er sleppt í þessum útreikningum Hagstofu. Athyglisvert er einnig að samkvæmt skattframtölum í ár miðað við tekjur 2005 voru ríflega 16 þúsund framteljendur í hópi einstaklinga 25 ára og eldri með tekjur undir 130 þús. kr. og 6.857 hjón með samanlagðar tekjur undir 260 þús. kr. á mánuði.
    Mikilvægt er að almenn sátt ríki um hvernig skattbyrðin dreifist milli landsmanna og að viðunandi jafnræðis sé gætt í skattlagningu óháð uppruna tekna, þannig að skattkerfið sé einfalt og samræmi milli skattforma. Jafnframt er brýnt að allar breytingar á skattkerfinu taki mið af því að ekki þurfi að skera niður í í velferðar-, heilbrigðis- eða félagsmálum.

Þróun skattbyrðar hér á landi.
    Á umliðnum árum hefur aukist mjög ójöfnuður hér á landi í skattbyrði og tekjuskiptingu landsmanna. Skattbyrði hefur jafnt og þétt þyngst á fólki með lágar tekjur og meðaltekjur á sama tíma og skattbyrði hefur verið að léttast á fólki með hæstu tekjurnar. Þetta má einkum rekja til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á ákvæðum skattalaga síðasta áratug, eða frá árinu 1995, einkum þó árin 2001 og 2003, og áherslna sem stjórnvöld hafa lagt á að flytja skatta af fjármagni og fyrirtækjum yfir á einstaklinga.
    Að ýmsu leyti hefur skattkerfið hér á landi þróast í aðra átt en skattkerfi þeirra landa sem við berum okkur saman við. Meiri jöfnuður ríkti áður í skattkerfinu en dregið hefur mjög úr tekjujöfnunaráhrifum í skattkerfinu og í velferðarkerfinu hér á landi. Að mörgu leyti hefur tekjuskiptingin og ójöfnuðurinn í skattkerfinu þróast nær því sem gerist í Bretlandi og Bandaríkjunum. Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur nýverið haldið því fram að sennilega sé enginn hátekjuhópur á Vesturlöndum með svo litla skattbyrði sem hátekjumenn Íslands. Nefnir Stefán að ef 600 ríkustu fjölskyldur landsins byggju í Bandaríkjunum mundu þær greiða 31,3% af tekjum sínum í skatt í stað 13–15%.
    Þróunin hér á landi hefur líka verið sú að sífellt stærri hluti efnafólks er með mikinn hluta tekna sinna sem fjármagnstekjur. Það greiðir hlutfallslega miklu lægri skatta en almennir launþegar, þegar verulegur hluti teknanna ber einungis 10% fjármagnstekjuskatt. Í álagningarskránni á þessu ári vegna tekna 2005 kemur fram að 6.600 framteljendur eru með hærri fjármagnstekjur en aðrar tekjur og að 2.200 manns greiða einungis fjármagnstekjuskatt en á sama tíma greiða almennir launþegar og lífeyrisþegar tæplega 37% skatt. Þar kemur einnig fram að 1% skattgreiðenda, eða 600 fjölskyldur, eru með 60% allra fjármagnstekna. Að meðaltali eru þessar fjölskyldur með 95 milljónir kr. í fjármagnstekjur á ári. Eins er athyglisvert að 10% hjóna, um 6.000 talsins, eru með 83% allra fjármagnstekna. Þetta þýðir í raun að 90% skattgreiðenda eru með mjög litlar eða engar fjármagnstekjur.

Þreföldun á skattbyrði lágtekju- og meðaltekjufólks.
    Fjármálaráðherra hefur ítrekað svarað fyrirspurnum á Alþingi um breytingar á skattbyrði sem staðfesta að skattbyrði hefur þyngst verulega á fólki með lágar tekjur og meðaltekjur árin 1995–2006 en lækkað á tekjuhæstu hópunum. Í svari fjármálaráðherra frá síðasta löggjafarþingi (þskj. 1246, 679. mál) kemur t.d. fram að skattbyrði hjóna með samanlagt 300 þús. kr. mánaðartekjur árið 2006 sé þrefalt meiri en hún var árið 1995 miðað við jafngildar tekjur á þessum árum. Skattbyrði einstaklings með 130 þús. kr. tekjur árið 2006 og jafngildi þeirra á árinu 1995 miðað við þróun launavísitölu hefur hátt í fjórfaldast milli þessara ára. Eins og sjá má af súluritunum hér á eftir hefur skattbyrðin þyngst verulega á fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, þ.e. 100–420 þús. kr. mánaðartekjur, miðað við þróun launavísitölu á tímabilinu. Jafnvel þótt miðað sé við neysluvísitölu er niðurstaðan aukin skattbyrði hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur. Endurgreiðslur úr skattkerfinu, t.d. til tekjulágra hjóna, m.a. með greiðslu barnabóta, hafa líka lækkað verulega á þessu tímabili. Því hefur verið haldið fram opinberlega að skattbyrði 80–90% skattgreiðenda hafi aukist á undanförnum árum. M.a. komið fram í vönduðum úttektum Stefáns Ólafssonar prófessors að skattbyrði 90% skattgreiðenda hafi þyngst á sl. 10 árum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skattlagning einstaklinga hér á landi og í öðrum löndum OECD.
    Í flestum löndum er fjármagnstekjuskattur mun hærri en hér á landi og skattbyrði einstaklinga hefur verið að léttast meira en skattbyrði fyrirtækja.
    Hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu í fyrra jókst mest á Íslandi af öllum löndum OECD, eða úr 38,7% í 42,4%, að því er bráðabirgðatölur OECD sýna. Skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu jókst í 17 af þeim 24 OECD-löndum sem tölur ná yfir. Þegar horft er til lengri tíma sker Ísland sig nær algerlega úr að því leyti hversu mjög skatttekjur hafa vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu.
    Þannig námu skattekjur hins opinbera 31,2% af landsframleiðslunni árið 1995, árið 2000 var hlutfallið komið í 38,3% og 42,4% í fyrra. Þannig hefur skattheimtan sem hlutfall af landsframleiðslu aukist um meira en 11 prósentustig á aðeins einum áratug en til samanburðar má nefna að á sama tímabili jókst skattheimtan sem hlutfall af landsframleiðslu um minna en eitt prósentustig í OECD-löndunum í heild.
    Árið 1990 var skatthlutfall hins opinbera á Íslandi 3,2% undir meðaltalinu í OECD en árið 2004 var það 2,8% yfir meðaltalinu.
    Þegar horft er á tekjur hins opinbera af tekjuskatti einstaklinga og af hagnaði fyrirtækja er þróunin svipuð, hlutfallið á Íslandi var 10,7% af vergri landsframleiðslu árið 1995 en var komið í 19,3% í fyrra. Á sama tímabili stóð þetta hlutfall í stað í 12,5% fyrir OECD-löndin í heild og einnig OECD-löndin í Evrópu.
    Þegar eingöngu er skoðuð þróun skatta einstaklinga kemur í ljós að skattbyrði hér á landi, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, jókst úr 10% í 14,9% á árunum 1995–2003 en fyrir árið 1995 var þetta hlutfall mun lægra. Árið1990 var skattlagning á einstaklinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 8,6%. Innan OECD-landanna lækkaði skattbyrði einstaklinga á sama tíma aftur á móti lítillega, eða úr 9,9% í 9,4%.
    Þegar litið er á skattlagningu á einstaklinga sem hlutfall af heildarskattlagningu er sama þróun uppi. Skattlagning mæld á þennan mælikvarða sýnir hækkun úr 31,1% árið 1995 í 37,6% á árinu 2003. Innan OECD-landanna hafa skattar á einstaklinga sem hlutfall af heildarskattlagningu farið úr 27,0% í 24,9%.

Forgangsverkefni að lækka skattbyrði á lágar tekjur og meðaltekjur.
    Eitt brýnasta verkefni stjórnvalda hér á landi er að leggja sitt af mörkum og beita stjórntækjum ríkisins til að minnka hér ójöfnuð, ekki síst með því að koma á meira réttalæti í skattlagningu landsmanna. Það er megintilgangur þessarar tillögu að í samráði við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök lífeyrisþega verði útfærðar leiðir sem tryggi meiri jöfnuð í skattlagningu. Sérstök áhersla er lögð á að lækka skattbyrði fólks með lágar tekjur og meðaltekjur og að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum beri fjármagnstekjuskatt í stað tekjuskatts.